Eftir fjörugar umræður um stöðuna í Reykjavík, í kosningaþættinum á RÚV í kvöld, þar sem sextán framboð eru með lista í boði fyrir kjósendur, þá eru línurnar kannski örlítið skýrari en þær voru fyrir þáttinn.
Tveggja turna tal Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar verður vafalítið stóra spennumálið fyrir morgundaginn, en það kann líka að skipta máli hvernig minni framboðin í Reykjavík koma út úr kosningunum, því þau geta ráðið úrslitum um hvernig meirihluti verður myndaður. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri munu keppast um borgarstjórastólinn, eins og dregið hefur verið vel fram í kosningaspá okkar, sem birtist nýuppfærð á morgun í síðasta sinn.
Talaði skýrt
Í kvöld fengu litlu framboðin tækifæri, og sum þeirra gripu það.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, var t.d. skýr í sínum málflutningi, og talaði skýrt um að hún yrði fulltrúi fólks sem ekki hefur völd og er fátækt. Frasinn „valdið til fólksins“ er kannski útjaskaður og tengdur við vinsældarbrölt, en hjá henni var hann ekki falskur.
Án þess að fullyrða hvort frammistaða hennar muni duga til að ná inn manni í borgarstjórn, þá heyrðist rödd hennar skýrt og vel, eitthvað sem er ekki sjálfsagt hjá fólki með litla reynslu af kosningaþáttum og stjórnmálaþátttöku.
Þá komust Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, og Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, ágætlega frá sínu, í það minnsta ef horft er á málin út frá því að þær voru að reyna að tala til kjósenda. Vigdís greip fram í fyrir Degi, ótt og títt, og horfði síðan í augun á úthverfunum í lokin. Eða svo gott sem. Líklega allt eins og það átti að vera.
Menntamálin rædd, loksins
Í seinnihluta þáttarins náðist upp ágætis umræða um menntamál, eftir alveg galna umræðu um moskur, pólitískt Íslam og ýmislegt fleira.
Það var tími kominn á það, eftir hálf meðvitundarlausa umræðu um skóla- og menntamál alla kosningabaráttuna. En það hefði mátt vera með þessa sömu umræðu vegameiri í fyrri hluta þáttarins.
Þrátt fyrir greinaskrif, bæklinga og yfirgripsmiklar umfjallanir, þá skipta beinar útsendingar á síðustu stundu alltaf miklu máli. Eitt tár í beinni getur fært flokkum mörg atkvæði, eins og dæmin sanna.
Eitt af því sem maður hefur saknað í aðdraganda kosninga, er að það fari fram meiri og dýpri umræða um menntamál. Flokkarnir hafa vissulega fjallað um menntamálin, en þau eiga það skilið að fá meira vægi en önnur mál, vegna mikilvægis málaflokksins fyrir sveitarfélögin og alvarlegrar stöðu málaflokksins sömuleiðis.
Þetta eru langsamlega stærstu rekstrarliðir sveitarfélaga og þá blasa við risastór verkefni í skólamálunum. Ekki í framtíðinni, heldur þessi misserin. Alþjóðleg gæðamöt á skólastarfi hafa ekki komið vel út fyrir Ísland og full ástæða til að taka þessi mál alvarlegar en gert hefur verið. Þá er slök útkoma drengja í skólastarfi, léleg laun kennara og kennaraskortur í nánustu framtíð, eitthvað sem sveitarfélög verða að taka alvarlega. Þetta er sjálfur grunnurinn að samfélaginu.
Ungt fólk fái rödd
Frasarnir flugu í kvöld, en kannski hvergi meira en þegar húsnæðismálin voru rædd. Þau hafa verið mál málanna í þessari kosningabaráttu. Húsnæðisskortur, miklar verðhækkanir, hækkanir á leigu, stækkun hópsins sem leigir og skipulagsmál, má segja að falli undir húsnæðismálahugtakið.
Í stóra samhenginu er það sem er að gerast í Reykjavík sambærilegt við mörg borgasvæði í heiminum, þar sem mikill vöxtur borga gerir uppbyggingu erfiða og skapar ójafnvægi. Það gengur erfiðlega að halda í við vöxtinn með uppbyggingu íbúða. Borgin á sína sök á þessu, en það hefði líka þurft að móta sýnina á þessi mál fyrr.
Fyrir tæpum áratug, eftir hrunið, hefði t.d. verið hægt að móta framtíðarsýnina sem byggði á því að hugsa fyrst og síðast um komandi kynslóðir á húsnæðismarkaði, en ekki þá sem áttu húsnæði fyrir. Setja peninga frekar í að hugsa um framíðarkynslóðirnar, með því að byggja húsnæði og liðka fyrir fjármögnun, fremur en að færa eldri kynslóðum fjármuni á silfurfati sem átti húsnæði.
Einn grundvallarmunur er á þessum tveimur möguleikum. Framtíðarkynslóðin var ekki að kjósa.
Erfiðleikar þeirrar kynslóðar sem nú telst til unga fólksins, eru miklir og það er óskandi að hverjir sem það verða sem komast til valda í borginni, hugsi um ungt fólk og komandi kynslóðir í sinni pólitík eftir kosningar. Ungt fólk á það skilið að fá góða rödd sem heyrist skýrt.
Frasarnir geta flogið í sjónvarpi og búið til atkvæði - hvort sem það er um pólitískt Íslam, borgarlínu, moskur eða snjallsíma - en raunveruleikinn er oft flóknari.