Árangur íslenska landsliðsins í knattspyrnu hefur vakið mikla athygli um stóran hluta heimsins. Hvernig getur þjóð með íbúafjölda rúmlega 330.000 náð slíkum árangri og komist inn á annað stórmótið í röð (EM 2016, HM 2018)? Þrír þættir koma upp í hugann: stefna, samvinnufærni og kraftur.
Stefna eða það sem maður í Skandinavíu kallar „filosofi“ er eitt af grundvallar atriðum góðs árangurs í íþróttum. Að hafa „filosofi“ fyrir leik liðsins og hlutverk hvers leikmanns er lykilatriði. Það að vita hvernig þjálfað skal til að framkvæma stefnuna inn á vellinum er það sem einkennir störf góðra þjálfara. Stefna (leikskipulag) íslenska landsliðsins sem komst inn á EM og HM er þróuð af Lars Lagerbäck og Heimi Hallgrímssyni. Þegar maður horfir á íslenska liðið veit maður hverju maður á von á. Engir galdrar – en gífurleg vinnusemi og hver leikmaður vinnur sína vinnu fyrir liðsheildina.
Samvinnufærni eða það sem fremsti þjálfari Noregs í knattspyrnu Nils Arne Eggen kallar „relasjonelle ferdigheter“ var lykilinn að velgengi Rosenborg, frá Þrándheimi. Nils Arne vann 14 deildarmeistaratitla og kom liðinu í átta skipti í Meistaradeildina (1995-2002). Hann var upptekinn af því að finna rétta leikmenn í hverja stöðu og það voru ekki alltaf þeir sem maður myndi hafa sagt að væru bestu fótboltamennirnir, en þeir sem pössuðu best inn í heildina/liðið. Nils talaði um „godfoten“ það er að segja finna sterku hliðar hvers leikmanns. Þætti sem gerði hvern leikmenn einstakan, hans „godfot“. Hann vildi að leikmenn myndu þjálfa sinn „godfot“, þannig að það sem þeir væru góðir í yrði ennþá betra. Þetta kallast á fræðimáli „spesifisitet“ - sérhæfing. Þú þróar það sem þú þjálfar sérhæft.
Það gat til dæmis verið hárnákvæmar sendingar af mismunandi lengd inn á viss svæði – sá sem hafði slíkan „silkisendingarfót“ átti þá að sjálfsögðu að framkvæma mikið af sendingum. Það gat líka verið að leikmaður hefði góð skot utan teigs sem „garantert“ fór inn í bláhorn marksins – þá átti að reyna að koma honum í slíka stöðu. Eða að leikmaður hafði færni til að taka á móti bolta í hröðu hlaupi fram á við og geta skilað góðri sendingu inn á framherja sem kom í hlaup inn í vítateig.
En lykilinn að velgengi Rosenborg var eins og áður sagði samvinnufærni sem er hægt að skilgreina sem færni/getu sem tveir eða fleiri einstaklingar skapa saman en ekki einir og sér. Færni hvers einstaklings vill á þennan hátt, út frá samvinnufærni, vera hlutafærni. Hver og einn leikmaður tekur með sér sína hlutafærni inn í liðið. Hér má nefna samvinnu Gylfa og Aron Einars á miðjunni, Ragnars og Kára í hjarta varnarinnar eða Kolbeins og Jóns Daða í framlínunni.
Þetta má segja að sé einn lykilinn að velgengi íslenska landsliðsins. Liðið verður stærra en hver einstakur leikmaður – saman erum við sterkir. Sem sagt liðsheildin er mikilvægust. Við sem á horfum sjáum hvernig ákveðnar samsetningar á leikmönnum innan liðsins gefur sterkari heild en aðrar samsetningar. Við vitum líka „nokkuð veginn“ hvaða menn koma til með að spila ef allir eru heilir.
Kraftur, bæði líkamlegur og andlegur, er hlutur sem menn sjá. Líkamlegur kraftur, styrkur leikmanna er eitt af aðalsmerkjum íslenskra knattspyrnumanna. Íslenskir leikmenn eru vel þjálfaðir og leika kraftmikinn fótbolta. Andlegi þátturinn „krafturinn“ er ekki síðri, íslenskir leikmenn eru þekktir fyrir að gefast aldrei upp, hafa sterkan vilja.
Hérna passar finnska orðið „sisu“ – sem þýðir að gefast aldrei upp. Það að gefast aldrei upp er mikilvægur þáttur í íþróttum og ófá stig höfum við náð með því að ekki hætta fyrr en flautað er af.
Strákar – gangi ykkur vel í Rússlandi.
Höfundur er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólanum í Reykjavík.