Ég hef verið að hugsa mikið um snjalltækni að undanförnu. Tuttugustu og fyrstu öldina. Það er að einhverju leyti rómverska heimspekingnum Seneca að kenna, en meira um það síðar. Á tuttugustu öldinni höfðu ýmis konar listamenn mótandi áhrif á framtíðarsýn okkar og væntingar fyrir næstu öld. Kannski fáir meiri áhrif en rithöfundar og framleiðendur sjónvarpsþátta og kvikmynda í Norður-Ameríku. Okkur fannst líklegt að árið 2018 yrðum við komin með flugbíla og nýlendur á öðrum plánetum, til að mynda. Reyndar voru karlmenn öllu duglegri við fantasíurnar, á meðan Gene Roddenberry og George Lucas sáu fyrir sér Stjörnufálka og dúndurskvísur með grænt hörund voru Margaret Atwood og Ursula K. Le Guin iðnar við að reyna að vara okkur við því sem gæti gerst, margt af hverju hefur svo ræst snemma á tuttugustu og fyrstu öldinni.
Flugbílana og nýlendurnar fengum við ekki (enn, ég held í vonina), þess í stað byrja ég hvern dag eins og Rambó þegar hann er á leiðinni í stríð, nema í stað vopna þá hleð ég á mig snjalltækjum. Farsíminn fer ofan í buxnavasann, svo set ég á mig snjallúrið. Þetta tvennt tengist svo við þráðlausu heyrnartólin sem ég skorða í eyrum mér. Svo set ég upp Google-gleraugun og byrja að tala við tækin sem ég hef klæðst eins og fátæk útgáfa af Tony Stark. Siri, minntu mig á að kaupa mjólk og brauð þegar ég yfirgef skrifstofuna í dag. Hey Google, hvað er langt í HM? Alexa, pantaðu fyrir mig nýjar LED-perur. Ég verð heima þegar dróninn skilar pakkanum í hús.
Svo renni ég fartölvunni, snjallbrettinu, lesbrettinu, GPS-tækinu, snjallskónum, snjalltitraranum, snjallpennanum og svona sautján hleðslusnúrum ofan í bakpokann minn, sest inn í snjallbílinn og ek af stað. Eins og Rambó kann að vera að ég þurfi bara að nota hnífinn, en ég er með allar gerðir skotvopna og belti af holmjóum sprengjukúlum sveipað yfir öxlina, svona ef ske kynni.
Ég er efins um að þetta hafi bætt líf mitt mikið. Ég segi sjálfum mér daglega að ég stórgræði á þessu. I’m the modern man, og það er mikið til í því. Ég er allavega the Bluetooth man. Ég innbyrði svo mikið af upplýsingum um sjálfan mig á hverjum degi að ég hef ekki tíma til að elda mér mat, en það er allt í lagi því ég skanna bara skyndibitamatinn inn í snjallforritið sem telur kaloríur og veit þá nákvæmlega hvað ég er óhollur á meðan ég tygg. Þökk sé heyrnartólunum þarf ég svo aldrei að taka upp símann til að svara símtali, og ég get stjórnað tónlistarhlustun minni með því að tala við sjálfan mig úti á götu. Siri, turn up the volume please. Call my friend Fiffi, mobile. Thank you Siri. I love you, Siri.
Og áfram heldur veislan. Snjallúrið segir mér nákvæmlega hversu vel mér gengur að sofa þessa dagana, hvað ég tek mörg skref og geng upp margar tröppur á dag. Þegar ég fæ svo áhyggjur af því að ég sofi illa eða hreyfi mig of lítið get ég mælt hjartsláttinn með úrinu og sannfært sjálfan mig um að þetta sé ekki hjartaáfall heldur einungis kvíðakast. Tækin mæla mig og fylgjast með mér og tala við mig allan daginn svo að ég þurfi ekki að hugsa sjálfur. Hey Google, hvað er aftur tólf deilt með tveimur?
Það sem glatast kannski helst í þessu öllu er ákveðin núvitund, tengsl við nánasta umhverfi og annað fólk. Nýlega hitti ég gamlan skólafélaga í Kringlunni. Við vorum saman í framhaldsskóla en höfðum ekki sést í næstum áratug. Það tók hann smástund að þekkja mig, sem var sennilega mér að kenna þar sem prófílmyndin mín á Facebook er Fred Flintstone, og ég skrifa sjaldan statusa eða birti myndir. Ég læka stundum en deili engu. Hann var hissa á að sjá mig, hafði til dæmis ekki hugmynd um að ég væri orðinn sköllóttur (í framhaldsskóla gelaði ég hártoppinn svo beint upp í loft að hann fékk sitt eigið nafn - Veggurinn). Hann spurði mig hvað væri að frétta og ég gaf honum stuttu útgáfuna. Óskaði honum svo til hamingju. Með hvað, spurði hann. Nú, nýja bílinn, sagði ég. Geggjaðan, glænýjan Avensis með öllum aukabúnaði. Bætti svo við að fjölskyldan hans hefði tekið sig vel út þegar þau vígðu glæsikerruna með smá road trip vestur á Snæfellsnes. Þá mundi ég eftir einu sem ég hafði pælt í þegar ég skoðaði myndirnar af road trippinu þeirra, spurði hvar hann hefði fengið svona gúmmíhulstur með blómamynstri eins og hún Svava litla var með á iPadinum sínum á einni myndinni. Það var eitthvað fátt um svör hjá honum, það var eins og hann væri hræddur við mig. Sennilega var það bara ímyndun mín, ég hef verið svo paranoid nýlega.
Samtalinu lauk snögglega þegar ég fékk símtal. Úlnliðurinn og buxnavasinn titruðu í takt og í eyrunum á mér rembdist Siri við að bera fram nafnið Friðþjófur. Frid thjoffer calling. Ég kvaddi með einhverju babbli, heyrði varla hvað ég sagði sjálfur yfir skvaldrið í Siri, held jafnvel að skólafélaginn hafi verið í miðri setningu þegar ég sneri mér undan og svaraði Fiffa vini mínum. Hann vildi ræða áríðandi frétt sem hann sá á Twitter svo ég hagræddi úrinu á úlnliðnum, færði símann aðeins til í buxnavasanum og settist niður á Stjörnutorginu, sótti fartölvuna í bakpokann minn. Leitaði svo að fréttinni á meðan Fiffi sagði mér það helsta úr henni í steríó, rödd hans hvellskýr innan úr báðum eyrum mínum. Ég átti stutt augnablik þar sem ég hélt að Fiffi væri ímyndun mín, rödd í höfðinu á mér, en svo hnerraði ég og missti heyrnartól úr öðru eyranu. Símtalið rofnaði og bluetooth-sambandið fór í kerfi. Úrið titraði aftur með aðskilnaðarkvíða, fann ekki lengur símann í buxnavasanum. Ég veiddi símann upp, hann hafði slökkt á sér. Á skjánum mætti mér versta martröð Teknó-Rambósins; mynd af tómu batteríi og hleðslusnúru. Skotfærin búin, hnífurinn bitlaus, game over. Í pirringskasti reif ég öll tækin af mér og tróð ofan í bakpokann. Gekk svo blótandi út úr Kringlunni.
Hálftíma síðar gekk ég inn heima hjá mér og komst að því að ég hafði ekki misst af neinu í sambandsleysinu. Konan mín spurði hvers vegna í ósköpunum ég væri að flauta, það hefði hún ekki heyrt mig gera í mörg ár. Ég yppti bara öxlum, í of góðu skapi til að nenna að spyrja Google að því hvers vegna fólk flauti til að fylla upp í þagnir. Svo minnti mig að ég hefði hitt einhvern í Kringlunni en gat ómögulega munað hver það var, þannig að ég sagði henni ekki frá því.
Seinna sama dag lenti ég aftur í langri þögn og mundi þá eftir öllum snjalltækjunum ofan í bakpoka. Ég íhugaði að sækja græjurnar og vopnast á ný en ákvað þess í stað að finna gamla, snjáða eintakið mitt af hugleiðingum Lúsíusar Annæusar Seneca hins yngri. Ég veit ekki af hverju, það er erfitt að rekja heilaboðin til uppruna síns eftir að þau eru orðin að hugmynd, en ég mundi eftir að hann hafði fjallað um núvitund í verkum sínum. Eftir smá leit fann ég tilvitnunina. Hún er svo hljóðandi:
„Sá sem er alls staðar er hvergi. Eyði manneskja öllum stundum á flakki eignast hún marga kunningja en enga vini.“
Þessi orð snertu einhvern streng í mér. Ég ákvað að láta snjalltækjabakpokann eiga sig og settist þess í stað niður til að föndra með dóttur minni. Siri, minntu mig á að gera það oftar.