Eina prósentið var lengi lykilmerki mótorhjólaklúbba, með skírskotun til þess að meðlimirnir væru ekki á meðal þeirra 99% fólks sem væri löghlýðið. Merkingin á eina prósentinu hefur fengið aðeins aðra merkingu nú – en þó ekki svo ólíka.
Þeir sem tilheyra ríkasta prósenti íbúa heimsins og þá ekki síður Íslands, virðist ekki líta á að þeir þurfi að hlýða lögum og taka þátt í samfélaginu. Þessi hluti íbúanna virðist gera allt til þess að losna við skatta og skyldur og hefur á síðustu áratugum með blekkingum, mútum, ógnunum og undirferli tekist að sölsa undir sig megnið af auðæfum og auðlindum jarðarinnar.
Græðginni eru engin takmörk sett og það virðist ekki skipta máli hvort fólk er orðið svo ríkt að því dygðu ekki 100 mannsaldrar til að sóa auðæfunum – áfram er hvers kyns undirferli og svikum beitt til að auðgast enn frekar, fela auðæfin og losna við réttláta skatta. Áfram er svindlað á launafólki og svikið og logið á bæði borð.
Fólk gæti ætlað að þetta væri bara vandamál úti í hinum stóra heimi og í hinum syndumspilltu samfélögum. Rannsóknarskýrsla Alþingis í kjölfar síðasta efnahagshruns svo og aðrar upplýsingar sem fram hafa komið síðar – sýna hins vegar að þetta er allt á sömu bókina hér.
Ríkustu ættirnar hafa náð að sölsa undir sig völd, með flóknu tengslaneti í stjórnkerfinu og viðskiptalífinu. Fjölmiðlar halda okkur svo uppteknum af hvers kyns uppákomum og smáfréttum á meðan öllu því sem ekki er naglfast – er stolið fyrir framan augun á okkur.
Misrétti hefur aukist
Síðustu áratugi hefur félagshyggjufólk á vesturlöndum talið, að „samtalsstjórnmál“ væru málið. Að með því að eiga samtalið myndi skilningur milli hópa aukast og okkur tækist að auka réttlætið. Sannleikurinn er sá að misréttið er sífellt að aukast og ríkasta prósentið hlær alla leið í bankann á meðan við hin sitjum einhver málþing.
Samstaða meðal launafólks hefur verið að rofna síðustu ár. Einstakir hópar hafa klofið sig frá og spila frítt spil – axla enga sameiginlega ábyrgð og bara taka allt sem hægt er. Víða í nágrannalöndum okkar er verkalýðshreyfingin magnvana og sundruð og þar fer valdastéttin öllu fram að eigin geðþótta.
Átök innan Alþýðusambandsins hafa mjög veikt möguleika sambandsins til að vera sá öldubrjótur sem Alþýðusambandið hefur verið í hundrað ár og varið almennt launafólk fyrir græðgi valdahópanna. Verkefni næstu ára er að efla samstöðu innan Alþýðusambandsins. Það þarf að styrkja aðildarfélögin til sjálfstæðrar kjarabaráttu og undirbúa sambandið allt fyrir fyrirsjáanleg átök – um grundvallaratriði samfélagsins. Í þeirri baráttu þarf allt skynsamt fólk að standa saman – hvar í flokki sem það annars stendur – og verja grundvallarsjónarmiðin – og hefjast handa við að endurbyggja réttlátara samfélag.
Þessi pistill er skrifaður í tilefni þess að ég hef ákveðið að sækjast eftir embætti forseta Alþýðusambands Íslands á komandi þingi sambandsins. Ég hef því fengið fyrirspurnir síðustu daga um hver áherslumál mín séu – og fyrir hvað ég standi. Ég mun reyna að gera grein fyrir því á komandi vikum.
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags.