Tölvur, snjallsímar, nettbretti, stýripinnar, og sjónvarp breyta okkar lífi. Í Bandaríkjunum eyða börn og unglingar á aldrinum 8 til 18 ára meiri tíma á netmiðlum en þau nota til að sofa, það er að segja sjö og hálfan tíma á dag.
Heilinn okkar virkar á nokkurn veginn sama hátt og vöðvi, hann vex við þjálfun og verður öflugri. Innan taugavísinda (e. neuroscience) er einn af mikilvægustu þáttunum að heilinn breytist stöðugt eftir hvernig hann er notaður. Skynjun (sjón, heyrn, lykt, snerting, stöðuskynjun), upplifun, hugsun, færni, tilfinningar og atferli setja sín spor á eða fá sinn „snaga“ í heilanum (net af taugafrumum). Esther Thelen fann út með sínum mikilvægu rannsóknum að áreiti er grunnleggjandi fyrir allt nám og þróun einstaklinga. Þjálfun og endurtekning er lykilatriði til þess að minnissporin eða minnissnagarnir verði sterkari. Fjölbreytt áreiti er algjört lykilatriði fyrir góðri þróun. Fleiri rannsóknir sýna fram á að stelpur eru betri í lestri þegar þær byrja í skóla en strákar og ein af skýringunum er að foreldrar tala meira við stelpur en stráka frá fæðingu og í gengum fyrstu árin í þeirra lífi. Íslensk börn eru mjög framarlega hvað við kemur sundkunnáttu. Hvers vegna? Jú íslenskir foreldrar eru flinkir að fara með börn í bæði ungbarnasund og sundlaugar. Einnig er sundkennslu mjög vel sinnt í íslenskum skólum, íþróttakennarar eru góðir og mikið er af fínum sundlaugum um allt land. Þetta er gott dæmi um mikilvægi þess að umhverfið skapi möguleika á að þjálfun geti átt sér stað. Það sama má segja um hin frábæru bókasöfn í Finnlandi sem fremstu fræðimenn í lestri, eins og Heikki Lyytinen, segja að sé ein af aðalástæðum fyrir þeim árangri sem finnsk skólabörn hafa náð í PISA. Heikki segir einnig að eitt af því mikilvægasta sem þarf að spyrja börn í lestrarnámi sé hversu margar bækur lastu síðasta mánuð og hvaða þrjár bækur voru skemmtilegastar.
Það sé mun mikilvægara en að mæla leshraða eins og gert er í stórum skala á Íslandi í dag.
Þýski geðlæknirinn og fræðimaðurinn Manfred Spitzer (í bókinni Digitale Demenz, 2012) segir að ein af stóru hættunum við að nota of mikið spjaldtölvur/snjallsíma sé áhættan á fíkn. Nákvæmlega eins og með notkun á áfengi eða tóbaki. Slík fíkn geti haft mikil áhrif á tilfinningalega, félagslega og sálræna þætti. Hann talar um að við getum þróað með okkur „digital demens“. Manfred nefnir að rannsóknir sýni að tölva sé jafn mikilvæg fyrir nám og reiðhjól er til að læra að synda. Nám krefst sjálfstæðrar andlegrar vinnu: því meira og dýpra sem einstaklingur vinnur með ákveðið þema, því betur lærir maður. Sem sagt snaginn verður sterkari (netið í heilanum hefur þróast). Ef við notum ekki heilann verði ekki til nýir snagar og þeir snagar sem eru fyrir þróast ekki. Það að maður noti meiri tíma fyrir framan skjá veldur því að börn hreyfa sig minna og verða þyngri. Í Bandaríkjunum byrja börn að horfa á sjónvarp við 9 mánaða aldur og börn undir 5 ára aldri horfa á að meðaltali yfir 4000 auglýsingar á ári um óhollan mat. Manfred segir enn fremur að stafrænir miðlar séu skaðlegir fyrir nám og þar með fyrir vitsmunalega þróun hjá ungum börnum. Skjár er ekki góð barnapía og alla vega ekki góður kennari.
Tölum við börnin, lesum bækur fyrir þau, leyfum þeim að byggja með kubbum, teikna og lita. Fórum með þau út að leika, í sund og gefum þeim fjölbreytt áreiti sem er jákvætt fyrir þeirra nám og þróun.
Minnkum notkun á spjaldtölvum og snjallsíma hjá börnum.
Höfundur er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi í Noregi.
Heimildir:
Thelen, E., & Smith, L.B. (1994). A dynamic system approach to the development of cognition and action. Cambridge, Mass.: MIT Press.
Spitzer, M. (2014). Digital demens. Pantagruel Forlag AS, Oslo, Norge