Þetta voru orð ungrar stúlku sem lögð hafði verið í einelti flest árin sín í grunnskóla. Afleiðingar eineltis geta verið lífshættulegar. Einelti getur skilið eftir sig ævilöng tilfinningaleg ör. Sú óbærilega þjáning sem þolendur eineltis hafa mátt þola fylgir þeim gjarnan út ævina. Í sumum tilvikum hefur langvarandi einelti leitt unglinga til að fremja sjálfsvíg.
Reykjavíkurborg ber ábyrgðina á að fjármagn og mannafli sé til staðar ef einhvern tímann á að takast að útrýma einelti. Reykjavíkurborg hefur brugðist í þessum málaflokki eins og fleirum er varðar börnin í borginni. Ástæðan er ekki sú að það skorti fé heldur eru börnin hvergi nærri í forgangi hjá borgarmeirihlutanum. Í forgangi eru aðrir hlutir, dauðir hlutir sem vel mega bíða. Gleymum ekki að inn í borgarsjóð koma á annað hundrað milljarðar ár hvert. Engu að síður hafa biðlistar í fagþjónustu fyrir börnin lengst og virðist orðið rótgróið vandamál.
Flokkur fólksins vill rífa biðlista upp með rótum. Flokkur fólksins býður fram undir kjörorðinu FÓLKIÐ FYRST. Við líðum ekki að börn, foreldrar og skólakerfið sé látið mæta afgangi.
Sem oddviti Flokks fólksins til sveitarstjórnarkosninga í vor og sem sálfræðingur er mér mikið í mun að þessi mál komist í fullnægjandi farveg í öllum skólum og íþrótta- og æskulýðsfélögum borgarinnar. Fræðslu og forvarnir má aldrei skorta í þessum málaflokki. Boltanum þarf að vera haldið á lofti allt árið.
Flokkur fólksins mun sjá til þess að sérhver skóli hafi sinn sálfræðing sem ásamt námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðingi verða í þéttu og reglulegu samtali við börnin og foreldra þeirra um þessi mál. Umfram allt þarf að hlusta á börnin ef þau gefa hið minnsta í skyn um að þeim sé strítt eða þau lögð í einelti.
Kennarinn einn og sér getur ekki bæði sinnt forvörnum, tekið eftir öllu því sem fram fer í barnahópnum og tekið einn og sér á málum komi þau upp. Í kringum kennara, umsjónarmanna hópa, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og þjálfara þarf að vera öflugt teymi sem skipuleggur forvarnir og tekur á málum strax og þau koma upp.
Reykjavíkurborg er yfirvald leik- og grunnskóla, tómstundastarfs og frístundaheimila borgarinnar. Stefna borgarinnar og framkvæmd hennar skiptir sköpum þegar kemur að raunverulegri útrýmingu eineltis. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur sofið á verðinum þegar kemur að forvörnum gegn einelti. Staðreyndin er sú að börn verða fyrir stríðni og einelti í fjölmörgum stofnunum borgarinnar. Ábyrgðin er borgarstjórnarmeirihlutans!
Á þessari vakt mun Flokkur fólksins ekki sofa. Við setjum fólkið í fyrsta sæti og gleymum ekki að EINELTI DREPUR.
Höfundur skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík.