Nefnd um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði af sér skýrslu í lok janúar síðastliðinn. Ein tillaga hennar var sú að áfengis- og tóbaksauglýsingar verði heimilaðar í íslenskum fjölmiðlum. Til viðbótar mætti bæta að eðlilegt væri að leyfa auglýsingar frá veðmálafyrirtækjum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði í vikunni að tillagan væri til skoðunar í ráðuneyti hennar. Það þurfi þó að hafa „lýðheilsuleg sjónarmið að leiðarljósi.“
Ríkisfyrirtæki eykur aðgengi
Nú er það svo að á Íslandi er áfengissala ríkisrekin. Tekjur ríkissjóðs vegna áfengisgjalds verða 18,6 milljarðar króna í ár samkvæmt fjárlögum. Auk þess skilar rekstur ÁTVR líka hagnaði. Þrátt fyrir að bannað sé að auglýsa áfengi á Íslandi þá auglýsir ríkisfyrirtækið starfsemi sína undir forvarnarmerkjum, hefur aukið aðgengi umtalsvert á síðustu árum með fjölgun verslana og með lengri opnunartíma. „Lýðheilsuleg sjónarmið“ hafa ekki truflað þá vegferð mikið.
ÁTVR framleiðir líka og selur grófkornað nef- og munntóbak. Fyrirtækið er með einokunarstöðu á þeim markaði hérlendis, eftir að lögum var breytt árið 1996 þar sem fínkornað, og minna hættulegt, tóbak var bannað. Frá aldarmótum hefur sala á grófkornaða ÁTVR-tóbakinu fjórfaldast. Vart hafa „lýðheilsuleg sjónarmið“ ráðið ferðinni þar.
Ríkisvarin veðmálastarfsemi
Þá komum við að veðmálunum. Íslensk getspá rekur talnagetraunir samkvæmt sérstakri heimild í lögum. Árlegar tekjur eru yfir fjórir milljarðar króna og hagnaður 2015 var 1,4 milljarðar króna. Þessum tekjuafgangi var ráðstafað að mestu til Öryrkjabandalags Íslands, Íþrótta- og Olympíusambandsins og Ungmennafélags Íslands. Íslensk getspá auglýsir sína veðmálastarfsemi umtalsvert.
Þess utan er rekin spilakassastarfsemi sem gengur út á að laða að veikt fólk til að spila í spilakössum. Þeir kassar, sem eru nákvæmlega þeir sömu og má finna í spilakassadeilum spilavíta heimsins, eru búnir hugbúnaði sem er þannig forritaður að hann skilar alltaf hagnaði á endanum. Þeir sem reka þessa spilakassa hérlendis eru annars vegar Happdrætti Háskóla Íslands, sem rekur 500 spilakassa Gullnámunnar. Í fréttaskýringaþættinum Kveiki í mars kom fram að þessi starfsemi skili um 700 milljónum króna á ári í sjóði Háskólans. Þetta kallast víst samfélagsleg uppbygging í skólakerfinu.
Hins vegar reka Rauði Krossinn, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og SÁA um 400 spilakassa undir hatti Íslandsspila. Samkvæmt Kveiki skilar þessi rekstur þessum þremur aðilum yfir 800 milljónum króna á ári í hagnað. Tekjur af þessum tveimur fyrirbærum eru um níu milljarðar króna á ári. SÁÁ býður svo þeim sem samtökin hagnast á meðferð til að takast á við veðmálafíkn sína.
Gerir ekkert nema að skekkja samkeppnisstöðu
Það er þannig, í alþjóðavæddum og nettengdum heimi, að íslenskir neytendur sjá áfengis-, tóbaks- og veðmálaauglýsingar á hverjum degi. Þær eru birtar á samfélagsmiðlum, erlendum netmiðlum, á erlendum sjónvarpsstöðvum sem sumar hverjar eru seldar í áskrift af íslenskum fyrirtækjum, erlendum tímaritum og dagblöðum og auðvitað í allskyns afþreyingarefni sem íslenskir fjölmiðlar kaupa og sýna, t.d. kappleikjum í íþróttum. Auk þess er hægt að taka þátt í allskyns veðmálastarfsemi á netinu án þess að íslenska ríkið geti komið í veg fyrir það.
Bann við þessum auglýsingum í íslenskum miðlum, og af hendi íslenskra fyrirtækja, gerir ekkert nema að skekkja samkeppnisstöðu þeirra. Það leysir engan vanda sem af þessum vágestum hlýst. Vanda sem íslenska ríkið ýtir að mörgu leyti undir með meðferð sinni á þeim sem lýst var hér að ofan.
Það væri því skynsamlegra að setja skýrar reglur um hvers konar forvarnarskilaboð þurfi að fylgja birtingu slíkra auglýsinga í íslenskum miðlum en að banna þeim að hafa tekjur af þeim.
Það eru „lýðheilsulegu sjónarmiðin“ sem ættu að vera höfð að leiðarljósi.