Ég átti nýlega samtal við góðan vin. Hann var að segja mér frá einhverju sem honum þótti áhugavert í þætti af Planet Earth með David Attenborough, hinum margrómuðu heimildarþáttum BBC. Það sem ég tók eftir í frásögn hans var hversu mikla ensku hann notaði. Hann hafði horft á þátt með ensku tali og annað hvort hafði ekki áhuga á að snara vitneskjunni yfir á íslensku eða þá að hann var ekki meðvitaður um þetta. Loks gat ég ekki setið á mér lengur og spurði hann beint út. Hann staldraði við og sagði, „whoa, sorrý, ég hafði bara ekki tekið eftir þessu. My bad.” Svo hlógum við báðir.
Hann hélt frásögninni áfram en nú kom babb í bátinn. Ábending mín truflaði hann. Hann gerði nokkrum sinnum hlé á máli sínu og spurði skömmustulega. „Hvað er hippopotamus á íslensku?“ „En flamingo?“ Ég sá að hann var ekki sáttur með sig, og mér leið líka illa. Bölvaður besserwisserinn, gat ég aldrei þagað? Þurfti ég endilega að lækka í vini mínum rostann, láta honum líða illa með sig? My bad. Frásögn hans fjaraði út án þess að ná því hámarki sem hann hafði örugglega ímyndað sér þegar hann tók fyrst til máls.
Við ræddum þetta enn frekar dagana á eftir. Hann sagðist taka eftir þessu í fari annars fólks. Þetta pirraði hann, honum fannst þetta allt að því ósiður og var búinn að skora á sjálfan sig að hætta að sletta á ensku nema hann absolút þyrfti þess. Hans orð. Ég reyndi að draga í land, enn fullur sektarkenndar yfir hegðun minni, en hann var ákveðinn. „Ég er ekki bara að svíkja sjálfan mig um íslenskuna, ég er að sýna sonum mínum slæmt fordæmi.“
Ég mótmælti ekki frekar. Þetta var rétt hjá honum.
Nýlega las ég viðtal hér á Kjarnanum við þjóðþekktar persónur. Þær eru ekki síst þekktar fyrir orðfærni sína á rituðu máli en viðtalið var varla nema nýhafið þegar ein þeirra greip í frægan frasa á ensku úr kvikmynd til að útskýra mál sitt almennilega. Það er svo sem enginn glæpur í sjálfu sér að vitna í fræga kvikmyndafrasa, við gerum það öll endrum og sinnum, en í ljósi umræðna minna og vinar míns stakk þetta í stúf. Hvaða von eigum við hin ef fólkið sem vinnur við að skrifa á íslensku þarf að seilast yfir Atlantshafið til að koma hugsunum sínum í mælt mál?
Í heiminum eru töluð meira en sjö þúsund tungumál. Af þessum rúmlega sjö þúsund eru um 35% talin í útrýmingarhættu, sem þýðir að innan við þúsund manns tala hvert þessara tungumála. Þrátt fyrir þennan gífurlega fjölda hefur um helmingur jarðarbúa aðeins átta fjölmennustu tungumálin að móðurmáli. Átta tungumál. Öll hin málsvæðin, þessi minni, fljóta bara með eins og hrúðurkarlar utan á átta stórhvölum.
Við fljótum með enska hvalnum. Lítil eyja í miðju hafinu á milli Bandaríkjanna og Bretlandseyja, við eigum í raun ekki möguleika á að verjast innrás þessara menningarsvæða. Allt er blanda af báðu hér. Bítlarnir og Guns N’ Roses, Harry Potter og Stjörnustríð, enski boltinn og NBA. Tungumálið fylgir óhjákvæmilega í kjölfarið. Ensku frasarnir verða að frösum hér líka. Welcome to the jungle. Use the force. He who must not be named. Við förum til útlanda og skyndilega segjum við Eider Gudjohnsen í stað þess að tala um Eið Smára. Björk verður Bjork. Flugfélag Íslands verður Air Iceland Connect.
Þegar ég var sex ára fluttum við í verbúð í Njarðvík. Dvölin stóð stutt en á meðan við bjuggum þar voru nágrannar okkar tvö áströlsk pör á svipuðum aldri og foreldrar mínir. Þau tóku að sér að kenna mér eins mikið í ensku og þau gátu, ekki síst blótsyrðin, og þegar leiðir skildu ári síðar var ég orðinn reiprennandi á tveimur tungumálum. Það var ekki aftur snúið, ég tileinkaði mér fljótt restina af enskri tungu og var hættur að þurfa íslenska textann með sjónvarpsefninu áður en ég varð tíu ára. Ég gat lesið og skrifað enskuna og fljótlega gat ég einnig farið að leika mér með mismunandi hreima. Ég hljómaði eins og rappari frá Fíladelfíu þegar ég vitnaði í Will Smith en svo þegar ég var James Bond hljómaði ég eins og shonur Shean Connery.
Ég hélt að þetta væri spes, að ég hefði þróað með mér einhverja náðargáfu, þar til ég varð aðeins eldri og fattaði að allir jafnaldrar mínir gátu talað ensku. Á unglingsárunum vitnuðum við í Seinfeld-gengið, Chandler og Joey, eða aftur í Will Smith. Það var hluti af samfélagi unglinga, hluti af því að vera (ungur) maður með (ungum) mönnum að geta hent í flottar tilvitnanir við öll tækifæri. Við höfðum stigið saman yfir einhvern þröskuld og vorum flest fær á tveimur tungumálum.
Ég er ekki réttur aðili til að segja til um hvað hefur breyst síðan þá, en það er ljóst að eitthvað hefur gerst. Börn eru farin að tileinka sér enskuna miklu fyrr en þau gerðu áður. Eldri dóttir mín þurfti ekki ástralska nágranna til að læra ensku sex ára, hún var farin að tala hana nógu vel þá þegar. Nú er hún níu ára og ég þarf stundum að sussa á hana þegar ég heyri hana taka upp tíunda Snappið í röð á enskri tungu til að senda bekkjarsystrum sínum. Þá ranghvolfir hún augum og fer fram í eldhús, og stuttu síðar heyri ég hana segja, “just my dad, he’s such a motherfucker.” Hún lýgur því ekkert, er sjálf gangandi sönnun þess, en hún veit pottþétt ekki hvað hún er að segja. Hún er að apa upp einhverja frasa sem hún heyrði á YouTube eða Netflix, eða lærði hjá vinkonum sínum. Eflaust kemur hluti af þessu til þar sem börn komast í enskumælandi snjalltæki miklu fyrr í dag. Við foreldrarnir hugsum hlutina kannski ekki alltaf til enda þegar við réttum barninu iPad, kveikjum fyrir það á Netflix eða skráum það á Snapchat. Barnið gengur inn í heim þar sem allt er á ensku. Það notar filtera til að skreyta selfie og hendir því svo í story áður en það horfir á Netflix þar til augun í því verða græn, enda úrvalið botnlaust.
Margir hafa tjáð sig um þennan vaxandi vanda. Rótin skilst mér að felist í því að ung börn og krakkar eru í dag að tileinka sér enskuna áður en þau ná fullu valdi á íslensku. Stýrikerfin ná þeim löngu áður en íslenskar bækur geta kynnt sig. Ljóðspor geta ekki keppt við Spotify. Það stuðlar að fátækara móðurmáli, og auðveldar enskunni að ná hreinlega undirtökum í lífi þeirra. Ég reyni að sporna við, þökk sé uppeldinu er dóttir mín bókaormur og hana skortir ekki íslenskan orðaforða, en svo hittir hún vini sína (í raunheimum eða í símanum) og þá kemur enskan alltaf með í heimsókn.
Ekki misskilja mig. Það er jákvætt að búa að tungumálakunnáttu. Það ætti að vera jákvætt. Aðeins um helmingur jarðarbúa talar fleiri en eitt tungumál svo að vel sé. Aðeins 13% tala fleiri en tvö. Dóttir mín er ekki tíu ára og hún er þegar komin vel á veg. En það þarf að gæta þess að móðurmálið fái að vera móðurmálið, og til þess að svo megi verða þurfum við að veita aðhald.
Í tungumálakennslu er stundum sagt að ágætis viðmið á þekkingu tungumáls sé þegar viðkomandi getur farið að hugsa á tungumálinu. Það er hægt að læra tungumál frá grunni og ná slíkum áfanga. Hins vegar hlýtur það að teljast vandamál þegar fólk er orðið svo gegnsýrt af ensku að það ræður ekki við sig, þegar enskan er farin að bola íslenskunni út í horn í hugsunum og máli fólks. Þegar fullorðnir Íslendingar eru farnir að þurfa að þýða hugsanir sínar yfir á íslensku til að koma þeim frá sér. Þegar heilinn er ekki lengur viss um hvort sé móðurmálið. Þegar við erum hætt að geta hugsað á íslensku.
Ég stend mig oft að þessu sjálfur. Ég stend vini mína að þessu. Og ég er farinn að standa dóttur mína að þessu líka. Ég hef ákveðið að reyna að gera eitthvað í þessu, áður en illa fer. Ég vil geta hugsað á íslensku, þótt ég sé svo ágætur í að snara því yfir á ensku þegar ég þarf þess. Ég vona að ég geti forðað dóttur minni frá því að hugsa á ensku. Annars verður það my bad.