Enn hefur ekki náðst að klára samninga við ljósmæður í landinu. Samninganefndir ríkisins og ljósmæðra hafa reynt án árangurs að ná saman og fátt bendir til annars en að þessi samningalota muni skilja eftir sig sár sem ekki verður auðvelt að búa um þannig að þau grói vel.
Viðkvæm staða er á vinnumarkaði, enda hefur almenningur í landinu horft upp á höfrungahlaup elítunnar hjá ríkinu allt frá því að laun ráðamanna í landinu voru hækkuð um tugi prósenta á kjördag 2016, og laun lækna um tugi prósenta skömmu áður.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, las stöðuna strax hárrétt á kjördag í lok október 2016 og afsalaði sér hækkuninni, og setti með því þrýsting á ráðamenn landsins á Alþingi að gera slíkt hið sama.
Augljós mistök ráðamanna
En ákvörðun ráðamanna um að senda út þau skilaboð á vinnumarkaðinn, að elítan hjá ríkinu ætti skilið að fara sitt höfrungahlaup í launahækkunum - með tugprósentahækkunum í einu stökki - hefur valdið miklu tjóni og í raun skapað vandamál sem var hægt að koma í veg fyrir.
Eitt af því sem hefur líka valdið vonbrigðum - og grafið undan möguleika á sátt á vinnumarkaði - er nánast lygilegt launaskrið stjórnenda hjá dótturfélögum íslenska ríkisins.
Það hefur átt sér stað þrátt fyrir að Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra, hafi með formlegum hætti óskað eftir því að laun stjórnenda myndu ekki hækka óhóflega í einu stökki. Þau gerðu það samt.
Stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða eru þar undir, meðal annars Landsvirkjun, Íslandsbanki, Íslandspóstur, ISAVIA og Landsbankinn. Alls staðar hefur verið höfrungahlaupsþróun í launum. Tugprósenta launaskrið æðstu stjórnenda og jafnvel stjórnarmanna líka í sumum tilvikum.
Þetta grefur undan trausti á vinnumarkaði og sendir út þau skilaboð til viðsemjenda ríkisins - og líka fólksins á gólfinu á vinnumarkaði - að það sé nóg svigrúm til launahækkana sem eru sambærilegar þeim sem elítan hjá hinu opinbera hefur fengið í einu stökki.
Gengi félaganna virðist ekki skipta máli
Á einkamarkaðnum hefur elítan farið sitt höfrungahlaup eins og ekkert hafi í skorist. Markaðsþróun undanfarið ár hjá skráðum félögum hefur samt verið afleit, og með því versta sem þekkist meðal kauphalla.
Undanfarið ár hefur vísitala skráða markaðarins lækkað um 8,55 prósent og verðmiðar flestra félaga lækkað.
Hjá sumum félaganna hefur verðmiðinn hrunið að undanförnu og afkomuviðvaranir verið algengar. Íslenskur almenningur á um 50 til 60 prósent af öllum hlutabréfunum á íslenska markaðnum í gegnum lífeyrissjóðina, og því hefur þessi mikla niðursveifla að undanförnu komið beint niður á eignasafninu að baki útgreiðslu lífeyris til almennings. Niðursveiflan er upp á um 70 milljarða, sé horft til heildarvirðis hlutafjár um þessar mundir.
Á sama tíma og þetta hefur gerst hefur verið mikið launaskrið hjá skráðum félögum, bæði í stjórnum og hjá æðstu stjórnendum.
Alveg eins og hjá elítunni hjá ríkinu, þá sendir þetta skilaboð inn í kjaraviðræðurnar um að það sé nóg til og að fólkið á gólfinu hafi töluverðar launahækkanir að sækja. Það er ekki óeðlilegt að þetta kveiki þessar væntingar, alveg óháð því hvert svigrúm til launahækkana kann að vera hjá hverjum hópi.
Sökin á þessari stöðu sem upp er komin liggur hjá ráðamönnum landsins og stjórnendum í atvinnulífinu. Hrokinn sem felst í þessu höfrungahlaupi í launaþróun elítunnar - á meðan gerðar eru allt aðrar og strangari kröfur um launaþróun fólksins á gólfinu - kann að reynast dýrkeyptur fyrir hagsmuni landsins þegar fram í sækir.