Orðið góðæri heyrðist hátt og skýrt á sviðinu á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær. Ástæðan er augljós. Hagtölurnar segja okkur að staða efnahagsmála í landinu sé góð, í það minnsta að meðaltali. Hagvöxtur hefur verið mikill undanfarin ár og atvinnuleysi lítið sem ekkert, 2 til 3 prósent.
En ráðamenn og atvinnurekendur ættu samt að hafa það í huga, að það eru margar hliðar á hagtölunum sjálfum og öll sagan verður ekki sögð með þeim.
Skipting kökunnar
Innan verkalýðshreyfingarinnar er mikil óánægja með skiptingu þjóðarkökunnar og hvernig launaþróun, ekki síst hjá stjórnendum og elítunni hjá hinu opinbera, hefur þróast.
Krónutöluhækkanir hjá þeim hafa verið margfalt meiri en hjá fólkinu á gólfinu. Bilið hefur breikkað. Breytingar á forystu stærstu stéttarfélaga landsins, innan Eflingar og VR - sem samtals eru með um 60 þúsund félagsmenn - bera þess merki að harðnandi átök séu framundan. Í lok árs eru verkföll skrifuð í skýin og hafa Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagt að barist verði af fullri hörku fyrir bættum kjörum.
Höfrungahlaup launahækkana ólíkra hópa - sem stjórnmálamenn hafa opinberlega lýst yfir að sé stórskaðlegt fyrir vinnumarkaðinn - er það sem einkennt hefur vinnumarkaðinn á undanförnum árum.
Hvað sem stjórnvöld og stjórnendur í atvinnulífinu tauta og raula, þá eru það ekki 300 ljósmæður sem eru að ógna stöðugleika þjóðarbússins. Launadeila þeirra og ríkisins er lítill hluti af stöðunni sem þarf að leysa. Ef ábyrgðin á því liggur hjá einhverjum hópum og eða valdhafa, þá er nær fyrir stjórnvöld að líta í eigin barm.
Líklega þarf að ríkið að grípa til róttækra aðgerða til að ná sátt á vinnumarkaði. Þar er t.d. hægt að líta til þess að lækka launa stjórnenda hjá ríkinu og ráðamanna (forsetinn neitaði hækkun kjararáðs, munum það). Ef það er vilji hjá þessum hópum - og þar eru dótturfélög ríkisins innifalin - til að ná sátt á vinnumarkaði, þá gæti þetta verið svarið sem leitað er að.
Jafnvel þó lækkunin yrði 5 til 10 prósent, þá væri hækkunin á undanförnum árum engu að síður mikil, og meiri í krónum talin heldur en hjá flestum öðrum hópum fólks á gólfinu.
Það er ekki lögmál að bilið milli þeirra sem hafa lægst laun og þeirra sem fá mest eigi að breikka stanlaust, vegna þess að allir eigi að fá jafn miklar hækkanir í prósentum talið.
Áhyggjuraddir í góðræðinu
Á hundrað ára afmæli fullveldis leyfðu ræðumenn á ársfundinum sér að líta yfir farinn veg og leggja mat á þær miklu framfarir sem hafa náðst fram á liðinni öld, en um leið að horfa til stöðunnar eins og hún er núna. Ísland er land tækifæra og velmegunar, sé litið til alþjóðlegs samanburðar. En ýmislegt má þó betur fara.
Áhyggjuraddir af horfum á vinnumarkaði heyrðust glögglega í ræðum Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns SA, og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Bar Eyjólfur Árni meðal annars saman stöðuna á Norðurlöndunum. „Í Noregi náðist samkomulag fyrir viku síðan sem felur í sér 2,8% hækkun launakostnaðar á árinu. Launahækkanir þar hafa verið 2,5% á ári síðustu þrjú ár en kaupmáttur launa hefur minnkað nokkuð vegna veikingar norsku krónunnar. Fram kom að norsku Samtök atvinnulífsins gætu ekki gert kjarasamninga með svo auknum kostnaði að hann skaðaði samkeppnishæfni norskra fyrirtækja og að verkalýðshreyfingin hefði skilning á því. Þessi lönd eru öll samkeppnisaðilar okkar Íslendinga á erlendum mörkuðum,“ sagði Eyjólfur Árni meðal annars.
Ljóst er að þessi veruleiki er ekki fyrir hendi á Íslandi, og mega stjórnendur - og stjórnir - fyrirtækja á einkamarkaði meðal annars spyrja sig að því, hvort framlag þeirra hafi verið skynsamlegt að undanförnu.
Tugprósenta hækkanir hafa sést hjá mörgum fyrirtækjum. Líkja má þessu við það, að stjórnirnar vilji greiða góðærið út strax, í stað þess að hugsa um framtíðina og fólkið á gólfinu. Fullkomlega eðlilegt er að þetta setji kjaraviðræður í uppnám.
Hugvitið mikilvægasta auðlindin
Jákvæðir straumur fundust vel þegar mikilvægasta auðlind Ísland bar á góma. Það er sjálft hugvit þjóðarinnar, landsmanna. Sú uppspretta hefur engin takmörk og framtíðaruppbygging landsins á allt undir því að það takist að byggja upp þekkingariðnað sem verður uppspretta hagsældar í framtíðinni.
Það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið hjá ræðumönnum, að þeim hafi tekist að ræða um þessa hluti, án þess að minnast á sjálfstæða peningastefnu og hvernig það fer saman við skynsamlega uppbyggingu alþjóðlegs þekkingariðnaðar að halda úti eigin mynt á um 200 þúsund manna vinnumarkaði.
Styrking krónunnar að undanförnu er nú þegar farin að þrengja verulega að útflutningi og komandi hækkanir á launum eiga eftir að herða enn frekar að alþjóðlegum þekkingariðnaði. Sveiflukenndur heimur krónunnar fer ekki saman við samkeppnisstöðuna á alþjóðamörkuðum, þetta blasir við. Krónan og sjálfstæð peningastefna er hindrun sem erfitt er að yfirstíga.
Það má t.d. minna á það, að því miður hefur ekki tekist að búa til nægilega mörg fyrirtæki sem hafa náð þokkalega mikilli stærð á alþjóðamörkuðum. Marel og Össur eru okkar flaggskip, en þau eru bæði búin að vaxa erlendis og það er ekki tilviljun að hluthafar og stjórnendur þessara fyrirtækja hafa í gegnum tíðina verið í framvarðasveit þeirra sem hafa gagnrýnt peningamálstefnuna harðlega.
Saga Össurar verður 50 ára 2021 og Marel er 35 ára á þessu ári. Samtals vinna um þúsund starfsmenn hjá þessum tveimur fyrirtækjum á Íslandi og um 70 prósent hlutafjár er enn hjá íslenskum fjárfestum. Um 90 prósent af heildarstörfum - sem eru á bilinu 9 til 10 þúsund - eru utan Íslands.
Þetta verður að teljast stórkostleg uppbyggingarsaga nýsköpunar á Íslandi, en því miður hafa ekki komið nægilega mörg fyrirtæki fram sem hafa náð þessum árangri. Þó mikil jákvæðni einkenni umræðu um nýsköpunarmál á Íslandi, þá má ekki gleyma því, að það á að vera kappsmál að koma fleiri fyrirtækjum upp í alþjóðlega stærð.
Hvers vegna hafa ekki komið fram í það minnsta tvö viðlíka fyrirtæki á undanförnum þremur áratugum? Mörg lítil og meðalstór fyrirtæki hafa orðið til, en það vantar fleiri þekkingarfyrirtæki sem ná alþjóðlegri stærð og fótfestu á alþjóðamörkuðum. Jafnvel þó Ísland sé örmarkaður þá ætti það að vera takmarkið að koma upp eins og einu fyrirtæki á hverjum áratug, sem nær að vaxa og dafna á Íslandi upp í alþjóðlega stærð. Þetta hefur tekist á Norðurlöndunum, og má sérstaklega nefna Svía og Dani í seinni tíð.
Jafnvel þó hagtölurnar líti vel út núna, og ferðaþjónustan vaxi hratt með nýjum hótelbyggingum, þá mættu stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins rýna í svarið við þessar spurningu. Getur verið að sjálfstæð peningastefna með krónuna, á þessum örmarkaði, hamli uppbyggingu alþjóðlegs þekkingariðnaðar og samræmist illa alþjóðavæddum heimi viðskipta?
Full ástæða er til að halda umræðu um þessi mál gangandi og endurtaka stóru spurningarnar um peningastefnuna í sífellu. Því þetta eru stóru málin til framtíðar litið.
Ísland er ríkt land á margan hátt og býr við sterka innviði og mikil tækifæri, og jákvæðar hagtölur í augnablikinu. Það ætti að vera kappsmál fyrir íslensk stjórnvöld og fyrirtæki að búa þannig um hnútana að tækifærin teygi sig til fólksins á gólfinu í meira mæli. Skrefin í þá átt eru vissulega tekin í kjarasamningum, sem voru ofarlega í huga ræðumanna á fundi SA, en líka í framtíðarsýn sem er í takt við alþjóðavæddan heim.