Pia Kjærsgaard er ekkert grín. Hún hefur árum saman verið valdamikill stjórnmálamaður og notað þau völd til að kynda undir hatursorðræðu gegn innflytjendum, flóttafólki og múslimum. Á árunum þegar Dansk Folkeparti, Danski þjóðarflokkurinn, var stuðningsflokkur dönsku ríkisstjórnarinnar, Venstre og Íhaldsflokksins, varð Pia þekkt utan Danmerkur fyrir regluleg óvægin ummæli um fólk af erlendu ætterni en upphlaup vegna orða hennar og gerða virtust nánast vera daglegt brauð. Síðan þá hafa þessar skrýtnu skoðanir náð að normalíserast svo að í dag þykir eðlilegt að Pia sé forseti danska þjóðþingsins.
Þá bjó ég í Kaupmannahöfn og skrifaði stundum um hana því umræðan var í augum mínum svo nýstárleg, þjóðrembingslegur málflutningur voldugs stjórnmálamanns sem nýtti vald sitt til að smætta fólk sem minna mátti sín í samfélaginu, múslima, flóttafólk og innflytjendur, og etja því saman við hópa eins og ellilífeyrisþega og Dani í lægri stéttum. Nokkuð sem er því miður ekki óvenjulegt lengur.
Frjór jarðvegur hatursorðræðu
Í þessum jarðvegi voldugra popúlista urðu skopmyndirnar af spámanninum Múhameð til, myndir sem áttu auðvitað sinn tilverurétt í lýðræðislegu samfélagi þar sem tjáningarfrelsi er ein grunnstoðin – en samt verður ekki framhjá því litið að í andrúmsloftinu sem einkenndi danskt samfélag þegar þær birtust voru þær ákveðin ögrun og kannski ekki tilviljun að þær birtust einmitt þar í landi, akkúrat þá, í einu stærsta dagblaðinu, Jyllandsposten. Þær urðu síðan kveikjan að frægum, eldfimum og alþjóðlegum átökum – og það er óhætt að segja að þau átök hafi eflt popúlista í málflutningi sínum, hatursorðræðu og niðrandi tali um fólk í veikri stöðu. Tali sem auðveldaði þeim að herða reglur og láta til sín taka.
Pia nýtti þá – og nýtir enn – vald sitt til að normalísera hatursorðræðu og stuðla að hertri löggjöf gegn fólki af erlendum uppruna – sem hefur verið gagnrýnd af alþjóðasamfélaginu. Hún hefur uppskorið með eljunni að opinber umræða um útlendinga í Danmörku er stundum áberandi óvægin og með því að efla þetta kjörlendi sitt viðheldur hún valdi sínu. Nú er hún heiðursgestur hér á landi. Eða réttara sagt: Piu var ekki boðið sérstaklega heldur var forseta danska þingsins boðið og sá forseti er illu heilli Pia. Raunveruleikinn sá að danska þingið valdi sér forseta með svona mannfjandsamlegar og andstyggilegar skoðanir. En í svona skrýtnum veruleika hefðu forsvarsmenn Alþingis átt að hafa rænu á því að leita á önnur mið varðandi ræðumann, jafnvel þótt forseti danska þingsins sé sá sem við blasti sögunnar vegna.
Einhverjir hafa sagt að gagnrýni á veru hennar hér á landi sem heiðursgestur á fullveldishátíðinni sé móðgun við danska þjóðþingið. En Pia er forseti danska þjóðþingsins út af skoðunum sínum. Það voru þær sem fleyttu henni þangað. Og tilhugsunin ein er óhugnanleg hafi maður fylgst með framgöngu Piu síðustu áratugina.
Sjálfsmynd nýlenduherra
Það að Pia segi í ræðu sinni að hún upplifi sig ekki sem útlending á Íslandi setur að mér hroll. Því Pia hefur mjög afdráttarlausar skoðanir á því hverjir séu góðir útlendingar og hverjir ekki. Það eitt að heyra hana segja orðið útlendingur er merkingarbært í sjálfu sér. Fyrir nokkrum árum las ég ameríska grein um þjóðernisrembing og viðsjárverða pólitík í Danmörku þar sem sagði meðal annars eitthvað á þá leið að Danir væru frjálslyndir svo lengi sem frjálslyndið sneri að þeim sjálfum. Greinarhöfundur greindi þar og gagnrýndi fordómaþrungin viðhorf í dönsku samfélagi gagnvart fólki utan Evrópu og af menningarheimum að einhverju leyti frábrugðnum hugmyndum í gömlum nýlenduherraríkjum um erkievrópska menningu. Og klykkti út með að slík viðhorf mætti rekja til þess að litla Danmörk væri gamalt konungsveldi með nýlenduherrakomplexa. Samfélag með inngróna sjálfsmynd nýlenduherra.
Mér varð hugsað til þessarar greinar þegar ég sá Piu standa þarna á Þingvöllum í kápu rauðlitri eins og danski fáninn og fagna fullveldinu með okkur. Því Pia er einn heitasti talsmaður þeirra viðhorfa Dana sem þessi greinarhöfundur kenndi við rembu gamalla nýlenduherra. Hún er nýlenduherra dagsins í dag. Talskona þess að dönsk gildi séu æðri öðrum, Danir betri en fólk sem kemur frá fátækari löndum. Löndum sem eru eins og Ísland var þá. Þegar Danir ríktu yfir okkur.
Því er leitun að óheppilegri manneskju en Piu til að vera heiðursgestur á afmæli fullveldis Íslands. Og ákveðin birtingarmynd á meðvitundarleysi íslenskra embættismanna gagnvart stjórnmálum á Norðurlöndunum að þetta skyldi fá að gerast.