Sama ár og konur fögnuðu því að hundrað ár voru síðan þær fengu kosningarétt urðu straumhvörf í baráttunni gegn þöggun og yfirhylmingu kynferðisofbeldis í samfélaginu. Í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar sögðu hundruð kvenna samtímis sögu sína af því að vera þolendur kynferðisofbeldis. Vettvangurinn var samfélagsmiðlahópurinn Beautytips sem var aðeins ætlaður konum en honum tilheyrðu tugþúsundir kvenna.
Sumar sögðu sögu sína í fjölmiðlum en aðeins sá hópur sem hafði aðgang að hópnum fengu raunverulega að sjá þungann og sorgina sem fylgdi sögunum. Í kjölfarið var settur fram gjörningur á sama samfélagsmiðli þar sem þolendum og aðstandendum þeirra bauðst að setja upp mynd í prófíl undir myllumerkinu #konurtala. Markmiðið var að sýna fram á að líf okkar allra litast af einhverju leyti af afleiðingum ofbeldis í samfélaginu.
Mörgum, þar á meðal mér, blöskraði ærandi þögn stjórnmálanna í kjölfarið. Aðgerðir voru í samræmi við þögnina, nánast engar. Umræðan var þó komin á yfirborðið og þögnin um hversu algengt kynferðisofbeldi er í samfélaginu var rofin. Það verður ekki aftur snúið og rödd þolenda hefur fengið aukið rými í samfélaginu. Sá tími er liðinn að stjórnvöld geti valið að líta undan eða taka þátt í þöggun eins og næsta samfélagsmiðlabylting, #höfumhátt sýndi glögglega.
Þessi þróun hefur ekki aðeins átt sér stað á Íslandi. Krafan um að tekið sé á skaðlegri nauðgunarmenningu á engin landamæri. Því var aðeins tímaspursmál hvenær konur um allan heim kæmu saman og nýttu vettvang samfélagsmiðla til þess að sameina raddir sínar. Það gerðist með #metoo. Sú hreyfing er ein sú stærsta afhjúpun á grófu misrétti sem samtíminn hefur séð. Það varð ljóst að það er varla til sú kona sem ekki hefur þurft að þola áreitni eða ofbeldi að einhverju tagi. Þar með erum við öll tengd þolendum og/eða gerendum á einhvern hátt.
Tíminn er núna til þess að takast á við breytt samfélag þar sem þolendur hafa rödd og á þá er hlustað. Þar þurfa stjórnvöld að fylgja og gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru í réttarkerfinu og stjórnsýslunni til þess að við getum treyst því að þau mál sem upp koma fái viðeigandi meðferð. Áframhaldandi þöggun leysir ekki vandann sem við erum í, hún upprætir ekki nauðgunarmenninguna né eykur á líkurnar að réttlæti nái fram að ganga.
Krafan er skýr. Þolendur vilja að á þá sé hlustað og að kerfið sem tekur á kynferðisbrotum sé bætt. Þolendur krefjast þess að að brotin sé viðurkennd af samfélaginu í stað þess að litið sé framhjá þeim eins og ekkert hafi gerst. Þessari kröfu ætlar Kvennahreyfingin að mæta. Við munum hér eftir sem hingað til standa með þolendum ofbeldis og krefjast úrbóta á öllum sviðum samfélagsins til að uppræta ofbeldis- og nauðgunarmenningu svo við getum öll verið frjáls.
Höfundur skipar 2.sæti framboðslista Kvennahreyfingarinnar.