Í nýlegu eintaki þýska dagblaðsins Die Zeit má finna sláandi grein um gyðingaandúð í Þýskalandi dagsins í dag. Þar eru frásagnir fjölda fólks af því hvernig það hefur sætt hótunum eða árásum sökum þess að vera gyðingar.
Að svona lagað skuli þrífast í Þýskalandi í dag er í sjálfu sér nokkuð mótsagnakennt því þvers og kruss í borgum og bæjum má sjá ýmiskonar minnisvarða sem eiga að minna fólk á helförina og hversu hættulegt það er að gleyma morðum á milljónum gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni
Þýskaland er flókið land. Þar hafa háværir hópar þjóðernissinnaðra-öfgaafla lengi verið til vandræða og á síðustu árum hefur verið tekið við miklum fjölda flóttamanna frá löndum þar sem pólitískt ástand hefur kynt undir almennum fordómum og andúð á gyðingum. Svo virðist sem einhver öfl í þessum ólíku hópum geti, þrátt fyrir allt, sameinast í andúð á gyðingum – nokkuð sem hættir til að vera tabú.
Samkvæmt blaðinu eru nú um hundrað þúsund gyðingar ríkisborgarar í Þýskalandi. Flestir þeirra hafa komið frá fyrrum Sovétríkjunum en um þrettán þúsund hafa flutt frá Ísrael til Þýskalands. Í landinu eru að minnsta kosti hundrað samtök fyrir gyðinga, tuttugu leikskólar og sjö skólar ætlaðir til framhaldsnáms fyrir gyðinga. Það eru gefin út dagblöð í nafni gyðinga og í flestum stærri borgunum má finna veitingastaði eyrnamerkta gyðingum. Allt er þetta hluti hversdagsins – rétt eins og antísemítisminn.
Þegar ástsæl skoðun brann
Frásagnir fólksins eru ansi ljótar og bera vott um að sem gyðingur í Þýskalandi nútímans megir þú eiga von á ýmsu við hversdagslegustu athafnir. Árið 2016 voru 1468 glæpir raktir til antísemítisma skráðir hjá ríkissaksóknara – og þar að auki þrjátíu og fjögur ofbeldisverk – og, eins og segir í blaðinu, að baki hverri árás dylst erfið sorgarsaga.
Fyrirsögn greinarinnar er „Hversu antísemítískt er Þýskaland?“ Og í inngangi hennar stendur: „Hatur á gyðingum fyrirfinnst ekki lengur hér. Á þá leið hugsa margir. Síðan var fáni Ísraels brenndur í Berlín. Getur verið að flóttafólk hafi innleitt gyðingaandúð á ný í landið? Eða – var hún aldrei með öllu horfin?“
Í greininni má svo finna þennan bút: „Það var 8. desember, á föstudegi. Upptökur frá þessum degi sýna fyrst og fremst unga karlmenn. Margir höfðu slengt Kufija um hálsinn á sér, svarthvítum hálsklúti Palestínumanna; sumir þeirra veifuðu palestínska flagginu og nokkrir voru með borða frá palestínsku hryðjuverkasamtökunum Hamas. Þeir voru hér til þess að mótmæla ákvörðun Bandaríkjaforseta, Donalds Trump, um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Sumir hrópuðu á þýsku og arabísku: Barnamorðingi Ísrael! og Zíonistar sama sem fasistar! Það er ekki alveg ljóst hverjir mótmælendur voru. Voru þetta ungir menn með arabískar rætur sem höfðu alist upp og gengið í skóla í Þýskalandi? Eða flóttamenn, bara búnir að dvelja stutt í landinu? Aðeins eitt er víst: Áður en lögreglan leysti upp mótmælin brann heimatilbúið ísraelskst flagg með blárri Davíðsstjörnu á hvítu laki – og með þessu flaggi brann sú almenna og ástsæla skoðun að það væri ekki pláss fyrir gyðingahatur í þessu landi sem eitt sinn var ofbeldisgerandans.“
Sársaukafullt minni
Vitaskuld má – og á – að gagnrýna hernað og barnadráp Ísraelsmanna í Palestínu. En alhæfingar um gyðinga eru annað mál.
Birtingarmynd umræðu um gyðinga og siði þeirra – rétt eins og umræða um múslima – er þannig í eðli sínu, í ljósi sögunnar, að hún flöktir hraðar en hugur manns. Hún verður fljótt svo merkingarþrungin og í rauninni hál. Og hún getur snúist fyrirvaralaust upp í andstæðu sína. Í Berlín kynntist ég leikkonu frá Ísrael sem hafði m.a. leikið í vinsælli sýningu um sögu Ísraelsmanna, Palestínumanna og Þjóðverja.
Þetta leikrit fór beint í kjötið á sársaukafullu minni jafnt sem eldfimum nútíma. Leikararnir byggðu verkið á reynslu sinni, fjölskyldu sinna og forfeðra undir stjórn dramatúrgs frá Ísrael og það fór víða um lönd. Kvöldið sem ég fór að sjá það var boðið upp á umræður eftir sýninguna og þar – árið 2009 – mátti sjá aldrað gamalt fólk gráta – og rökræða. Þessi sama leikkona átti eftir að taka þátt í öðru leikriti í Berlín og sagði mér seinna að það hefði verið sniðgengið af einhverju fólki vegna þess að hluti hópsins kæmi frá Ísrael – sama þótt verkið væri gagnrýnið á stefnu stjórnvalda þar gagnvart Palestínu.
Sprengjuhótun í barnaskóla
Í Berlín kynntist ég einnig þýskri kennslukonu, móður vinar sonar míns, sem sagði mér frá krúttlegum skóla sem hún hafði augastað á fyrir soninn. Sonurinn var með bæklaða mjöðm og skólinn hafði það sérstaklega í stefnuskránni að hylla fjölbreytni í mannlífinu. Stuttu eftir spjallið gerðist það að gyðingadrengur í þessum skóla var lagður í einelti af nokkrum drengjum af arabískum uppruna. Skólayfirvöld gripu inn í eineltið og í kjölfarið barst barnaskólanum sprengjuhótun – á tímum þegar skólar fyrir gyðingabörn í Evrópu hafa komist í eldlínu hryðjuverkamanna.
Hvort drengirnir eða eldri bræður þeirra áttu hlut að máli, smitaðir af tali fullorðinna og tíðaranda, veit ég ekki. En ég man að annað eins eineltismál hafði verið í hverfisskólanum í götunni okkar þar sem lítill gyðingadrengur hafði einnig verið lagður í einelti út af uppruna. Umræða hinna fullorðnu getur þannig smitast þangað sem hún skyldi: Í galopið barnseyrað. Líka á Íslandi. Nú síðast í morgun gekk ég yfir torgið fyrir framan Hallgrímskirkju og krossbrá þegar sonur minn fór að kvarta yfir að það væri hvergi þverfótandi fyrir útlendingum. Ekki hefur hann þetta frá mér eða öðrum nánum aðstandendum – en hann er nýbyrjaður í skóla og þar spjallar hann um lífið og tilveruna við jafnaldra sína.
Á sinn hátt er skondið að heyra ávæning af umræðu um siði gyðinga – og múslima – á Íslandi. Mér skilst á kunningjakonu minni frá Ísrael sem býr í Berlín, vinkonu áðurnefndrar leikkonu, að samfélag gyðinga sé frekar fámennt hér en hún hefur verið að gera heimildamynd um gyðinga hér á landi. Raunar er maður orðinn vanur að heyra alhæfingar um gyðinga á samfélagsmiðlunum þegar ástandið verður sem eldfimast í Palestínu og stundum grunnt á því að þeir sem vilji hvað ákveðnast fordæma fordóma troði sjálfir marvaðann í þeim.
SS-svínapylsur – og allt það...
Þessi sama kona sagði mér á sínum tíma að það væri ekki á það hættandi að tala hebresku á ákveðnum svæðum í Berlín. Staðreyndin er sú að gyðingar sæta, enn þann dag í dag, fordómum og ofbeldi þar sem síst skyldi í Evrópu. Og Ísland lafir í Evrópu, þrátt fyrir allt. Landinn býr í veruleika þar sem orð eru dýr, sama hvort við gjömmum á samfélagsmiðli á Íslandi eða á meginlandinu. Við erum hluti af stærri veruleika.
Hverju skiptir hvort facebook-síðan er staðsett í Berlín eða Reykjavík? Hún er alls staðar og hvergi. Og Íslendingar eru með í að móta veruleikann á sinn hátt, ef svo má segja, jafnvel þó að hér búi ekki svo margir gyðingar. Í allri lókal umræðunni erum við óhjákvæmilega hluti af víðfeðmari umræðu.
Nú er þessum pistli ekki ætlað að vera innlegg í umræðu um umskurð. Ég get aldrei sett mig í spor lítils drengs sem er umskorinn og mitt taugaþanda móðurhjarta myndi fríka út ef einhver gerði sig líklegan til að umskera son minn. En hjartað tilheyrir jú mér, erkiíslenskri konu í Reykjavík City sem er alin upp við SS-svínapylsur – og... bara, já.
En öll sú umræða getur fætt af sér aðra óæskilegri umræðu. Auðvitað er í góðu lagi að umræða fæði af sér umræðu, þannig á það að vera – en stundum er umræða þess eðlis að hún krefst hugsunar, meðvitundar um umheiminn og mannvirðingar.