Á dögunum var eldri maður dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðislega misnotkun á barni. Brotin voru framin á tæplega áratugslöngu tímabili en fórnarlambið var á aldrinum þriggja til ellefu ára þegar þau áttu sér stað.
Ekki þarf að fjölyrða um hversu ógeðfelld þessi brot eru, en óhætt er að segja að refsingin í þessu máli, og mörgum viðlíka málum, sé umhugsunarefni.
Sé horft á málin í samhengi við refsingar í fíkniefnamálum þá blasir við sérkennileg staða.
Á réttri leið?
Að undanförnu hefur grafalvarleg þróun í heimi vímuefna svarta hagkerfisins verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og hjá hinu opinbera.
Ungt fólk hefur verið að deyja með tíðu millibili að undanförnu og læknar hér á landi óttast að faraldur - svipaður og hefur sést í Bandaríkjunum á undanförnum árum - sé nú farinn af stað.
Hugrakkt fjölskyldufólk, sem hefur misst börn sín, hefur komið fram í viðtölum í fjölmiðlum, og lýst þessari skelfingu og reynt benda á vítin til varast. Ráðamenn eiga að taka við þessum skilaboðum, leggjast yfir stöðuna - lögin, refsingar, löggæsluna og árangurinn af núverandi stefnu - og meta hvað sé best að gera. Þeir verða að spyrja: Erum við á réttri leið?
Neyðarástand
Í Bandaríkjunum er nú formlega skilgreint neyðarástand vegna tíðra dauðsfalla þar sem fíklar hafa tekið of stóra skammta. Á fimm ára tímabili hafa dáið 300 þúsund manns. Ef fram heldur sem horfir þá munu á milli 70 og 80 þúsund manns deyja í Bandaríkjunum á þessu ári úr of stórum skammti.
Aukningin er stanslaus. Núverandi stjórnvöld í Hvíta húsinu hafa boðað - og hrint að hluta í framkvæmd - harðlínustefnu þegar kemur að fíkniefnum.
Ákvörðunin um að siga þjóðvarðarliðinu að landamærunum við Mexíkó - sem er brjálæðisleg að mörgu leyti - byggir að hluta á þessari heimsýn; að ef það tekst að hefta aðgang að efnunum sem koma frá Suður-Ameríku (af búgörðum í Kolumbíu, Bolivíu, Perú og víðar) þá muni staðan að einhverju leyti skána í Bandaríkjunum.
Fyrir utan hið augljósa - það er fullkomið árangursleysi af núverandi stefnu sem einkennist af boðum og bönnum, þungum refsingum og yfirfullum fangelsum - þá læðist að manni sá grunur að tær mannvonska ráði þarna ferðinni frekar en nokkuð annað. Vanþekkingin er ekki afsökun hér, því gögnin liggja fyrir.
Ef eftirspurnin minnkar tímabundið í einhver efni, þá eykst hún í öðrum - jafnvel enn hættulegri. Það er ef ekki tekst að draga raunverulega úr eftirspurninni, en engin dæmi sjást um það neins staðar á Vesturlöndum. Þetta hefur verið ágætlega rakið í ársskýrslum UNODC, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn fíkniefnavá og skipulagðri glæpastarfsemi. Úr þeirri átt hefur undanfarin ár verið biðlað til landa heimsins að gjörbreyta nálgun sinni að fíkniefnavandanum, en lítið sem ekkert hefur verið hlustað.
Fyrir liggur að faraldurinn í Bandaríkjunum - sem í lítilli mynd sést á Íslandi líka - liggur meðal annars í því að fíklar leita í stórhættulegt læknadóp (köllum það því samheiti yfir mörg lyf) frekar en önnur efni. Hjálparhönd heilbrigðiskerfisins kemur ekki til þeirra. Fyrr en of seint.
Frábært mannúðarstarf, eins og Frú Ragnheiður hjá Rauða krossinum, er undantekning í þessum samhengi, og það má einnig nefna neyslurými í Kaupmannahöfn, heilbrigðisþjónustu við fíkla í Seattle og fleira jákvætt í þeim dúr. Lítil skref hafa verið stigin í átt að meira umburðarlyndi þegar kemur að vanda fíkla, og alls staðar eru áhrifin jákvæð. Lífum er bjargað, mannúð ræður för.
Hvað erum við að gera á Íslandi?
Þó það sé kannski útúrdúr fyrir einhverjum, að staðan í hinum stóru Bandaríkjunum sé gerð að umtalsefni í samhengi við íslenskan veruleika, þá er samt hollt að máta það hvernig við erum að gera hlutina.
Lögreglan heldur blaðamannafundi þegar milliliðir eru teknir með efni í bátum, og montar sig af því að hafa náð í efni og að tugir manna hafa unnið í málunum yfir margra mánaða tímabil jafnvel.
Samt liggur fyrir - alveg óumdeilanlega - að samfélag hinna veiku minnkar ekkert við þetta og engin vandamál hafa horfið. Fælingaráhrifin, sem eiga að koma af þessum blaðamannafundum, eru nákvæmlega engin og senda engin skilaboð sem máli skipta. Eða halda ráðamenn kannski að þessi gamla taktík sé snjöll? Pólitískt er mögulega hægt að slá einhverjar keilur með þessu. Hver veit.
Upp í hugann kemur góða sena í myndinni Sicario, þar sem snillingurinn Jóhann Jóhannsson magnar upp áhrifin með frábærri tónlist sinni. Þá spyr yfirmaðurinn í fíkniefnadeild lögreglunnar í Arizona undirmann sinn, um árangurinn í stríðinu við fíkniefnin: Do you feel like we are winning? (Finnst þér eins og við séum að vinna?) Það var fátt um svör. Ekki vantaði samt hörkuna og fjárútlitin í vopnuð átök.
Fyrir liggur að íslenskir stjórnmálamenn hafa sett lög og markað með þeim stefnu, þar sem veikt fólk - oftar en ekki burðardýr í málum - er dæmt í margra ára fangelsi fyrir aðild sína að smygli á efnum.
Dómharkan ræðst meðal annars af því hversu sterk efnin eru, en burðardýrin hafa aldrei neina þekkingu á því og hafa enga stöðu til að leggja mat á það að neinu leyti. Oftar en ekki undir kúgunum og hótunum um ofbeldi gagnvart sér og sínum. Óhætt er að segja að þetta sé sérkennilegt.
Eitt versta dæmið sem sést hefur á Íslandi, um öfugsnúna refsihyggju í fíkniefnamálum, var þegar hollensk kona, sem var burðardýr í smygli til Íslands, fékk ellefu ára fangelsi í héraði fyrir sitt hlutverk.
Í Hæstarétti var refsingin minnkuð niður í átta ára fangelsi. Í málinu beitti lögreglan konunni sem tálbeitu og setti hana í stórhættu, í grimmum heimi hins svarta hagkerfis. Hún var samvinnuþýð og tók þátt í aðgerðum lögreglu.
Ætli stjórnmálamenn séu stoltir?
Forvitnilegt væri að fá hreinskilið mat frá stjórnmálamönnum um hvort þeir séu stoltir af stefnunni sem þeir marka með lögum í þessum málaflokki. Margar spurningar koma upp í hugann.
Er mögulegt að einhvers konar hugsunarvilla einkenni nálgunina að vímuefnavanda? Erum við að hjálpa fíklum nægilega mikið? Einkennist nálgun okkar að fíkniefnavandanum af fordómum gagnvart veikindum fíkla og fjölskyldum þeirra? Tekst okkur að uppræta hið svarta hagkerfi, þar sem ofbeldi er gjaldmiðillinn oftar en ekki, með einhverjum hætti? Erum við að „vinna“ í stríðinu gegn fíkniefnum? Átti hollenska burðardýrið skilið að fara í átta ára fangelsi frekar en barnaníðingurinn í fjögur ár? Er fjárhagslegur stuðningur við heilbrigðisþjónustu sem fíklar þurfa á að halda, í samræmi við þörfina? Getur verið að við séum á rangri braut og nálgunin að lýðheilsuvanda vímuefna sé fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir okkar samfélag?