Það er rok, hugsar hún og horfir út um gluggann. Laufin blakta frjálslega á trjágreinunum, gráminn sveipar nærumhverfið og dragsúgur hvíslar þulur um eyðisanda og bambaló í tvöfaldri rúðunni.
Það er íslenskt sumar, næðingur og sólin hulin bústnum skýjabólstrum. Stöku sinnum hliðra þeir til fyrir geislum sem verma geðið en draga fyrir áður en kroppar losna úr álögum íslenskrar nepju. Framandi hitabylgjur sem hingað læðast við og við fjarri veðurkortum svo íslendingar mega þrjóskast áfram í afneitun og allt of þunnum jakka. En þegar þær loksins snerta á jaðri eyjunnar munu Austurvöllur og Nauthólsvík fyllast af fólki sem frelsað úr hrollsins viðjum hagar sér eins og þannig dagar séu allir dagar. Yfirhöfn þó við hönd því mörg hundruð ára reynsla Íslendings sleppir ekki takinu svo glatt.
En dagurinn í dag er ekki þannig dagur. Og þó svo væri gerði það lítið gagn. Nei, það væri öllu verra því Íslendingar verða að vera utandyra þegar eyjan þeirra telur sig útlönd. Innst inni nagar staðreynd um að þannig dagar séu fátíðir og að verða af þeim vegna vesaldar er dauðasynd. Út yrði hún þrátt fyrir að vera það um megn og dagurinn því enn erfiðari en ella. Í raun mun bærilegra að norðangarrinn sveifli gróðrinum svolítið. Enn betra ef glymur í rúðunum líka, til staðfestingar á að utan við öryggi heimilisins er lítið annað að sækja en dæmigert íslenskt veður.
Mikið dansa laufin líflega á trjánum, hugsar hún og horfir út um gluggann. Leggur varirnar að uppáhalds bollanum og sýpur á heitu pressukönnu kaffi sem sendir vellíðan um hverja kroppsins ögn. Ljúfir djazztónar leika af fingrum fram í bakgrunninum og blandast hljómfögrum fuglasöng. Hve margar fuglategundir skyldu vera saman komnar til að framkvæma slíkt eyrnakonfekt? Henni sýnist það vera ein og sama tegundin, hinn víðfeðmi Stari sem gerður hefur verið að blóraböggli allra spörfugla á landinu. Fyrir það eitt að vera dökkur og stórvaxinn. Flóin býr líka um sig á þröstum en þeir uppfyllla fegurðarkröfurnar. Fordómar mannfólksins birtast alls staðar, líka í áliti þeirra á dýrunum. Hún hrisstir höfuðið yfir eilífri dómhörkunni og þykir enn vænna um Starann fyrir vikið. Rennir fingrum alúðlega yfir gljáandi blöð piparskottsins á gluggakistunni og dregur núið inn um nasirnar þótt lungun séu þegar sneisafull af því.