Hafi einhvern tíma verið „samfélagssáttmáli“ við lýði á Íslandi, er hann ekki bara í uppnámi heldur alfarið týndur.
Það liggur við að það skipti ekki máli hvert litið er – allstaðar hafa frjálshyggjan og gróðastefnan tekið völdin. Innviðir landsins eru í frjálsu falli en ríkasta fólkið hefur aldrei haft það jafngott. Heilbrigðisstofnanir eru fjársveltar og loka heilu deildunum reglubundið vegna fjárskorts. Fólk liggur á göngum og í geymslum – en gróði fyrirtækjanna hefur sjaldan verið meiri.
Skattbyrðin hefur verið flutt af tekjuhæstu hópunum yfir á ungt fólk. Þeir ríku kaupa æ flottari bíla en unga fólkið hrekst úr einni okurleiguíbúðinni í aðra. Börnin skipta um skólahverfi á hverju ári og eigið húsnæði er bara fjarlægur draumur. Þeir sem geta eru bara áfram hjá pabba og mömmu.
Almenningur þarf að skipa sér í lið – hvar sem fólk stendur í flokki. Við þurfum að endurheimta heilbrigðiskerfið okkar og við þurfum að endurbyggja húsnæðiskerfið. Húsnæði á ekki að vera munaður og heilbrigðisþjónusta á að vera sjálfsögð.
Brenglað verðmætamat
Síðustu ár hefur tryllt græðgisvæðing heltekið landið og þeir sem höndla með peninga og pappíra eru metnir tífalt, tuttugufalt eða jafnvel hundraðfalt á við þá sem skapa verðmætin og vinna við framleiðslu eða þjónustu. Verðmætamatið er komið út og suður og almenningur stendur nánast ráðalaus og er áhorfandi að veislunni, en aðeins fáum er boðið að sitja við borðið.
Fjármálamenn flytja verðmætin úr landi og í skattaskjól. Þetta er kannski löglegt í einhverjum tilvikum en algerlega siðlaust. Þeir allra ríkustu neita allra ráða til að losna við að greiða skatta. Þetta þarf að stöðva.
Verkefni næstu ára verður að byggja upp velferðarkerfi – gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu og húsnæðiskerfi þar sem allir finna sér skjól. Þegar þetta verður komið í hús getum við farið að skoða einhverja „samfélagssátt“. Ekki fyrr.
Þessi pistill er skrifaður í tilefni þess að ég hef ákveðið að sækjast eftir embætti forseta Alþýðusambands Íslands á komandi þingi sambandsins. Ég hef því fengið fyrirspurnir síðustu daga um hver áherslumál mín séu – og fyrir hvað ég standi. Ég geri grein fyrir því á komandi vikum.
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags.