Auglýsing

Nýr meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur var myndaður í síðustu viku. Á blaðamannafundi var það fyrst og síðast kynnt hvaða embættum meirihlutinn hyggst gegna næstu fjögur árin, hvað þau væru ánægð með þau og síðan var málefnasáttmála dreift. Fyrsti fundur borgarstjórnar fór síðan fram á þriðjudag.

Flokkarnir fjórir sem nú mynda meirihluta voru sammála um margt og ber málefnasáttmálinn þess merki. Samgöngu- og skipulagsstefna allra flokkanna er keimlík, umhverfis- og jafnréttisstefna og önnur mál sem þeir eiga sameiginlega í borgarsýn sinni. Allir myndu þeir flokkast sem tiltölulega frjálslyndir, að minnsta kosti á blaði. Hins vegar er augljóslega um fjóra mismunandi flokka að ræða og margt sem var illa eða bara ekki samrýmanlegt í stefnum þeirra enda spanna þeir nokkuð breitt pólitískt litróf.

Frjálslyndir hægri kjósendur Viðreisnar virðast fljótt á litið fá lítið fyrir sinn snúð. Ekki þannig að það sé ekki hægt að benda á ákveðin loforð sem fá sinn sess í sáttmála flokkanna. Þau eru sannarlega þarna. En hvorugur fulltrúa flokksins sem rataði í borgarstjórn ætlar sér að stýra einhverju málefnaráði eða -nefnd innan borgarinnar.

Auglýsing

Hvorugur þeirra ætlar sér sem sagt að halda utan um málefnin, þar sem stefnan er mótuð og ákvarðanirnar raunverulega undirbúnar og teknar óformlega. Pawel Bartozsek verður forseti borgarstjórnar, sem er eins konar fundarstjórastaða, í þrjú ár og oddvitinn, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, verður formaður borgarráðs, sem er eins konar framkvæmdastjóri. Þrátt fyrir að völd séu vissulega fólgin í þessum embættum er hægt að fullyrða að enginn kjósenda Viðreisnar hafi vonast eftir, þegar flokkurinn ákvað að ganga inn í hlutverk Bjartrar framtíðar í gamla meirihlutanum, að borgarfulltrúarnir tveir fengju fyrst og síðast feit embætti frekar en tækifæri og aðgang að raunverulegum breytingum á því sem kjósendum fannst aflaga hafa farið hjá vinstri meirihlutanum í borginni undanfarin fjögur ár eða lengur.

Samfylkingin hins vegar hefur tögl og hagldir í borgarstjórninni. Hún heldur áfram forræði yfir skólamálunum, en staða þeirra var harðlega gagnrýnd í baráttunni í aðdraganda kosninganna, með sama mann, Skúla Helgason í brúnni. Flokkurinn mun einnig stjórna velferðarmálunum, sem ekki síður hafa hlotið gagnrýni, og með þessu tvennu móta stefnu í tveimur lang útgjaldafrekustu verkefnasviðum borgarinnar. Oddvitinn Dagur B. Eggertsson heldur síðan borgarstjórastólum og verður þar með áfram andlit meirihlutans út á við. Sú seta var reyndar helsta kosningarstefna Samfylkingarinnar í kosningunum, auk þess sem hann gerði út á meira af því sama, sem ljóst er að hugnast mörgum borgarbúum. Og reyndar Miklubraut í stokk sem hvorki sést tangur né tetur af í meirihlutasáttmálanum.

Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna á erfitt verk fyrir höndum. Hún var forseti borgarstjórnar á nýliðnu kjörtímabili, hlutverk sem gerði það að verkum að borgarfulltrúinn sást við fá tilefni önnur en við fundarstjórn borgarstjórnarfunda. Það leiddi meðal annars af sér að flokkurinn rétt skreið inn í borgarstjórn með Líf eina sem borgarfulltrúa. Það verður sótt hart að henni af hálfu hins skelegga fulltrúa Sósíalistaflokksins, sem var tilbúin með sjö tillögur um hin ýmsu mál á fyrsta fundi. Ljóst er að hún mun sinna aðhaldshlutverki sínu vel.

Píratar hófu sinn fyrsta fund í fullkominni þversögn við sjálfa sig. Þessi flokkur sem stofnaður er um meira lýðræði og gegn miðstýringu valds hafnaði beiðni minnihlutans um að fá formennsku í nefndum. „Píratar í Reykjavík leggja ríka áherslu á umbætur á sviði stjórnsýslu og lýðræðis,“ segir í stefnumálum flokksins. Minnihlutinn benti á að þrátt fyrir að vera með færri borgarfulltrúa væri hann með meirihluta kjósenda að baki sér. Eðlilegt væri að vægi þeirra í nefndum og ráðum endurspeglaði þá staðreynd að einhverju leyti. Þetta er augljóslega ekki ný hugmynd og er fyrirkomulag sem meiri- og minnihluti Alþingis hefur komið sér saman um og gengið ágætlega. Og þetta þekkja Píratar vel enda gegnir fulltrúi þeirra formennsku í velferðarnefnd Alþingis. En þetta kom ekki til greina í borgarstjórn Pírata.

Það tók minnihlutann innan við klukkustund að setja fyrsta fund borgarstjórnarinnar í uppnám vegna illdeilna við skipan í nefndir á þriðjudag. Þessi forsmekkur sýnir að hart verður sótt að meirihlutanum úr öllum áttum. Frá hægri af hálfu Sjálfstæðis- og Miðflokkanna, frá vinstri af hálfu Sósíalistaflokksins og jafnvel Flokks fólksins, en ekki síður að ofan þar sem sannarlega má finna frjálslyndi í einstökum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og að neðan í sterku íhaldi annarra fulltrúa þess flokks sem og Miðflokksins og Flokki fólksins.

Meirihluti borgarstjórnarinnar á erfitt verk fyrir höndum. Viðreisn, fjórða hjólið undir vagni fallins meirihluta, þarf að bjóða kjósendum sínum upp á meira en 0,05 prósent lækkun á fasteignaskatti atvinnuhúsnæðis og frekari gjaldtöku bílastæða. Skólamálin, stjórnkerfi borgarinnar, aukin tækifæri einkaaðila og húsnæðismálin í borginni verða undir smásjá kjósenda næstu fjögur árin. Ellegar mun flokkurinn eiga það á hættu að lenda í því sama og Vinstri græn gerðu, að hverfa inn í Samfylkinguna hægt og rólega. Vinstri græn munu með sama hætti þurfa að sýna hvað í þeim býr. Þó er hætt við því að harður kjaravetur geti reynst flokknum erfiður, í ljósi þess að afar stór hluti borgarstarfsmanna eru konur, og meirihlutinn lofar að útrýma með öllu kynbundnum launamun. Þá þurfa nýir borgarfulltrúar Pírata að passa upp á að tapa ekki sinni sérstöðu um gagnsæi, lýðræði og ný vinnubrögð.

Þó að samstarf fjögurra flokka í borgarstjórn síðustu fjögur árin hafi gengið vel er ljóst að útkoma þess samstarfs hafði afar ólík áhrif á stöðu þeirra í kosningum. Allir fjórir munu þurfa að berjast fyrir að halda sinni sérstöðu í samstarfinu nú, og passa að nýliðin saga endurtaki sig ekki – að þeir verði allir fjórir einfaldlega einn Flokkur Dags B. Eggertssonar í Reykjavík.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari