Starfshópur undir forystu Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl. komst að því að dögunum að elítan hjá ríkinu, stjórnendur hjá hinu opinbera sem falla undir kjararáð, hafi á undanförnum árum þróast í launum með sambærilegum hætti, í stórum dráttum, og aðrar stéttir á vinnumarkaði. Þannig hafi launin verið í takt við „almenna launaþróun“ eins og segir í lögum um ráðið, að taka þurfi tillit til við launaákvarðanir.
Þessi niðurstaða var þvert á mat verkalýðshreyfingarinnar og hagsmunasamtaka atvinnurekenda, bæði Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs, en þau hafa gagnrýnt kjararáð harðlega, fyrir höfrungahlaups ákvarðanir í launum, þar sem elítan er sett í leiðandi hlutverk miðað við aðrar stéttir þegar launaþróun er annars vegar.
Meðal annars af þessum sökum stendur ekki til að endurskoða tugprósenta launahækkanir elítunnar hjá ríkinu að undanförnu, heldur frekar að breyta því hvernig eigi að ákvarða laun elítunnar framvegis. Flestir voru sammála um að það þyrfti að gera breytingar, svo það kom ekki á óvart.
Launaskriðið hjá ríkinu hefur reyndar verið með nokkrum ólíkindum, allt frá því að laun lækna voru hækkuð um tugi prósenta árið 2015.
Höfrungahlaup í krónum
Ein af rökunum fyrir því höfrungahlaupi í launaþróun, voru þau, að læknar væru með svo lág laun, í alþjóðlegu samhengi, að það þyrfti að hækka launin mikið, til að koma í veg fyrir skort á sérfræðilæknum og ýta undir að þeir kæmu heim. Þegar samið var við lækna, eftir verkfall og hörð átök, kostaði Bandaríkjadalur tæplega 140 krónur.
Núna kostar hann 100 krónur.
Í heimi íslensku krónunnar gerist alls konar og það endar einhvern veginn. Ekkert er öruggt.
Laun lækna, á alþjóðavísu, hafa því tekið algjöra kúvendingu upp á við - mælt í bæði krónum (fyrst það var reynt að leiðrétta alþjóðlegu launin með krónum, þrátt fyrir að það sé ómögulegt verkefni) og erlendri mynt.
Ekki er allt sem sýnist
En vandinn sem kjararáð hefur verið að glíma við, og fengið yfir sig mikla gagnrýni fyrir hvernig það hefur horft á málin, kristallast í skilgreiningu á „almennri launaþróun“. Í lögum um kjararáð er það gert að lagaskyldu, að ráðið horfi til þess að laun elítunnar hjá ríkinu þróist í takt við almenna launaþróun, eins og áður segir.
Kjararáð, starfshópur stjórnvalda og stjórnvöld sjálf - að forsetanum undanskildum - horfa þannig á hlutina að horfa til sömu hlutfallslegu breytinga á launum, þegar það er metið hvort elítan sé að fylgja almennri launaþróun eða ekki.
Þetta er umdeilt hagstjórnarlegt atriði, og ekki augljóst að þau hafi rétt fyrir sér um þetta. Kannski hafa verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur rétt fyrir sér, þegar þau segja að kjararáð horfi of þröngt á hlutina.
Til einföldunar er hægt að taka dæmi:
Fólkið á gólfinu er með 500 þúsund í laun og hækkar svo um 10 prósent í kjarasamningum. Það fær því 550 þúsund með hækkuninni, hækkar um 50 þúsund krónur.
Stjórnandi hjá ríkinu er með 1,5 milljónir í laun, og hækkar um 10 prósent eftir ákvörðun kjararáðs. Heildarlaunin hækka um 150 þúsund krónur, eða þrefalt meira en hjá fólkinu á gólfinu.
Þarna vaknar spurningin: Er ákvörðun kjararáðs, um að hækka launin hjá stjórnandanum um 10 prósent, í takt við „almenna launaþróun“?
Ef svo er, þá mun heildarlaunamunur á milli fólksins á gólfinu og síðan elítunnar hjá ríkinu alltaf breikka, og það mikið og hratt. Ekki er víst að það sé sú almenna launaþróun sem að er stefnt.
Í þessu tilviki, gæti það verið í takt við almenna launaþróun, að hækka laun stjórnandans um fjögur prósent, og samt yrði krónutöluhækkunin hærri en hjá fólkinu á gólfinu, og heildarhækkunin fyrir launagreiðandann mun hærri, sé horft á málin út frá þeim hagsmunum, vegna áhrifa á launatengd gjöld.
Rýnivinna og krónutöluhækkanir
Ef að verkefni kjararáðs myndi færast í þessa rýnivinnu krónutöluhækkana, og hvað telst eðlilegt á hverjum tímapunkti - fremur en að fylgja hlutfallslega sömu launaþróun - þá er líklegt að ákvarðanir ráðsins myndu snúast um meiri smáatriði og tímsetningar í launaákvörðunum, og hvað teljist eðlilegur munur milli fólksins á gólfinu og síðan elítunnar.
Þannig myndi þetta flókna og viðkvæma hagstjórnartæki, sem ákvörðun launa elítunnar er, ekki verða eins hættulegt og það er núna. Það er ekki víst að þetta snúist um grundvallarbreytingar á lögum um ráðið, heldur frekar hvernig unnið er eftir þeim.