Vinkonur mínar eru nokkuð ólíkar. Þær eiga þó flestar, ef ekki allar, sameiginlegt að vera skemmtilega breyskar – eins og ég. Um daginn kom æskuvinkona til mín á björtu vorkvöldi. Hún hafði sent mér skilaboð kvöldinu áður til að tæla mig út með sér. Ég er hætt að fara út og hætt að reykja, skrifaði ég sem hafði þremur mánuðum áður tekið upp á því á fullorðinsárum að fikta við reykingar eins og enginn væri morgundagurinn.
Nú! skrifaði hún. Alltaf skrefi á undan, ég var að byrja! Og hún sendi mér mynd af sér að kveikja í sígarettu úr fyrsta sígarettupakkanum sem hún hafði keypt sér síðan hún var á að giska tuttugu og eins. Við erum báðar frekar nýfráskildar, nýorðnar fjörutíu og fimm ára, og höfum fundið upp á ýmsu síðustu mánuði sem okkur hefði ekki órað fyrir að við myndum gera fyrir aðeins tólf mánuðum síðan.
Njóttu! skrifaði ég og fór heilög í háttinn.
Sjokkið að kynnast sjálfri sér
Kvöldið eftir bauð ég henni í mat, ofnbakaða bleikju, meðvituð um að hún ætti í fórum sínum sígarettupakka sem mig langaði að fikta í, sjálf búin að strengja þess heit að kaupa ekki aftur pakka af slíkum líkkistunöglum. Hún mætti, svo stelpulega kát og flissandi að fæstir hefðu grunað hana um að vera hámenntuð móðir í þungavigtarstarfi.
Af hverju ertu hætt að fara út? spurði hún þegar við vorum búnar að borða nógu mikla bleikju til að geta réttlætt fyrir okkur að tendra sígarettu úti í garði.
Af því að ég fór út á galeiðuna með XX (lesist: önnur breysk miðaldra vinkona í þungavigarstarfi) og deleraði.
Vinkona mín flissaði djúpt og sagði: Þú ert með ofvirka blyðgunarkennd. Þér finnst þú alltaf vera að delera! En má það ekki? Nú höfum við öðlast tækifæri til að kynnast sjálfum okkur. Ef við værum ekki svona ringlaðar í lausu lofti hefðum við ekki fengið færi á að vita að við ættum þetta allt til! Og hún veifaði sígarettunni orðum sínum til áherslu, einlæglega glöð eins og fermingarstúlka.
Það eru takmörk fyrir því hversu vel mig langar til að kynnast sjálfri mér, sagði ég.
Forréttindi og skömm
Þessi ágæta vinkona mín, sprenglærð úr frægum háskólum í Evrópu og Bandaríkjunum, hefur lag á að greina allt okkar versta atferli með akademískum gleraugum svo eftir greininguna virðumst við ákjósanlega sjálfstæðar í hugsun en um leið fyrirsjáanlegar samkvæmt félagsfræðilegum rannsóknum; dæmigerðar fyrir félagslegt mengi utan um konur á okkar aldri. Með þessum gleraugum erum við svo fyrirsjáanlegar að við hættum nánast að vera einstaklingar.
Þannig nær hún að umbreyta hvers konar blygðun, sjálfsniðurrifi eða ráðvillu í dæmigert hegðunarmynstur kvenna sem séu í senn umvafðar forréttindum og þjakaðar af innrættri skömm kvenleggs síns – já, og óheppilegri innrætingu af ýmsum sortum – í bland við allavega ranghugmyndir og kynbundið misrétti sem megi rekja í hinar og þessar félagslegar breytur. Raunar er ágætis sjálfshjálp fólgin í því að tileinka sér lærðan hugsunarhátt hennar.
Eins og ég ætti að vera
Áður en hún kom í heimsókn var ég búin að hanna líf mitt upp á nýtt í huganum. Heppilegt líf fyrir fjörutíu og fimm ára konu í því félagslega mengi sem henni finnst hún tilheyra. Drögin að því svona:
- Fá vinnu á alvöru vinnustað og vera innan um fólk (frekar en sitja ein heima með úfið hár í joggingbuxum – á milli þess sem ég geng í hringi – að reyna skrifa eitthvað nógu gáfulegt til að réttlæta að ég minni á vitstola manneskju).
- Hætta að standa í málaferlum við hrossabónda af því að kona gat ekki haldið sér saman (eitthvað ekki alveg nógu kvenlegt við það).
- Innrétta leiguíbúð með einhverju öðru en bráðabirgðareddingu úr Góða hirðinum (af því að búslóðin gleymdist í öðru landi).
- Finna sér mann í straujaðri skyrtu og nógu talnaglöggan til að kona þurfi ekki að vera með endurskoðanda (fyrirstaða að konu líkar sífellt betur lífið einni í sinni nýtilfundnu Góða-hirðis-hönnun þar sem hún ræður alfarið hvað og hvort eitthvað yfir höfuð sé í kvöldmatinn).
- Hætta skrifum um viðkvæm mál í örsamfélagi sem fæða af sér harðsnúna óvildarmenn (viðkvæm kvensál má ekki við því að hitta tvo óvildarmenn í einni og sömu Bónusferðinni).
- Hætta að reykja (astmavottur er merki um að kona við þessa iðju sé greindarskert).
- Hætta að fara út með vinkonum sem hafa líka rambað út fyrir ákjósanlegt félagslegt mengi og stunda áhættusama sjálfskönnun (ber að varast einhleypar konur í þungavigtarstörfum því þær hafa óæskileg áhrif og bera með sér smitandi breyskleika).
- Hætta að tjá sig í sífellu um allt og ekkert (til að vera ekki aftur konan í stórveislunni sem var kynnt svona undir borðum: Þetta er Auður sem er alltaf með skoðun á öllu – og hundrað gestir hlógu vandræðalega).
Konugelgjan strækar
En svo, daginn eftir heimsóknina, fór ég í göngutúr. Ég átti að vera að vinna meðan sonur minn var í skólanum en þess í stað rambaði ég með Siu í eyrunum niður að Tjörn og stalst þar til að reykja enn eina óæskilega sígarettu. Þá allt í einu kom konugelgjan upp í mér og spurði: Til hvers að hafa lesið þessar bækur eftir Fay Weldon og Marlene French og allar skruddurnar sem unglingsstúlka fann í bókaskáp móður sinnar áttatíu og eitthvað og fengu hana til að langa að verða allt annað en steríótýpísk ímynduð hugmynd um hvernig ákjósanleg, vel heppnuð kona í vestrænu feðraveldi ætti að vera og fúnkera?
Þessar skáldkonur hafa reyndar fyrir löngu fallið í skuggann af femínískum hugsuðum nýrra tíma og allskonar nýjum, ferskum vangaveltum. Og yngri konur í íslensku samfélagi virðast raunar ólíkt frjálsari undan ranghugmyndum um að þurfa að uppfylla staðalímyndir ellegar blygðast sín en þessar miðaldra í þungavigtarstörfunum – sem eru sumar hverjar mæður þeirra og bara stutt síðan þær þóttust vera af hinni endanlegu X-kynslóð eða hvað hún nú hét – eitthvað löngu úrelt.
Málið er að þessar kröfur búa ekki lengur í samfélaginu á sama hátt og áður. Þær búa í hausnum á konu. Innrætt hugsunarvilla, mantra sem ósýnilegt afl gróðursetti þar í frumbernsku, í öðrum tíðaranda, og hin sprenglærða vinkona mín með langlærða akademíska meðvitund sér svo glöggt en gleymir meira að segja sjálf inn á milli – eins og ég. Af því að við erum konur af okkar kynslóð.
Reynsla okkar líkamnast
Þegar karlar kvarta undan því að orðræða dagsins geri þá saklausu seka því það að vera karlmaður með hvatir og fýsnir í dag sé orðið þrungið innrættri skömm – þá hugsa ég: En við höfum alltaf þurft að bera skömmina. Konur. Hjálpið okkur að bera hana frekar en kvarta – því við erum líka saklausar. Við erum öll saklaus en sek.
Eins og hún vinkona mín sagði þegar hún drap í sígarettunni: Vandinn við manneskjuna er að hún safnar reynslu sem líkamnast, hún getur orðið svo inngróin. Við erum gangandi gagnasafn um ástir og örlög, sorgir, þrár og gleði. Þannig að þótt konur hendi úreltum hugmyndum á haugana sitja þessar hugmyndir í líkamanum (mjöðmunum) og herja á þær eins og vírusar sem vakna úr dvala þegar kona lendir í vissum aðstæðum. Blygðunarvírusinn verstur! Og við þurfum stöðugt að hafa alls kyns ráð til að halda vírusnum niðri, eins og femínískar bókmenntir og róttæk fræði. Lækningamátturinn er umtalsverður!
Og þannig landaði hún tilverurétti okkar – eina ferðina enn.