Valdastéttin hefur notað aðstöðu sína á Alþingi hvað eftir annað til að gera hvers kyns sjálftöku og eignatilfærslur löglegar. Síðan þegar almenningur maldar í móinn, er bent á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og vísað til þess að ekki sé unnt að breyta afturvirkt neinum ákvæðum laga án þess að bótaskylda skapist.
Hér má t.d. minna á rífleg lífeyrisréttindi stjórnmálamanna og æðstu embættismanna, söluhagnað einstaklinga sem selja auðlindir sem eru skv. stjórnarskrá sameign þjóðarinnar og fleira og fleira. Fyrirtæki og stofnanir hafa verið „einkavinavædd“ og flest það sem unnt er að hagnast á, endar yfirleitt í höndum fárra fjölskyldna.
Árið 2008 voru samþykkt „neyðarlög“ á Alþingi sem keyrðu yfir allt það sem við eigum að venjast í lagasetningu og skyndilega var virðing yfirstéttarinnar fyrir eignarrétti frekar takmörkuð. Bankainnistæður voru m.a. fulltryggðar – og þá á kostnað annarra kröfuhafa. Þetta var allt gert með skírskotun til þess að verið væri að verja fjárhagslegan stöðugleika. EFTA dómstóll staðfesti síðar heimild okkar til að verja fjármálakerfið með þessum aðgerðum.
Lög eiga að þjóna fólki en ekki fólk lögum!
Þannig voru þessi grundvallaratriði um afturvirkni laga og um eignarrétt aðila sett til hliðar þegar það hentaði. Það má færa rök fyrir því að sterkur þingmeirihluti geti endurheimt einkavinavædd fyrirtæki, afnumið sérréttindi yfirstéttarinnar og lagt hald á ofsagróða af auðlindinni án kinnroða. Við lagasetningu væri þá vísað til þess að þessar aðgerðir væru nauðsynlegar til að tryggja félagslegt réttlæti og stöðugleika og jafnframt að tryggt yrði að allir sem yrðu fyrir barðinu á aðgerðunum fengju endurgreitt eðlilegt endurgjald fyrir það sem viðkomandi hefðu sannanlega lagt fram.
Þannig héldu menn lífeyrisréttindum af iðgjaldi sínu eins og aðrir launamenn. Eigendur einkavinavæddra félaga fengju endurgreitt það sem þeir sannanlega reiddu af hendi og unnt væri að fara í vasa þeirra sem hafa farið ránshendi um ríkissjóð og eigur ríkisins og síðan selt ránsfenginn og endurheimta hann að frádregnu því sem viðkomandi greiddi sannanlega sjálfur og úr eigin vasa.
Þróunin er svipuð um allan heim – valdastéttin veður yfir allt og alla og stelur öllu. Þetta er gert í skjóli ofbeldis með lögum en ekki endilega vopnavaldi. Á meðan grúfir almenningur sig yfir snjallsímana og gleymir sér við innihaldslausa leiki og afþreyingu á milli þess. Þegar kemur að kosningum – kaupa valdahóparnir sér atkvæði með því að stýra samfélagsmiðlum og fjölmiðlum. Síminnkandi hópur fólks sér í gegnum blekkingarnar – en meirihlutinn marserar með og kýs áframhaldandi eignaupptöku.
Mál er að linni.