Fjölmiðlamenn með annarlegan tilgang geta verið þjóðarböl og því eru fjölmiðlar vitaskuld ekki hafnir yfir gagnrýni. Mikilvægt er að við sýnum fjölmiðlum aðhald en það þýðir ekki að það þjóni samfélaginu þegar valdafólk og stjórnmálamenn ráðast með persónulegum aðdróttunum á einstaka fjölmiðlamenn til að gera lítið úr störfum þeirra.
Á dögunum varð Ögmundi Jónassyni mikið um við að lesa leiðara ritstjóra Kjarnans, Þórðar Snæs Júlíussonar, um embættisverk ráðherra, skort á gagnsæi í stjórnsýslunni og vinnubrögð sem hann telur ekki ásættanleg í lýðræðissamfélagi.
Áður en lengra er haldið er ráðlegt að taka fram að höfundur þessa pistils skrifar í Kjarnann og því auðvelt að eyrnamerkja hana varðhund áðurnefnds Þórðar Snæs. En undirrituð hefur nýlokið við að setja saman bókina Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla, ásamt tveimur öðrum höfundum, sem kemur út á næstu dögum hjá Forlaginu. Þar er meðal annars fjallað um grunnhyggin viðhorf gagnvart fjölmiðlum og hvernig ráðamenn afhjúpa þau stundum í opinberri umræðu jafnt sem samskiptum við fjölmiðlafólk. Viðbrögð Ögmundar við skrifum Þórðar Snæs virðast vera af slíkum meiði og því erfitt að stilla sig um að hnýta í þau.
Grunsamleg mynd
Ögmundur skrifaði færslu á vefsíðu sína og gagnrýndi þar Þórð Snæ nokkuð persónulega, sakaði hann jafnvel um að sinna erindum vinar í áðurnefndum leiðara. Orðum sínum til áherslu birti hann mynd af téðum Þórði Snæ með sólgleraugu á fótboltaleik ásamt nokkrum glaðhlakkalegum vinum sínum. Hann ýjaði að því að einn þessara vina á myndinni hefði ráðið greiningu ritstjórans á embættisverkum ráðherra vegna starfa vinarins á stofnun sem tengdist embættisverkum þessum.
Ögmundur virtist vera fullur grunsemda í garð myndarinnar og tengsl hinna ósjálegu kumpána. Hann gerði sér lítið fyrir, fór inn á facebook-síðu Þórðar, hnuplaði þaðan umræddri mynd og birti með bloggfærslunni.
Með þessu móti gaf hann Þórði Snæ færi á að lögsækja sig því sama hvað hinum gamalreynda talsmanni mannréttinda og mannvænlegra samfélags kann að þykja, þá getur athæfið seint talist undir ábyrga meðferð á gögnum. Undirritaða blóðlangar til að skreyta þennan pistil með mynd af félögum á góðri stundu af facebook-síðu Ögmundar en þar sem hún reynir að sýnast ábyrg verður að nægja að lýsa einni slíkri með orðum. Þar eru þrír kollegar og kannski ekki hægt að draga miklar ályktanir af fundi þeirra – en það má reyna eins og Ögmundur reyndi með myndina af fótboltavinunum!
Í herbergi einna líkustu gömlum bar með með lúnum innrömmuðum ljósmyndum, sem gæti reyndar verið bakherbergi í Alþingi þar sem má ekki lengur reykja vindla (sem hafa pottþétt verið reyktir þarna þegar Ögmundur var á aldur við Þórð Snæ), standa þrír kampakátir menn, allir með gleraugu, þó ekki galgopaleg sólgleraugu.
Þeir eru grunsamlega kumpánlegir á þessari mynd og hughrif undirritaðrar eru að þessir menn væru vísir til að bralla ýmislegt vafasamt saman. Össur Skarphéðinsson, Einar K. Guðfinnsson og Ögmundur Jónsson.
Hvað voru þeir að tala um? Af hverju voru þeir þarna samankomnir? Getur verið að Össur hafi verið að hætta á þingi eða er þetta samtryggingarkerfið holdi klætt í þremur stjórnmálakörlum úr þremur flokkum? Hvar liggja leyndir þræðir kátínu þeirra yfir samveru hvers annars?
Að vaða í manninn
Stundum er ekki hjá því komist að fá á tilfinninguna að valdamenn af karlkyni tali af föðurlegum myndugleik um fjölmiðla, hugsanlega ómeðvitaðir um eigin áhrif, – og reyndar eiga konur það líka til. Ráðamenn virðast stundum ekki gera sér grein fyrir því hvar valdið liggur.
„Nú er mikilvægt að fjölmiðlar bregðist ekki aftur og þeir verði með uppbyggilegum hætti þátttakendur í þeirri endurreisn og endurmótun sem þarf að verða í samfélaginu en stundi ekki stanslaust hefndarkennda niðurrifsstarfsemi eins og því miður bólar talsvert á á sumum bæjum.“
Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra og þingmaður Vinstri grænna. Alþingi. 3. desember, 2009.
Hefndarkennd niðurrifsstarfsemi, eins og Steingrímur orðar það þarna, kjarnar í raun viðhorf ýmissa stjórnmála- og áhrifamanna í garð fjölmiðlafólks sem hefur uppi gagnrýni sem þeim þóknast ekki.
Og ekki laust við að það örli fyrir því leiða viðhorfi í skrifum Ögmundar um áðurnefndan leiðara. Hann gerir Þórði Snæ upp annarlegan tilgang í bloggfærslu sinni og útskýrir það frekar máttleysislega, þá helst með aðdróttunum um vinatengsl. Hann veður í manninn og gerir lítið úr störfum hans en rökstyður málflutning sinn um annarlegan tilgang aðallega með mynd af þessum fótboltaáhugamönnum. Auðvitað er sjálfsagt að gera athugasemdir við umfjöllun fjölmiðla ef maður þykist viss um að ekki sé rétt farið með staðreyndir – en ekki sama hvernig það er gert.
Meðvitund um valdastöðu
Af gjörningnum að dæma virðist Ögmundur vera ómeðvitaður um að hann hafi löngum verið einn af hrókum sitjandi ríkisstjórnarflokks og það sem vantar oft upp á í íslensku samfélagi er að valdamenn séu meðvitaðir um eigin valdastöðu og áhrif í samfélaginu, hvort sem þeir eru gamlir eða ungir. Áhrifa- og stjórnmálamenn setja fordæmi í samfélaginu með því hvernig þeir umgangast fjölmiðla í allri samfélagsumræðu.
„Hún gerist æ sterkari tilfinningin að vegna manneklu og fjárskorts séu viðkomandi miðlar orðnir lítið annað en skel, umgjörð um starfsemi þar sem hver fer fram á eigin forsendum. Engin stefna, markmið eða skilaboð og þar með nánast enginn tilgangur, annar en sá að vera til staðar fyrir þá sem þar vinna. Þeir skiptast síðan á að grípa gjallarhornið sem fjölmiðillinn er orðinn fyrir þá og dæla út skoðunum yfir samfélagið. Ein í dag - önnur á morgun. Borið út frítt. Hvers vegna ekki bara að opna Facebooksíðu og leyfa öllum að skrifa á vegginn?“
Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Facebook. 17. ágúst, 2016.
„Það er ekki langt síðan fyrsta hreina vinstristjórnin fór frá völdum eftir sögulegt tap í kosningum. Á meðan sú ríkisstjórn var að gera sínar bommertur leið varla sá dagur að við, sem þá vorum í stjórnarandstöðu, spyrðum ekki hvert annað: „Hvernig væri umfjöllun fjölmiðla ef ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefði gert annað eins?“ Svo var brosað að tilhugsuninni um hvers konar „loftárásir“ slík ríkisstjórn hefði fengið yfir sig vegna sambærilegra mála,“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins og þáverandi forsætisráðherra. Grein sem birtist í Morgunblaðinu. 25. júní, 2013.
Andrými fyrir efasemdir
Litlu virðist skipta í hvaða flokki menn eru þegar kemur að því að saka fjölmiðlafólk hvatvísislega um annarlegan ásetning. Slíkt er orðið endurtekið stef sumra stjórnmálamanna og hinna ýmsu áhrifavalda í samfélaginu.
Á fjölmiðlum eru gerð mannleg mistök eins og á flestum bæjum – og yfirleitt þarf þá að svara samstundis fyrir þau – og eins og áður sagði er gagnrýni á þá nauðsynlegur hluti til að fjölmiðlar geti sinnt lýðræðislegu hlutverki sínu sem best. Einmitt þess vegna er mikil ábyrgð fólgin í því hvernig slík gagnrýni er sett fram.
Við búum við stjórnsýslu sem gerir fjölmiðlafólki erfitt um vik að nálgast upplýsingar um blóðrás stjórnkerfisins, nokkuð sem hlýtur að teljast vera ábyrgð ráðamanna. Fjölmiðlafólk verður að fá andrými til að geta spurt áríðandi spurninga og hafa uppi efasemdir án þess að eiga á hættu að ráðist sé á það persónulega eða umhugsunarlaust látið að því liggja að heilindi þeirra í starfi séu ekki sem skyldi.
Því væri ekki úr vegi að Ögmundur myndi fagna því á bloggi sínu að í þessu erfiða rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi þrífist – þrátt fyrir allt og allt – sjálfstæðir miðlar megnugir þess að gaumgæfa samfélagið og sýna nauðsynlegt aðhald. Svo ég segi: Fagnaðu, Ögmundur, fagnaðu!