Í kvöldfréttum RÚV þann 17.apríl sl. var áhugavert viðtal við Margréti Björgu Ástvaldsdóttur, félagsfræðinema, sem skrifaði BA ritgerð sína um umgjörð og aðbúnað fótboltaliða í efstu deild karla og kvenna. Hún taldi niðurstöðurnar sláandi, enda kynjamisréttið algert og birtist í öllum þáttum sem skoðaðir voru. Hér er átt við aðgengi að þjálfurum, æfingatímum, búningaklefum, æfingasvæðum, útgjöldum í markaðssetningu svo nokkur dæmi séu tekin. Þó að hér hafi aðeins verið að kanna efstu deildirnar þá á þetta við í öllum flokkum og allt niður í yngstu deildir barna.
Því miður koma þessar niðurstöður undirritaðri ekkert á óvart. Fyrir tæplega átta árum þegar ég var formaður Íþrótta- og tómstundarráðs Reykjavíkur var misréttið á milli drengja og stúlkna sem stunduðu boltaíþróttir í Reykjavík það fyrsta sem ég rak mig á þegar ég tók við málaflokknum. Í framhaldi óskaði ég eftir því að Mannréttindaskrifstofa borgarinnar myndi gera ítarlega úttekt á jafnréttismálum hjá íþróttafélögum í Reykjavík. Vonir mínar um breytingar á þessari skekkju innan íþróttafélaganna urðu fljótlega að vonbrigðum. Það stóð sannarlega á svörum frá forystu félaganna og á sameiginlegum fundi ÍTR ráðsins, ÍBR og formanna um það bil ári eftir að úttektin hófst, kom fram að flestum fannst þetta eiginlega bara óþarfi,enda væru allar stefnur með klausu um jafnrétti.
Vissulega hefur byltingarkennt vatn runnið til sjávar síðan þessi úttekt var gerð. En það er þetta með muninn á milli orða á blaði og orða á borði. Það á ekki að vera ásættanlegt að á árinu 2018, eftir #metoo-byltingu, eftir #þöggun-byltingu og #6dagsleikinn-byltingu, að hægt sé að skýla sér bak við orð á blaði lengur. Það þarf með einhverjum hætti að tryggja að þessum klausum og orðum sé fylgt eftir með raunverulegu verklagi og viðbrögðum þegar þörf er á.
Í stefnu Viðreisnar í Reykjavík kemur eftirfarandi fram:
Jafnrétti á að vera leiðarstef í allri íþróttastarfsemi í Reykjavík. Íþróttafélög í Reykjavík eiga að setja sér viðbragðsáætlun í kynferðisbrotamálum og jafnréttis- og jafnlaunastefnu.
Förum nú aðeins í gegnum það í huganum: hvað myndi til dæmis gerast ef launaútgjöld í efstu deildum þyrftu að vera þau sömu hjá körlum og konum. Íþróttafélög þyrftu þá einfaldlega að greiða afrekskonum meira en þau gera í dag. Þetta myndi mjög fljótlega gera íslenskar kvennadeildir samkeppnishæfar um laun, samanborið við erlendar deildir. Fleiri frægari leikmönnum myndu fylgja fleiri áhorfendur og íslenskir leikmenn fengju betri þjálfun. Afleiðingin til skammst tíma yrði þá fyrst og fremst öflugri kvennadeildir, sem eftir yrði tekið á alþjóðavettvangi.
Varla yrði það eitthvað slæmt? Jafnrétti er nefnilega ekki kvöð heldur tækifæri.
Að því gefnu að fulltrúar Viðreisnar í Reykjavík nái kjöri í komandi kosningum munu þeir fylgja þessu eftir með því að bera upp tillögu þess efnis að skilyrða fjárstuðning við íþróttafélög í Reykjavík við að í stefnum og aðgerðaráætlunum þeirra séu tiltækar reglur, áætlanir og verklag sem vinnur gegn öllu kynjamisrétti og vinnur hnitmiðað að jafnrétti í allri sinni mynd. Enda hefur íslenska ríkið skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til að tryggja kynjajafnrétti á sviði íþróttamála skv. samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum sem ísland er aðili að. Það er mér því óskiljanlegt afhverju þetta er ekki löngu orðin efsta klausa á blaði í þjónustusamningum borgarinnar við íþróttafélögin.
Erum við ekki örugglega öll sammála um að jafna rétt allra, alls staðar? Það er ekkert fótboltalið að fara að tapa leik á því allavega.
Höfundur er í 3.sæti hjá Viðreisn í Rekjavík - og hefur enga þolinmæði fyrir hverskonar kynjamisrétti.