Lestur er lykilinn að öllum öðrum lyklum hvað varðar nám og þekkingarleit. Lestur gefur okkur einnig möguleika á að öðlast gleði við að lesa bækur af ýmsum toga. Eins og Herdís Egilsdóttir, kennari til 45 ára, sagði á svo skemmtilegan hátt um strákinn sem náði að lesa sín fyrstu orð og sagði fullur af gleði: „Það kemur saga út úr mér.“ Bókarlestur verður þess vegna mikilvægur til að efla færni og þekkingu á mörgum sviðum.
Hvernig er staða íslenskra 15 ára unglinga? Í stórri alþjóðlegri könnun PISA, þar sem 69 lönd taka þátt, kemur í ljós að meðalskor íslenskra unglinga í lestri/lesskilningi er 482 stig (nr. 36 af 69 löndum). Skor drengja er 460 stig og stúlkna 506 stig. 28% drengja geta ekki lesið sér til gangs, og eru þ.a.l. á þrepi 1 og 28% eru á þrepi 2. 15% stúlkna eru á þrepi 1 og 25% eru á þrepi 2. Þetta er grafalvarleg staða sem við erum í og við verðum að taka okkur á ef við eigum að geta snúið vörn í sókn. Af hinum Norðurlöndunum skora Finnar best með meðalskor 526 stig (nr. 4 af 69 löndum í PISA). Finnskar stúlkur eru nr. 1 með skor upp á 551 stig og finnskir drengir eru með skor upp á 504 stig og eru í 7 sæti. Hin löndin á toppnum með Finnlandi eru Singapúr með 535 stig og Hong Kong með 527 stig. Á botninum eru síðan eftirfarandi lönd: Líbanon með 347 stig og og Dómeníska lýðveldið með 358 stig.
Á sama tíma falla 4 af 10 út úr framhaldsskóla á Íslandi og ná ekki að ljúka framhaldsmenntun. Þetta er ekki jákvætt fyrir samkeppnishæfni okkar Íslendinga.
Hvenær hefst þetta vandamál og þessi kynjamismunur. Rannsóknir sýna að stelpur babbla meira við 10 mánaða aldur en strákar. Þetta hlýtur að stafa af erfðatengdum þáttum. En aðrar rannsóknir sýna að foreldrar tala meira við stelpur en stráka frá fæðingu. Það hlýtur þá að vera áreiti frá umhverfi. Þannig að þarna sjáum við að bæði erfðir og umhverfi eru þættir sem eru mikilvægir fyrir þróun. Fræðimaðurinn Gilbert Gottlieb sýndi fram á með sinni mikilvægu kenningu (Formaukning byggð á líkindum) að þróun einstaklingsins er alltaf háð samspili erfða og umhverfis. Þannig að það mætti segja að stelpur sýna á fyrstu árum ævinnar meiri áhuga á samskiptum sem getur verið jákvæð fyrir þeirra þróun á tungumálinu, sem sagt þarna skapast gagnkvæm áhrif milli erfða og umhverfis.
Kunnátta á bókstöfum og hljóðum þeirra er ein af grunnstoðum fyrir lestur, samanber kenningar fremstu vísindamanna í heiminum á sviði lestrar, þeirra Stanislas Dehaene og Joels Talcott. Þegar barnið kann að meðaltali 17-19 bókstafi nær það að brjóta lestrarkóðann - sem sagt að lesa. Rannsóknir sýna að það er kynjamismunur þegar börn byrja í skóla 5-6 ára gömul. Stelpur kunna mun fleiri bókstafi og þeirra hljóð þegar þau byrja en strákar. Í byrjun skólans kunna 11% að lesa og þar af 70% stelpur. Í lok fyrsta skólaárs kunnu 27% ekki að lesa og þar af 70% drengir (Norsk rannsókn). Þannig að það má segja að kynjamismunurinn sem við sjáum klárlega í öllum löndum í PISA byrji þegar börn hefja skólagöngu.
Hvað er til ráða? Það sem er algjört grundvallaratriði er að kenna börnum bókstafina og þeirra hljóð, vinna með að lesa tveggja og þriggja stafa orð og síðan fjögurra og fimm stafa orð og stuttar setningar. Þangað til lestrarkóðinn hefur verið brotinn. Mikilvægt er að finna síðan réttar bækur í sambandi við áskoranir og áhugasvið hvers og eins. Bókasöfnin í skólum og bæjarfélögum eiga að vera gullnáma fyrir börn og unglinga til að finna bækur við hæfi. Það er ein af höfuðástæðum fyrir velgengni finnskra unglinga í PISA. Við ættum ekki að fókusera á leshraða heldur að fá börn til að lesa mikið af bókum. Í hverjum mánuði ættu börnin að telja hversu margar bækur þau lásu og geta sagt hvaða 3 eru skemmtilegastar.
Bæði foreldrar og forráðamenn eiga að stuðla að nægri þjálfun sinna barna. Finnum bækur við hæfi sem vekja áhuga þeirra á lestrinum.
Eflum lestur fyrir framtíð okkar barna.
Höfundur er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík.