Það er í sjálfu sér ekki flókið að verða mikil umræðuhetja þessa dagana – málið er að vera stóryrtur og dómharður í garð allra stjórnvalda og allra þeirra sem með einhver völd og áhrif fara. Menn geta síðan verið vissir um að því stóryrtari sem færslan er og harðari – því fleiri verða læk og deilingar. Því miður stoppar boltinn oft þar.
Efnahagshrunið hratt af stað mikilli orðræðu og segja má að allar stíflur hafi brostið. Það rann hratt upp fyrir fólki að við höfðum lifað í hálfgerðum hliðarveruleika – þar sem ytri ásýnd var slétt og felld en undir niðri kraumaði spilling og fals. Fólk sem áður hafði ekki verið áberandi steig fram og fletti ofan af lygum og svikum og fólk sem áður hafði verið talið ábyrgt var skyndilega komið á sakamannabekki og uppvíst að stórfelldum blekkingum. Nýjar dægurmálahetjur urðu til.
Sú mikla ólga og óánægja sem kraumar í samfélaginu og þá ekki síst meðal almenns launafólks í lægri launastigum og meðal þeirra sem eiga undir högg að sækja virðist ekki skila sér með afgerandi hætti þannig að nokkurt stjórnmálaafl fái slagkraft. Ólgan virðist aðallega vera með þeim hætti að fólk „lækar“ og deilir á facebook – og horfir svo á næsta þátt á Netflix. Fólk setur „eitraðar athugasemdir“ við fréttir og fer svo á Aliexpress og pantar meira dót frá Kína.
Kommentin og „lækin“ flæða því um netið en það er nánast engin eftirfylgni. Fólk stofnar grasrótarsamtök en þau klofna nánast jafnharðan vegna innbyrðis deilna því það sem sameinaði fólk í upphafi var reiði en ekki hugmyndafræðilegur grunnur. Á meðan alþýða manna ekki nær að sameinast um fá og einföld grundvallaratriði – leikur auðstéttin lausum hala og stelur öllu sem ekki er naglfast.
ASÍ tók ekki forystu
Í október 2008 taldi ég að Alþýðusambandið ætti að taka forystu í þeim mótmælum og aðgerðum sem þá spruttu upp úr grasrótinni. Það sjónarmið naut ekki mikils fylgis og því stóð verkalýðshreyfingin nánast sem áhorfandi á þessum mestu umrótartímum síðustu áratuga. Ég tel að þar hafi hreyfingin orðið af miklu tækifæri til að taka afgerandi forystu í samfélagsumræðunni.
Alþýðusamband Íslands á að sinna því hlutverki að fóstra grasrótarumræðuna og koma í málefnalegan búning og vinna henni fylgi. Við þurfum að tengjast þvert á flokka og þvert á félög og sambönd um þau grundvallaratriði sem sameina okkur. Við þurfum síðan að beita því afli sem býr í hreyfingunni til að koma því í framkvæmd sem við sameinumst um.
Í okkar ranni er því miður of algengt að við eyðum meiri tíma í að leita uppi málefni sem geta sundrað okkur og leggjumst síðan í blóðug bræðravíg á meðan málefnin sem sameina okkur liggja munaðarlaus og óbætt hjá garði. Á meðan leikur yfirstéttin lausum hala.
Sameinuð getum við nánast hvað sem er – það sýnir sagan. Verkalýðshreyfingin býr yfir skipulaginu, þekkingunni og reynslunni sem þarf til að koma málum áfram. Við höfum tæki til að breyta „lækum“ í virka baráttu. Virkjum aflið.
Þessi pistill er skrifaður í tilefni þess að ég hef ákveðið að sækjast eftir embætti forseta Alþýðusambands Íslands á komandi þingi sambandsins. Ég hef því fengið fyrirspurnir síðustu daga um hver áherslumál mín séu – og fyrir hvað ég standi. Ég mun reyna að gera grein fyrir því á komandi vikum.