Undanfarna tvo daga hafa almenningi birst yfirgripsmiklar upplýsingar um stöðu efnahagsmála. Fyrst í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, fyrir árin 2019 til 2023, og síðan í ræðum Þórunnar Guðmundsdóttur, formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á 56. aðalfundi bankans í dag.
Hagvöxtur hefur verið kraftmikill undanfarin ár (3,7 prósent í fyrra), hækkun húsnæðisverðs nær fordæmalaus hvert sem litið er í heiminum, og atvinnuleysi mælist lítið sem ekkert, eða á bilinu 2 til 3 prósent.
Ýmislegt má segja um stöðuna, eins og hún blasir við þessi misserin, en eftir mikinn uppgangstíma á undanförnum árum þá má segja að það séu ákveðnar blikur á lofti.
1. Hækkun húsnæðisverðshefur verið mikil á undanförnum árum. Verðið á höfuðborgarsvæðinu hefur tvölfaldast, á einungis sex árum. Sé horft á hlutina í erlendri mynt, þá er þróunin enn ýktari. Íbúð sem kostaði 25 milljónir árið 2015, var þá verðmetin á 178 þúsund Bandaríkjadali. Í dag er þessi íbúð metin á 400 þúsund Bandaríkjadali, miðað við verðþróunina eins og hún hefur verið að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu, undanfarin þrjú ár. Það er vel rúmlega tvöföldun á þremur árum. Það verður að koma í ljós hvort verðlækkunarferli sé framundan, hvort sem það verður mælt í erlendri mynt - þá í gegnum veikingu krónunnar líklega - eða í nafnverði íbúða, en það ætti ekki að koma neinum á óvart. Það sem fer svona hratt upp, gæti alveg komið niður aftur, þó það verði ekki dramtísk lækkun.
2. Verðlag á Íslandi er orðið hátt á nær alla mælikvarða, og laun líka. Ekki síst sé horft á hlutina í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að launum, bæði hjá hinu opinbera og á einkamarkaði. Þar ræður styrking krónunnar miklu. Mörg útflutningsfyrirtæki þurfa að halda vel á spöðunum til að missa ekki samkeppnisstöðu sína. Þetta á sérstaklega við um félög sem eru í alþjóðlegri samkeppni, eins og t.d. í hugbúnaðargeiranum og þekkingariðnaði af ýmsu tagi. Mikið launaskrið, samhliða hraðri styrkingu, hefur gert mörgum fyrirtækjum erfitt fyrir, þó lítið hafi heyrst af því í opinberri umræðu. Eftir því sem tíminn líður án þess að aðstæður batni, því erfiðara verður fyrir mörg fyrirtæki að vaxa og dafna.
3. Áform stjórnvalda um að stórauknar fjárfestingar í innviðum landsins er mikil gleðifregn enda löngu tímabært er að efla fjárfestingar í innviðum. Tugmilljarða framkvæmdir eru á teikniborðinu, en líklega á eftir að taka nokkuð snúna umræðu um útfærslur, t.d. þegar kemur að vegtollum.
Fjárfestingar í innviðum fjarskipta - þar sem stefnt er að því að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins árið 2020 - eru gleðilegar og munu styrkja íslenskt efnahagslíf til lengdar. Uppbygging í heilbrigðis- og menntakerfinu eru einnig gleðiefni. Betur má ef duga skal, því uppsafnaður vandi er mikill. Sérstaklega er veik staða leik- og grunnskólakerfisins áhyggjumál (ekki síst lág laun kennara), en þó sveitarfélögin sjái um reksturinn á þessum skólastigum, þá mun þurfa samstillt átak til að styrkja þau og bæta umhverfi til að mennta börn í takt við þarfir nútímans. Í fjármálaáætluninni birtist áhersla á þessi mál hjá ríkisstjórninni.
4. Mesti vandi ríkisstjórnarinnar, og líklega íslensks samfélags í heild sinni, snýr að því að ná sátt á vinnumarkaði. Úrskurðir kjararáðs og gríðarlegt launaskrið hjá hinu opinbera, ekki síst stjórnendum og ráðamönnum þjóðarinnar (forsetinn undanskilinn), hefur grafið undan sátt á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin er að ganga í gegnum miklar breytingar, ekki síst af þessum ástæðum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, gerði þetta að umtalsefni í ræðu sinni á ársfundi Seðlabanka Íslands, og nefndi - einu sinni sem oftar - að samtalið milli verkalýðshreyfingarinnar, stjórnvalda og annarra sem teljast til aðila vinnumarkaðarins, þyrfti að vera hreinskiptið. Því miður hefði farið svo, á undanförnum árum, að traustið hefði farið í þessu samtali, með þeim afleiðingum sem nú blasa við á vinnumarkaði. Þar sem verkföll virðast handan við hornið, og umræða um endurskilgreiningu á því hvað teljist vera félags- og efnahagslega sanngjarnar kröfur í nútímasamfélagi, hefur varla farið fram.
Það er ekki bara verkalýðshreyfingin sem þarf að vilja samtalið, heldur líka stjórnvöld. Þau þurfa að lesa í stöðuna og taka djarfar ákvarðanir til að brúa bilið, ef þess þarf. Launaskrið stjórnenda hjá ríkinu og hjá ráðamönnum er ekki náttúrulögmál, svo dæmi sé tekið. Stjórnarandstaðan hefur einblínt á þessi mál - stóru velferðarmálin og hvernig kökunni er skipt - í sinni gagnrýni á fjármálaáætlunina, og það er fullkomlega skiljanlegt. Þó lausnirnar séu ekki einfaldar á þessari snúnu stöðu á vinnumarkaði og í samfélaginu, þá munu þær ekki fæðast í góðu tómi í rólegheitunum. Það er alveg öruggt.
Eins og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur réttilega bent á, þá hefur Ísland nú sögulegt tækifæri til að koma enn sterkari stoðum undir efnahag Íslands til framtíðar litið. Skuldir eru á hraðri niðurleið og ytri skilyrði hafa verið hagfelld á endurreisnartímanum. En þetta er ekki sjálfsögð staða, og til lengdar mun Ísland ekki komast upp með að vera dýrt, á nær alla mælikvarða, í alþjóðlegum samanburði. Allt leitar jafnvægis að lokum og vonandi tekst að nýta tækifærin til að styrkja enn frekar góða stöðu.