Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að losa sig við nær alla gagnrýna umræðu um gjaldmiðlamál. Þetta varð ljóst á vel heppnuðum 43. landsfundi flokksins um liðna helgi, þar sem forysta flokksins, með Bjarna Benediktsson í broddi fylkingar, fékk afar skýrt umboð flokksmanna til að leiða flokkinn áfram.
Það eru líka nokkur tíðindi, að meira en 93 prósent flokksins fylki sér að baki forystusveitinni í kosningum á landsfundi, en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður, hafa komið með miklum krafti inn í forystu flokksins á undanförnum árum. Þær njóta trausts, og mynda sterkt teymi með formanninum.
Ekki fyrir svo mörgum árum, var hart tekist á um gjalmiðlamálin í flokknum, en svo fór að lokum að Viðreisnarhópurinn klauf sig endanlega frá Sjálfstæðisflokknum og varð að sjálfstæðum flokki, sem horfir öðru fremur til þess að skerpa á alþjóðlegri sýn Íslands með það að sjónarmiði að kasta krónunni.
Þetta er sífellt að verða skýrara, og er gott fyrir íslenskan almenning að fá fram þessa skýru valkosti. Sjálfstæðisflokkurinn virkar samstilltur fyrir komandi kosningar, en mögulega hefur hann á sama tíma einangrað sig enn meira. Það á eftir að koma í ljós, en það er ekki neitt pláss lengur í flokknum fyrir efasemdir um krónuna.
Krónan er leið ríkisinngripa
Bjarni Benediktsson sagði þetta í setningarræðu sinni á landsfundinum: „Það má heita heimsmet í bjartsýni, óskhyggju og barnaskap að halda að evrópski seðlabankinn myndi með einhverjum hætti horfa til stöðu efnahagsmála á Íslandi við vaxtaákvarðanir sínar eða aðrar þær ákvarðanir sem máli skipta, værum við Íslendingar aðilar að evrunni. Niðurstaða okkar í Sjálfstæðisflokknum er skýr. Þegar allt er saman vegið, kostir og gallar íslensku krónunnar og kostir og gallar þess að taka upp aðra mynt, er svarið augljóst. Við viljum halda forræði þjóðarinnar yfir stjórn peningamála og við viljum að áfram verði byggt á íslensku krónunni. Og við skulum vera alveg skýr á hlutunum. Við höfnum þeirri hugmynd að taka upp aðra mynt og við höfnum þeirri hugmynd að Ísland eigi að ganga í ESB til að taka upp evruna.“
Nýr tónn
Það er svolítið annar tónn í þessu hjá Bjarna en fyrir áratug, þegar traust á Íslandi og krónunni fór minnkandi, og hann skrifaði greinar í blöðin með Illuga Gunnarssyni um skaðsemi krónunnar og endurmat á stöðu Íslands meðal þjóðanna. Í desember 2008 töluðu þeir fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um aðild að Evrópusambandinu og að krónan myndi reynast Íslandi fjötur um fót til lengra tíma.
Það er ekki óeðlilegt að inngrip neyðarlaga á síðustu stundu í algjöru „panikki“ - til að afstýra efnahagslegu altjóni Íslands, bæði heimila og fyrirtækja - og síðan fjármagnshöftin og framkvæmd þeirra um árabil, hafi leitt til þess að Bjarni sjái hlutina öðrum augum núna.
Ísland bjó við þau forréttindi í fjármálakreppunni að geta varið tæplega 200 þúsund manna vinnumarkað með fordæmalausum ríkisinngripum vegna þess hve vandamálin voru stór hlutfallslega, og komið þannig í veg fyrir að markaðurinn fengi að leiðréttast sjálfur í takt við lögmál hans.
Nýleg grein Stefáns Svavarssonar endurskoðanda og Jóns H. Stefánssonar, þar sem fjallað er um ótrúlega víðtæk lögbrot föllnu bankanna, löngu fyrir fall þeirra haustið 2008, sýnir hversu stór vandamálin voru. Niðurstaða þeirra er að eigið fé bankanna hafi verið ofmetið um 50 prósent árið 2007. Við það má svo bæta að FME og Seðlabankinn greindu ekki ólöglegan lánaflokk í bankakerfinu, gengistryggð lán í krónum, upp á 1.200 milljarða. Allt er þetta með ólíkindum, en segir ákveðna sögu um hvers konar vandi fékk að verða til í opnu krónuhagkerfi.
Það sem bjargaði Íslandi var ríkisvaldið, með öllum sínum þunga. Í skjóli þessara ríkisinngripa var hægt að endurskipuleggja Ísland með þeim hætti sem gert hefur verið.
Auðmýkt mætti fylgja umfjöllun um þessi mál hjá ráðamönnum þjóðarinnar, af þessum sökum.
Höfðu Bjarni og Illugi rétt fyrir sér?
Til framtíðar litið voru Bjarni og Illugi hins vegar hugsanlega á hárréttum slóðum, í sínum greiningum. Til framtíðar þarf Ísland að viðhalda samkeppnishæfni sinni og það verður aðeins gert með því að taka í það minnsta þátt í alþjóðlegri þróun á sömu forsendum og keppinautar.
Sá tónn sem Bjarni talar núna um, að það sé „barnaskapur“ að halda að Seðlabanki Evrópu myndi taka tillit til íslenskra hagsmuna í sínum ákvörðunum, er forvitnilegur í þessu samhengi. Það vill nefnilega svo til, að markaðurinn þar sem stórar alþjóðlegar myntir eins og evra, Bandaríkjadalur eða pund eru í notkun, er samsettur úr mörg þúsund markaðssvæðum sem hafa afar mismunandi hagsmuni, styrkleika og veikleika. Af þeim sökum eru sérhagsmunir pínulítilla hluta þessara markaðssvæða aldrei í forgrunni.
Nánast óhugsandi væri að borgin Coventry á Englandi, sem hefur svipað stóran vinnumarkað og Ísland, hefði mikið vægi í ákvörðunum Englandsbanka.
Hagsmunir Coventry eru líka gjörólíkir iðnaðarborginni Birmingham, eða þjónustukjarnans í Westminister í London. Varla tekur nokkur maður svona umræðu alvarlega í Englandi?
Svipað má segja um Bandaríkin. Einstaka úthverfi í borgum hefur aðra hagsmuni en miðborgir, þegar kemur að stöðu Bandaríkjadals gagnvart einstaka myntum.
Þessi sýn væri líka álitin með ólíkindum mikil sérhagsmunahyggja, ef hún fengi að ráða ferðinni yfir höfuð. Eflaust væri það álitin mikil spilling ef Coventry fengi að lauma sínum sjónarmiðum inn í ákvörðunartökuna, beint og milliliðalaust, hjá Englandsbanka.
Höfuðborg og landsbyggð
Svipaða sögu má segja á Íslandi, þegar styrking krónunnar er nú farin að bíta verulega í útflytjendur. Furðulega lítil umræða fer fram um þetta á Íslandi þessi misserin, en augljóst er að til dæmis útflytjendur hugverka og hinna ýmsu vara, munu lenda í verulegum vandræðum ef ekkert breytist á næstu misserum. Mikil styrking krónunnar, samhliða launaskriði - sem stjórnmálamenn bera mikla ábyrgð á - hefur leitt til mikils tímabundins góðæris á höfuðborgarsvæðinu, en nú þegar er landsbyggðin byrjuð að finna fyrir vandamálum vegna þess hve krónan er sterk.
Það fara ekki saman hagsmunirnir í Vestmannaeyjum og Reykjavík þegar kemur að krónunni og stöðu hennar.
Hvaða hagsmuni á Seðlabanki Íslands að verja? Þá í Eyjum eða í Reykjavík? Þá í Eyjafirði eða þá í Reykjavík? Þá í Breiðholtinu eða á Sauðárkróki?
Það kann að vera að embættismenn í Seðlabankanum og ráðamenn þjóðarinnar finni til valdsins með krónunni og sjálfstæðri peningastefnu, en þeir sem raunverulega eru að búa til verðmæti úti á vinnumarkaðnum, og taka áhættuna af því að búa til útflutningsverðmæti t.d., sjá vafalítið ekki kostina við það að þetta vald sé í höndum þeirra.
Þeir sjá frekar kostina við það að losna við gengisóstöðugleikann og kollsteypurnar sem fylgja sjálfstæðri peningastefnu örríkis með 200 þúsund manna vinnumarkað.
Íhaldsmennirnir hafa ekki endilega rétt fyrir sér
Gleymum því ekki að íhaldsmennska í þessum efnum þarf ekki að vera rétta lausnin, og þó að karlar á fimmtugs, sextugs og sjötugsaldri, sem stjórna ferðinni í Seðlabankanum og fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sjái fyrst og fremst kosti við krónuna, þá er ekki þar með sagt að þeir hafi rétt fyrir sér, þegar kemur að áskorunum framtíðarinnar.
Það kann að vera að það sé best fyrir Ísland að tengjast beint alþjóðlegum markaðssvæðum, ekki síst á tímum hraðra tæknibreytinga, með því að nota sömu gjaldmiðla og þar tíðkast, og veðja þannig á að mannauður þjóðarinnar geti spjarað sig án sérstakra sósíalískra aðgerða ráðamanna eyjunnar sem þrá það heitast að halda þráðunum í höndum sínum.