Manni finnst eins og það sé logn í pólitíkinni þessa dagana. Kannski lognið á undan storminum – eða ekki. Smá logn er kærkomið. Hvað sem manni kann að finnast um ýmsar útfærslur ríkisstjórnarinnar, þá er lognið andartaks friður fyrir kjósendur að kjarna sig, erlenda fjárfesta að styrkja traustið til landans, uppbyggilegri verkefni samstarfsstjórnar að taka á sig mynd og í raun gefst loks smá speis til umhugsunar um hvað mann finnst raunverulega um hitt eða þetta.
Allra síðustu kjörtímabil hafa einkennst af nokkuð hatrammri samfélagsumræðu, spillingarmálum, óráðsíu og gífuryrðum í skoðanapistlum – sem eru skiljanleg í ljósi ástandsins. En gífuryrði í skoðanapistlum verða líka þreytandi til lengdar, sérstaklega miðað við umfang þeirra í fjölmiðlum dagsins, jafnvel á kostnað fréttaskýringa og fjölbreyttari efnistaka.
Öll pedófílar?
Ég finn fyrir vaxandi óþoli fyrir umfangi skoðanapistla og hef þó skrifað þá ófáa sjálf. Þá er ég ekki að tala um pistla þar sem greiningu er fléttað saman við skoðun eða málefni spegluð í nýju ljósi heldur frekar pistla þar sem hlutir eru einfaldaðir svo mikið að skoðanir höfundar smætta veruleikann; lífsýnin einskorðast við lærða réttsýni og hannaða orðræðu, hvort sem höfundurinn eyrnamerkir sig hægrinu, miðjunni eða vinstrinu; anarkisma, nýaldarpólitík eða popúlisma. Ýmist eru allir fégráðugir pedófílar í hægrinu, hugmyndafræðilegar gungur í miðjunni, hofmóðugir naívistar í vinstrinu; villingar í Píratastefnunni, tækifærissinnar í Viðreisn, vitleysingar í Flokki fólksins og heimóttalegir persónudýrkendur í Miðflokknum. Hverjir eru þá eftir í þessu landi?
Erum við öll ýmist pedófílar, gungur, naívistar, villingar, tækifærissinnar, vitleysingar og áhangendur? Kannski að einhverju leyti – nema kannski ekki pedófílar. Og kannski erum við miklu meira en allt þetta.
Veruleikinn týnist
Það sem gerist þegar við leyfum skoðunum að skilgreina okkur í stað þess að skilgreina þær er að veruleikinn týnist. Auðvitað eigum við að hafa skoðanir á hlutunum, það er nánast siðferðisleg skylda okkar – er skoðun mín í augnablikinu. En að sama skapi þarf maður að vera meðvitaður um hvernig skoðanir geta takmarkað okkur ef við persónugerum okkur eftir þeim og að hversu vel sem skoðun kann að hljóma í eyrum okkar sjálfra þá er hún ekki endilega hinn endanlegi sannleikur.
Hluti af vandamálinu í skoðanagjálfrinu er skortur á greiningu þar sem samfélagið er speglað í alþjóðlegum hræringum. Veruleikinn er skringileg samsuða af stjórnmálahræringum, flókinni nútímamenningu, samruna þjóðarbrota með tilheyrandi menningarátökum, lúmskum áhrifum stríðsátaka í öðrum löndum, ófyrirsjáanlegra tæknibreytingum og milliríkjadeilum stórþjóða, átakanlegu misrétti heimsbúa og stéttaátökum, svo ekki sé minnst á loftslagsbreytingar og hrikalegar afleiðingar þeirra. Ekkert einhlítt svar er til við öllu þessu. Eina sem við getum gert er að reyna að kynna okkur hlutina með opnum huga. Í öllu þessu kraðaki þarf svo að huga að lífskilyrðum og mannréttindum hér heima og hvernig aðferðafræði dugi best til að sem flestir megi notið þeirra á sanngjarnan hátt.
Allt sem við sjáum ekki
Til þess að við getum kynnt okkur sem flest með opnum augum þurfa hér að þrífast fjölmiðlar sem hafa aðstöðu til að vinna, samkvæmt siðferðisviðmiðum og vinnulagsreglum alþjóðafjölmiðlunar, úr sem fjölbreyttustum upplýsingum og setja þær í það víða samhengi sem margslunginn veruleikinn krefst. Fjölmiðlar sem hafa bolmagn til að tengja okkur við umheiminn og fylgjast með flóknum átakamálum nútímans – sem eru oft svo flókin því þau eru ekki síður af menningarlegum toga en stjórnmálalegum. Og það er meira en að segja það að fylgjast með öllu þessu samspili flókinna þátta á ólíkum sviðum á tímum hraðra breytinga.
Sú upplýsingaveita sem fjölmiðlar eru hefur mikil áhrif á stjórnmálin og alla samfélagsumræðu. Í fljótu bragði virðast þeir sjá okkur fyrir daglegum fréttum og afþreyingu. En svo er allt hitt – sem við fáum og sjáum ekki. Átök umheimsins hafa áhrif á líf okkar án þess við séum endilega meðvituð um þau og umræðuna í öðrum löndum. Þegar fjölmiðlar freistast til að ljá skoðanapistlum of mikið vægi, af því að þeir eru ódýrt efni sem redda klikkum, svo þeir halla á fréttaskýringar, er hætt við að lesendur séu sviknir um eitthvað.
Hrokafullt tal
Sem dæmi má nefna að um daginn rakst ég á franska konu sem þakkaði mér fyrir pistil um gyðingaandúð á Íslandi. Henni finnst umræðan hér á landi hættulega einfölduð, fólk skipti sér ýmist í fylkingar með Palestínumönnum eða Ísraelsmönnum þegar gyðinga beri almennt á góma og útiloki margþættan veruleika fólks sem telst vera gyðingar, ómeðvitað um hræringar í Evrópu og hvernig gyðingar þar þjást nú fyrir þau átök.
Mér finnst þetta mál ágætt dæmi um þessa einföldun veruleikans sem við sættum okkur of oft við í svo mörgum málum. Hvernig við leyfum okkur að skoða heiminn með erki-íslenskum gleraugum sem er að svo mörgu leyti ábótavant. Hvernig við einföldum flókin mál í skotgröfum stjórnmála eins og það eigi að vera til uppskrift að öllu eftir kokkabókum réttu orðræðnanna. Kannski er þetta hrokafullt raus, dæmigerð skoðanapistlahróp konu sem vaknaði illa fyrir kölluð. En samt. Læt það gossa. Munar varla um enn eina illa ígrundaða skoðun í hafsjó skoðanakórs Íslendinga. Það er hvort sem er stafalogn í augnablikinu.