Ekkert eitt hefur fært Íslendingum meiri lífsgæði á jafn skömmum tíma og aukaaðild Íslands að Evrópusambandinu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Frá árinu 1994 þegar hann tók gildi hefur landsframleiðsla okkar í krónum talið tæplega sexfaldast. Fyrir þennan aðgang greiðum við smánarupphæð í stóra samhenginu, á annan milljarð króna á ári, í svokallaðan uppbyggingarsjóð EES. Norðmenn borga nær allt framlag ríkja EES-samningsins sem rennur í þann sjóð.
Heimóttaleg íslensk stjórnsýsla, sem tók fyrst og síðast mið af þröngum hagsmunum ráðandi stétta, hefur þurft að breytast vegna aðlögunar Íslands að innri markaði Evrópu. Þorri þeirra breytinga hefur verið almenningi til heilla, styrkt stöðu neytenda, aukið vöruframboð, lækkað vöruverð og orðið til þess að okur í skjóli einokunar á fákeppnismarkaði hefur þurft undan að láta á mörgum sviðum.
Það eru skuggahliðar á aukaaðild Íslands. Sú helsta snýr að þeim lýðræðishalla sem fólgin er í því að við eigum ekki fulltrúa við borðið þegar ákvarðanir um innleiðingar sem við þurfum að taka upp eru teknar. Íslendingar hafa þó líka valið að haga hlutum með þessum hætti með því að gera ekki einu sinni tilraun til að koma að málum fyrr með rekstri öflugrar hagsmunagæslu heldur takmarka aðkomu við það að innleiða tilskipanir seint og illa.
Þess vegna hefur umræðan í Evrópumálum síðasta tæpa aldarfjórðunginn aðallega snúist um hvort við eigum að stíga skrefið til fulls og ganga í sambandið. Sárafáum hefur í fullri alvöru dottið í hug að viðra hugmyndir um að segja upp EES-samningnum og um leið minnka heimamarkað okkar úr 500 milljónum manna í tæplega 350 þúsund manns.
Hófst með bréfi
Þetta hefur þó verið að breytast. Sérstaklega frá því að Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, fór með bréf til Evrópusambandsins þess efnis að Ísland væri ekki lengur í viðræðum um aðild að sambandinu. Meirihluti þjóðarinnar var á móti því, samkvæmt könnunum, að draga umsóknina til baka á þeim tímapunkti.
Deyfð hefur verið yfir Evrópuumræðunni síðan. Þangað til nýlega. Nokkuð skyndilega fóru nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Morgunblaðið, hagsmunasamtök Evrópuandstæðinga og þekkt fylgitungl þeirra afla sem þar halda um valdaþræði, að viðra skoðanir sínar um að Ísland ætti að mögulega að fara að endurskoða EES-samninginn.
Ástæðan sem þessi hópur hefur nýtt til þessa er innleiðing hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins inn í íslenskt regluverk.
Tilraun til að gera grýlu úr engu
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hélt því fram í íslenskum og norskum fjölmiðlum að orkupakkinn feli í sér framsal á fullveldi Íslands til Samstarfsstofnunar evrópskra orkueftirlitsaðila (ACER) og Evrópusambandsins. Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, sendi frá sér yfirlýsingu um að stjórnarskrárbrot gæti falist í mögulegri aðild Íslands að ACER. Sjálfstæðisflokkurinn fann tilefni til þess að setja eftirfarandi inn í landsfundarályktun sína orkumál: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“
Allt þetta tal var skotið niður í minnisblaði sem lögmaðurinn Ólafur Jóhannes Einarsson, áður framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), gerði fyrir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og birt var opinberlega 17. apríl. Þar kom skýrt fram að þriðji orkupakkinn haggi í engu heimildum íslenskra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum og rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar. Auk þess kom fram að ACER myndi ekki hafa neitt að segja um um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum hérlendis og að við upptökuna yrðu allar valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER heldur ESA.
Allur hræðsluáróðurinn var því þvæla.
Verið að færa til umræðuna
Samt sem áður fór Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtal við breska dagblaðið Telegraph 23. apríl og sagði að aukin þrýstingur að hálfu Evrópusambandsins í garð Íslendinga um að taka upp frekari reglur á sviði orkumála og matvæla væri að „skapa ergelsi“. Hann lagði því út frá orkumálaumræðunni, sem hafði verið vitsmunalega lokið með áðurnefndu minnisblaði, og færði fókusinn yfir á landbúnaðarmál, innflutning á hráu kjöti og hættuna á salmónellu.
Daginn áður en viðtalið birtist hafði Miðflokkurinn, hugmyndafræðilegur nágranni þeirrar útgáfu Sjálfstæðisflokksins sem nú birtist þjóðinni, samþykkt í fyrstu landsfundarályktunum sínum að fram ætti að fara „óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í EES samstarfinu og sækjast eftir breytingum á samningnum eða segja sig frá honum.“
Mesti afleikur sem hægt er að leika
Það á að hræðast þessar tilraunir til að færa umræðuna í átt að því að Ísland eigi að einangra sig meira með því að aftengja samninga sem færa þorra landsmanna gríðarleg aukin lífsgæði. Það á að hræðast orðræðu sem litast sífellt meira af þjóðernishyggju og afturhaldsrómantík. Þetta er stefna sem á margt skylt við Brexit, sem er að kalla miklar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar yfir Bretland.
Stefna sem myndi, ef hún yrði ofan á hérlendis, skerða lífsgæði flestra Íslendinga gríðarlega. Okkur gengur nefnilega alltaf best þegar við stöndum fyrir viðskiptafrelsi, alþjóðasamvinnu, mannréttindi og leggjum áherslu á rétt neytenda.