Flokksþing Framsóknarflokksins er nýafstaðið og það gefur tilefni til að velta því fyrir sér hvort greina megi gamlar rætur flokksins - samvinnu- og sjálfbærnihugsjónina - í stefnu flokksins, og hvernig hún birtist okkur í nútímanum.
Forysta flokksins, með ráðherrana Sigurð Inga Jóhannsson sem formann og Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem varaformann, finnst mér vera sterkt pólitískt teymi, þó alltaf megi deila um einstaka stefnumál. Heilt yfir er áherslan á hófsemd og málamiðlun það sem helst einkennir þau. Fyrir vikið er Framsóknarflokkurinn opinn til vinstri og hægri, sameiningarafl.
Krafa nútímans er samvinna
Það er merkilegt að máta samvinnuhugsunina - bæði samvinnufélagaformið sem slíkt og einnig félagslega þátt samvinnuhugsunarinnar - við þarfir og helstu áskoranir, ekki síst á alþjóðavettvangi. Við fyrstu sýn virðist sem samvinnuhugsjónin í örsamfélagum á litla Íslandi eigi ekki mikið sameiginlegt með áskorunum borgarsamfélaga í heiminum, en það má finna sameiginlega fleti.
Hér á Vesturströnd Bandaríkjanna er eitt helsta markmiðið í uppbyggingu borgarsamfélaga að ýta undir meiri samvinnu, samnýtingu og þannig sjálfbærni.
Þetta á ekki síst við um verslun með mat og aðrar nauðsynjaafurðir, meðal annars til að draga úr mengun. Þannig hefur orðið mikil vitundarvakning víða, þar sem fólk er hvatt til að versla við framleiðendur í nágrenni sínu, ekki síst í landbúnaði, og stuðla þannig að umhverfisvænni lífstíl heildarinnar. Margt smátt gerir eitt stórt. Notkun meiri tæknimöguleika getur orðið stórkostlegt framfaraspor hvað þessi mál varðar, og í raun hjálpað litlum samfélögum að verða sjálfbær.
Kaupfélögin skynsamleg
Á Íslandi var svipuð hugsun ráðandi um áratugaskeið, einkum á landsbyggðinni. Kaupfélögin voru þannig framsýnt efnahagslegt fyrirkomulag miðað aðstæðurnar á hverjum stað, sem skiptu sköpum fyrir uppbyggingu í héröðum, til sjávar og sveita.
Til einföldunar má segja að kaupfélögin og samvinnufélagsformið feli í sér;
a) að nýta sameiginlega ábyrgð fjöldans, heimamanna, í byggðunum og til þess
b) að draga úr áhættu við atvinnurekstur og að virkja kosti samvinnunnar og samnýtingar.
Með lýðræðislegu fyrirkomulagi samvinnufélaga og kaupfélaga tókst að hraða uppbyggingu um allt land. Þetta er svo til óumdeilt, og stórmerkilegur kafli í íslenskri hagsögu.
Fall þessa fyrirkomulags vítt og breitt um landið - með einstaka undantekningum eins og hinu stórglæsilega félagi Kaupfélagi Skagfirðinga - hefur haft miklar afleiðingar í för með sér víða.
Ekki aðeins efnahagslegar, sem þó eru mestar, heldur ekki síður menningar- og félagslegar. Stjórnmálin - þvert á flokka - voru samofin við fyrirkomulag samvinnunnar og ég held að það sé óhætt að segja, að kostirnir hafi verið miklir. Gallarnir voru kannski helst þeir sem fylgja félagsstarfi og lýðræðislegu skipulagi yfirleitt; valdabrölt og hagsmunaárekstrar.
En því miður er það óhjákvæmilegur hluti mannlífsins. Hin fullkomna samfélagsskipan hefur ekki fundist enn, og finnst vafalítið aldrei.
Endurreisn?
Með uppbyggingu kaupfélaga og samvinnunnar var ýtt undir vistvæna lifnaðarhætti - eitthvað sem nútímaleg gildi samtímans falla vel að - og með samvinnu fólks tókst að skapa hagræði við að leysa úr hinum ýmsu vandamálum. Verslun með ýmsar nauðsynjar tók mið af þessu og stjórnmálin sömuleiðis.
Spurningin er; verður ekki að endurreisa þessa hugsun, sem var landsbyggðunum svo mikilvæg, inn í nútímann?
Ekki síst þar sem ríkisvaldið er farið að teygja sig inn í flesta geira atvinnulífsins, samanber eignarhald þess og yfirráð á 80 prósent fjármálaþjónustu. Þá hefur sú mikla hagræðing sem orðið hefur í sjávarútvegi veikt landsbyggðina víða, þó enn sé það þannig að um 80 prósent af umbreytingu sjávarafurða í verðmæti, það er landvinnsla, sé á landsbyggðinni.
Mótvægi við þessa þróun er mikilvæg og skipulag samvinnufélagsformsins er það sem gæti skipt miklu máli, í hagsmunabaráttunni og framþróun landsbyggðarinnar til framtíðar litið.
Þetta á ekki síst við um tækifæri í ferðaþjónustunni, sem víða er orðin að grunnatvinnuvegi á landsbyggðinni. Þar eru tækifærin oft fólgin í því að heimamenn fái að nostra við uppbygginguna á eigin forsendum, frekar en að fá leiðbeiningar frá hinu opinbera um hvernig best er að standa að málum.
Þetta er eitt grunnstefið í samvinnuhugsjóninni sem var og er þverpólitísk í eðli sínu, þó Framsóknarflokkurinn vilji auðvitað eigna sér hana. Ekki af ástæðulausu, í ljósi sögunnar.