Samkvæmt þjónustukönnun sveitarfélaganna sem Gallup gerir reglulega er Garðabær það sveitarfélag sem er með hæstu einkunn þegar kemur að þjónustu leikskóla og grunnskóla. Reykjavík er hins vegar það sveitarfélag sem mælist lægst. Af þessu mætti ætla að Garðabær sé að forgangsraða í dagsvistunarmálum og menntun, en að Reykjavík dragi lappirnar.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, benti hins vegar nýverið á áhugaverðan flöt í þessu sambandi. Þar sagði hann að þessi forgangsröðun sé gerleg vegna þess að sveitarfélag eins og Garðabær fái í raun „styrk frá Reykjavíkurborg og öðrum sem taka á sig að sjá fyrir félagslegu húsnæði.“ Í kjölfarið hvatti Konráð höfuðborgina til að hætta að veita félagslegt húsnæði þar til að önnur sveitarfélög tækju sig á.
Þetta er mjög réttmæt athugasemd hjá Konráð.
Reykjavík ber uppi félagslega kerfið
Í lok árs 2016 átti Reykjavíkurborg 2.445 félagslegar íbúðir. Í fyrra fjölgaði þeim um á annað hundrað. Í Garðabæ eru 35 slíkar, 30 í Mosfellsbæ og 16 á Seltjarnarnesi. Því keypti Reykjavíkurborg, ásamt Félagsbústöðum, næstum tvöfalt fleiri íbúðir á nokkrum vikum haustið 2017 sem munu nýtast þeim sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda en Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes áttu samtals í heild í lok árs 2016.
Það er ekki bara félagslegt húsnæði sem er sjaldséð í Garðabæ. Þar eru líka sárafáir útlendingar. Sem dæmi eru erlendir ríkisborgarar 22,3 prósent af íbúum Reykjanesbæjar, 12,4 prósent af íbúum Reykjavíkur en einungis fjögur prósent af íbúum Garðabæjar.
Sveitarfélagið, sem er í svipaðri fjarlægð frá kjarna Reykjavíkur og Grafarvogur, tekur ekki þátt í þeirri áskorun að aðlaga nýja Íslendinga, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, heldur lætur Reykjavík og öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu það eftir.
Ríkt fólk sem vill borga lægri skatta
Í Garðabæ býr mikið af ríku fólk. Í grein sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla í fyrrasumar, og fjallaði um elítur á Íslandi og innbyrðis tengsl þeirra, kom fram að flestir sem tilheyra elítu Íslands búa í Garðabæ og Seltjarnarnesi. Þar búa 150 prósent fleiri einstaklingar í viðskipta- og atvinnulífselítunni en vænta hefði mátt út frá íbúafjölda. Og gamlir karlmenn sem búa í þessum sveitarfélögum, og eru virkir í t.d. stjórnmálastarfi, eru langlíklegastir til að vera hluti af elítunni.
Í báðum sveitarfélögum hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf haft hreinan meirihluta í sveitarstjórn. Þau eru einu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þar sem ekki er rukkað hámarksútsvar. Það geta þessi sveitarfélög gert vegna þess að þau taka ekki þátt í að veita sömu þjónustu og hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
Færri en í Grafarvogi
Í Garðabæ búa 15.709 einstaklingar samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands. Það eru færri en búa í Grafarvogi, þar sem 16.931 búa. Þrátt fyrir að einungis 13 kílómetrar séu frá Egilshöll og að Garðatorgi, og að það taki um korter að keyra á milli staðanna, eru íbúar í Grafarvogi, sem eru með mun lægri meðaltekjur og eiga mun minna af eignum en íbúar Garðabæjar, að greiða fyrir mun víðtækari félagslega þjónustu með útsvarsgreiðslum sínum en miklu ríkara fólkið í korters fjarlægð.
Vegna þess að Garðabær axlar nánast ekki neina ábyrgð á félagslegum úrræðum, og losnar þannig við þá fjárhagslegu byrði að greiða fólki félagslega framfærslu (í Reykjavík fengu 2.259 einstaklingar félagslega fjárhagsaðstoð árið 2016), þá getur sveitarfélagið forgangsraðað í menntun og dagvistun. Efnameira fólkið, sem býr í sjálfstæðu úthverfi, veltir nær öllum félagslegum vanda yfir á höfuðborgina og önnur nágrannasveitarfélög og notar mismuninn í að lækka skatta og fjárfesta í slíkri þjónustu. Og stærir sig svo að réttri forgangsröðun.
Á höfuðborgarsvæðinu búa rúmlega 217 þúsund manns. Í Galati í Rúmeníu og í Mannheim í Þýskalandi, sem hvorugar eru þekktar stórborgar, búa yfir 300 þúsund manns. Nær óhugsandi væri í viðmiðunarlöndum að úthverfi gæti skilgreint sig sem sérstakt sveitarfélag og boðið íbúum sínum upp á lægri skatta.
Augljóst er að sameina eigi öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, dreifa byrðum af þjónustu jafn á alla íbúa þess, skera niður í yfirbyggingu og bæta um leið sameiginlega þjónustu þeirra allra.
Þessi ráðstöfun, að úthverfi á borð við Garðabæ séu sérstök sveitarfélög sem geti boðið lægri skatta og undanskilið sig félagslegri ábyrgð, er ekki bara ósanngjörn og röng, heldur feikilega óhagkvæm fyrir heildina. Og löngu tímabært að vinda ofan af henni.
Ef það er ekki hægt að fá sveitarfélögin sjálf til að gera það ætti að setja lög um stóraukna sameiningu sveitarfélaga. Eða að minnsta kosti lög sem skikka þau til að taka jafnan þátt í veitingu á félagslegri og samfélagslegri þjónustu.