Samkvæmt skýrslu ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, kvörtuðu Sjálfstæðismenn í aðdraganda síðustu alþingiskosninga undan hlutdrægri umfjöllun í fjölmiðlum. Við nánari eftirgrennslan Kjarnans kom í ljós að um var að ræða formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Birgi Ármannsson, og framkvæmdastjóra flokksins, Þórð Þórarinsson.
Þeir áttu sem sagt samtal við fulltrúa ÖSE vikuna fyrir kosningar, en samkvæmt Birgi voru tveir fundir. Á fyrri fundinum var fjallað um kosningarnar og kosningaeftirlit en á þeim síðari var fjallað um fjölmiðla, að sögn Birgis. Kvartanirnar beindust að því er virðist aðallega að umfjöllun RÚV og þótti þeim vera slagsíða í fréttaumfjöllun þeirra um svokallað lögbannsmál sem hefur verið áberandi síðan sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti lögbann á umfjöllun Stundarinnar upp úr gögnum þrotabús Glitnis.
Í fyrsta lagi fannst þeim ósanngjarnt að málum væri stillt upp þannig að Sjálfstæðisflokkurinn bæri á einhvern hátt ábyrgð á lögbanninu. Birgir sagði að það væri þeim algjörlega óviðkomandi. Í öðru lagi nefndu þeir við ÖSE að þeim fyndist ósanngjörn sú umræða sem beinist að því að um væri að ræða lögbann á gögn um fjármál Bjarna Benediktssonar. Lögbannið hefði ekki beinst að því heldur að gögnunum í heild sinni.
Ennfremur talar Birgir um að Ríkisútvarpið hafi ekki sinnt „hlutleysisskyldu“ sinni nægilega vel í umfjöllun sinni. Hann nefnir tvö dæmi því til stuðnings en útskýrir það þó ekki frekar. Hér er rétt að taka upp boltann og byrja að velta því fyrir sér hvað hann eigi við. Til þess ætla ég að demba mér í hugtökin sem eru notuð og tengja þau við sjálft hlutverk fjölmiðla.
Hvernig lýsir hlutleysi fjölmiðla sér?
Auðvitað á miðill að vera hlutlaus en það þýðir ekki að hann eigi að vera afstöðulaus. Hann á að sjá að gagnrýnivert sé að þingmaður hafi verið staðinn að því að segja ósatt í viðtali aðspurður um upphæðir í sjóðum í banka. Fjölmiðill sem fjallar ekki um að lögbann hafi verið sett á umfjöllun um slík viðskipti er ekki hlutlaus. Þvert á móti er hann annað hvort að sýna af sér sinnuleysi eða óheiðarleika og þá er hann að bregðast skyldum sínum sem fjórða valdið.
Í fréttum skal farið yfir staðreyndir og allar hliðar kannaðar. Það er hjarta blaða- og fréttamennsku. Fjölmiðill sem fjallar ekki gagnrýnið um þá sem sitja á valdastóli er með þögn sinni að bregðast hlutverki sínu og verða hlutdrægur. Fjölmiðlar fengu svo sannarlega að læra þá lexíu eftir að Hrunið var gert upp á árunum þar á eftir. Þeir fengu áfellisdóm um störf sín, þeir sinntu skyldum sínum ekki nægilega vel og voru oft og tíðum sinnulausir gagnvart viðskiptalífinu og stjórnmálunum. Bagalegt væri ef við færum aftur til þess tíma að fjölmiðlar hefðu almennt ekki þorið til að fjalla gagnrýnið um þá sem sitja við völd. Enginn ætti að vilja það.
Að þola sviðsljósið
Við höfum alvarleg dæmi þess síðasta áratuginn að stjórnmálamenn hafi gert athugasemdir við umfjallanir fjölmiðla. Og vegna almenns rekstrarvanda fjölmiðla þá er óboðlegt fyrir miðil að sitja undir því af ótta við afleiðingarnar. Í fyrsta lagi fyrir Ríkisútvarpið að þurfa að sæta ásökunum þess efnis að það sé hlutdrægt í umfjöllun og að sama fólkið sem gagnrýnir það fari með valdið til að skera niður fjárveitingar til stofnunarinnar. Í öðru lagi að blaða- og fréttamenn þurfi einnig að eiga það á hættu að stjórnmálamenn hætti að tala við þá eða útiloki þá ef þeim hugnast ekki umfjöllunin. Það er að sjálfsögðu ekki boðlegt í lýðræðisríki. Stjórnmálamenn vinna fyrir fólkið og fjölmiðlar líka. Það er kjarninn málsins.
Ef fjölmiðlar geta ekki bent á óeðlileg tengsl stjórnmálaflokka eða -manna við fyrirtæki eða hagsmunaárekstra þá eru þeir gagnslausir sem upplýsingaaðilar. Þeir gætu allt eins verið almannatengslastofa. Þess vegna þurfa stjórnmálamenn að þola þær umfjallanir sem birtast í sjónvarpi og blöðum um þá. Stjórnmálafólk þarf að gera sér grein fyrir því að hlutverk fjölmiðla er gagnlegt fyrir samfélagið og að gagnrýni er nauðsynleg.
Hlutverk fjölmiðla að grafa dýpra
Að því sögðu eru fjölmiðlar ekki sjálfir hafnir yfir gagnrýni. Enginn er svo heilagur að hann geri ekki mistök og þess vegna var lærdómur fyrirhrunsáranna mikilvægur. En það er „trympska“ að kvarta undan umfjöllun án þess að geta hrakið staðreyndir. Kvartanir stjórnmálamanna lýsa sér í gildisdómum en ekki í rökstuddum athugasemdum. Almennar ásakanir um hlutdrægni eru ekki nægar, heldur þarf að benda á sérstök ummæli eða staðreyndir þess efnis.
Hlutverk fjölmiðla er aftur á móti á kristaltæru. Að upplýsa almenning um það sem gerist í samfélaginu okkar. Þeir eiga að vera greinandi og fara í saumana á því sem er hulið sjónum almennings. Fólk hefur alla jafna ekki tíma í lífi sínu til að kafa í flóknum ársskýrslum fyrirtækja, skoða öll frumvörp sem fara í gegnum þingið eða þekkja hagsmunatengsl. Við höfum öll okkar hlutverk í samfélaginu og hlutverk fjölmiðla er að finna sannleikann sem sumir vilja ekki að líti dagsins ljós.
Enn lögbann
Lögbannið á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media er búið að standa yfir í 139 daga. Ég endurtek: 139 daga. Fjölmiðill á Íslandi hefur þurft að sitja undir lögbanni í rúman ársþriðjung. Héraðsdómur hefur kvatt upp dóm þess efnis að ekki sé statt að sýslumaður setji slíkt lögbann. Í forsendum dóms héraðsdóms segir meðal annars að Stundin hafi með umfjöllun sinni um málefni þáverandi forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar og annarra ekki gengið nær einkalífi þeirra sem um ræddi en óhjákvæmilegt hafi verið í opinberri umræðu í lýðræðissamfélagi um málefni sem varðar almenning og að nægar ástæður hafi þar af leiðandi verið fyrir hendi sem réttlættu birtingu þessara skrifa.
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu gerði jafnframt athugasemdir við lögbannið þegar það var sett á en Harlem Désir, fulltrúi ÖSE, lýsti áhyggjum sínum af málinu. Hann skoraði á íslensk stjórnvöld að beita sér ekki frekar fyrir takmörkunum á umfjöllun fjölmiðla í þessu máli og afnema þær takmarkanir sem þegar eru í gildi.
Enn er beðið eftir útskurði vegna þess að Glitnir HoldCo áfrýjaði dómi héraðsdóms til landsréttar. Enn búa Íslendingar við óeðlileg afskipti sýslumanns og þá sýn sumra stjórnmálamanna að eðlilegt sé að kvarta yfir umfjöllun um þá sjálfa eða flokk þeirra. Þetta er normið sem við búum nú við. Þetta þarf að breytast.