Þúsundir íbúða í Reykjavík eru farnar varanlega af langtímaleigumarkaði undir túrisma eða svokallaða Airbnb skammtímaleigu. Þessi þróun hefur breytt samsetningu hverfa, minnkað framboð af leiguhúsnæði og átt þátt í hækkun leiguverðs. Félagsauður og hverfissamfélagið verður rýrara og þjónusta innan hverfa breytist í takt við túrismann. Þetta er þróun sem við þurfum að vinda ofan af og stöðva.
Hugmyndin um deilihagkerfið er góð og með tilkomu Airbnb og annarra álíka miðla hefur fólk fengið tækifæri til að ferðast með öðrum hætti en tíðkast hefur. Upplifunin af ferðalaginu verður oft innilegri og á forsendum þess lands sem heimsótt er. Það getur líka verið ódýrara að gista í heimahúsi en á hóteli eða á gistiheimili og því veitir þetta fólki sem hefur minna milli handanna tækifæri að ferðast í meira mæli.
Stöðvum ólöglega starfsemi
Airbnb er mikilvægt í flóru gistimöguleika og þá sér í lagi þegar uppgangur ferðaþjónustunnar var á undan uppbyggingu gististaða og hótela. Hins vegar stöndum við sem borg frammi fyrir þróun sem við verðum að stöðva sem er m.a. ólögleg starfsemi í útleigu til ferðamanna. Hugmyndin um deilihagkerfið fellur um sjálfa sig ef hún er rekin áfram af hagnaðardrifnum og kapítalístískum hvötum og skattaundanskotum.
Nú hefur fólk tækifæri til að drýgja tekjurnar með því að leigja út húsnæði sitt í allt að 90 daga á ári. Það er gott. Hins vegar virðast vera brögð að því að húsnæði sé leigt út leyfislaust og jafnvel án þess að tekjurnar séu taldar fram eins og lög gera ráð fyrir. Það er með öllu ólíðandi.
Verndum félagsauð hverfa
Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er því afar brýnt. Við þurfum að vernda íbúa byggð og uppræta ólöglega gististarfsemi. Til þess þarf borgin að auka eftirlit sitt og nýta þær heimildir sem hún hefur m.a. í gegnum byggingafulltrúa og heilbrigðiseftirlitið. Eins þarf að ná tvíhliða samningum við Airbnb og fara í viðræður við ríkisvaldið um auknar heimildir sveitarfélaga og jafnvel sektarheimildir.
Það er hagsmunamál alls samfélagsins að uppræta skattaundanskot og ólöglega starfsemi sem hefur beinlínis skaðleg áhrif á þróun hverfa í borginni. Við þurfum að ná tökum á leyfislausri starfsemi sem hefur fengið að vera óáreitt of lengi og það gerum við með því að vera með skýra stefnu og láta verkin tala. Við þurfum meira eftirlit og stjórnvöld verða að leggja til aukið fjármagn svo eftirlitsþátturinn virkar sem skyldi. Ég mun beita mér fyrir að það verði gert tafarlaust.
Höfundur er oddviti Vinstri grænna í Reykjavík.