Það er að öllum líkindum harður kjaravetur framundan. Reyndar virðist alltaf stefna í harðan kjaravetur þegar samningar eru við það að losna. En einhvern veginn tekst oftast að afstýra stórslysum á vinnumarkaðnum, með eftirminnilegum undantekningum þó, með sanngjörnum og hófsömum launahækkunum og loforðum um að slíkt muni yfir alla ganga.
Yngri kynslóðir muna ekki tímana fyrir þjóðarsáttina 1990. Þær hafa lesið um verðbólgudrauginn, vítahringi víxlhækkana launa og vöru og þjónustu, sem tókst með samstilltu átaki að kveða í kútinn. Þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru undirritaðir sögðu forsprakkar hennar að verið væri að taka áhættu. „Ef einhver hópur fer að vaða upp í hækkunum fyrir ofan almennt verkafólk, þá er þetta búið. Menn þurfa að átta sig á að það verður að byggjast á gagnkvæmu jafnræði á milli hópa. Það þýðir ekki að keyra áfram einhverjir sérhópar upp yfir aðra. Þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu,“ sagði Guðmundur Jaki við undirritunina.
Það sem gerir það að verkum að nú er raunveruleg hætta á hörðum kjaravetri eru einkum tveir þættir. Annars vegar það að í stjórn verkalýðshreyfingarinnar eru komnir nýir vígmóðir forystumenn sem fara með umboð fyrir meirihluta félagsmanna innan Alþýðusambandsins. Þessir nýju formenn hafa þegar lýst því yfir að þeir séu óhræddir við að beita verkfallsrétti sínum í þeirri viðleitni að vera ekki skilin eftir ein með ábyrgðina á stöðugleikanum á bakinu og laun undir framfærsluviðmiðum hins opinbera.
En það eru ekki síður okkar tíma sérhópar sem keyra áfram upp yfir aðra sem Guðmundur Jaki vísaði til sem gera það að verkum að það virðist óumflýjanlegt að hér fari allt í bál og brand. Ákvarðanir kjararáðs, sem ákvarðar laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins, hafa gefið tóninn. Þau tugprósenta launastökk sem ráðið hefur veitt þessum hópi hefur byggst á óskýrum og ósamrýmanlegum grunni og skapað gífurlegt ósætti og óróa á vinnumarkaði. Ríkisforstjórarnir láta sitt síðan ekki eftir liggja með launahækkunum frá 16 upp í 32 prósent, á milljóna mánaðarlaunum. Stjórnarmenn þessara ríkisfyrirtækja lepja ekki heldur dauðann úr skel heldur og fengu sínar tugprósenta hækkanir. Þá eru ónefnd stjórnendalaun hjá einkafyrirtækjum sem geta orðið 17 til 18 föld lágmarkslaun. Og meðallaun forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllina eru tæplega 5 milljónir á mánuði. Ríkisvaldið gerir lítið í launaskriði einkarekinna fyrirtækja. En glórulausar ákvarðanir kjararáðs og hreinræktuð sjálftaka ríkisforstjóranna og stjórna þeirra setja skýr og leiðandi fordæmi.
Árið 1992, tveimur árum eftir þjóðarsáttina, kvað kjaradómur upp úrskurð þar sem laun æðstu embættismanna ríkisins voru hækkuð um allt að 30 prósent. Uppi varð fótur og fit. Í leiðara Morgunblaðsins þann 30. júní sama ár sagði að næðu niðurstöður kjaradóms fram að ganga myndi launastefna þjóðarsáttarinnar hrynja. Tækju þessir embættismenn við hækkununum gætu þeir ekki gert þær kröfur til almennra launþega að þeir sætti sig við að ákveðnir hópar þjóðfélagsþegna, stjórnendur þjóðarskútunnar, fái margfalt meiri launahækkanir.
Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks reyndi að fá dómnum breytt en greip á endanum til þess ráðs að kalla saman þing um mitt sumar og setja bráðabirgðalög sem hnekkti dómnum. Í lögunum sagði að forsenda stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar sé kjarasamningar við þorra launafólks og hóflegar launahækkanir. Niðurstaða kjaradóms tefli honum í tvísýnu. Slíkt hið sama var gert árið 2005 í aðdraganda þess að lög um kjararáð voru sett, úrskurði um laun æðstu ráðamanna var hnekkt og hækkun umfram það sem almennt launafólk fékk var dregin til baka.
Mantra atvinnurekenda og hins opinbera í kjaramálum þessa dagana er að svigrúm til launahækkana sé lítið sem ekkert. Aðstæður nú eru ekki þær sömu og árið 1992. Kjararáð er ekki það sama og kjaradómur. Og Ísland er ekki statt í miðri efnahagslægð eins og þá heldur á toppi góðæris. En það er hins vegar þannig að nákvæmlega sömu lögmál eiga við þegar kemur að samspili kjaramála og efnahagslífs.
Almennt launafólk mun ekki nú, frekar en árið 1992, sætta sig við að eina svigrúmið til launahækkana sé fyrir tugprósenta hækkanir hjá embættismönnum eða ríkisforstjórum, þegar það sjálft hækkar um langtum minna. Og það er vel meðvitað um að tugprósenta launahækkanir sérhópanna hleypur á hundruðum þúsunda á móti tugþúsunda hækkunum sem það sjálft fær.
Í júní árið 1992 sagði leiðarahöfundur Morgunblaðsins að ríkisstjórnin hefði gert sér grein fyrir hættunni sem hækkanir embættismannanna skapaði og leitaði þá leiða út úr ógöngunum sem kjaradómur hefði komið henni og þjóðinni í. Hún fann leiðina.
Stjórnvöld hljóta að leita leiða út úr þessum ógöngum líkt og fyrirrrennarar þeirra gerðu. Leiðin verður ekki greið og það mun þurfa þor til að feta hana. Inngrip með lagasetningu er og hefur ávallt verið neyðarúrræði. En þegar hömlulaus græðgin er óstöðvandi getur slíkt verið síðasta hálmstráið. Annars er hætt við því að þetta sé hrunið og hrynji yfir þá hina sömu.