Langar að gefa samfélaginu eitt stórt klapp!
Að við búum á tímum þar sem metnaður er lagður í það að hver einstaklingur fái að þroskast og vera eins og hann er, er yndislegt!
Að litlar stelpur hlaupi brosandi um í Batman búning og litlir strákar séu dansandi í tjúllpilsum. Og auðvitað líka allt þar á milli, strákar í fótbolta, stelpur í ballet, er bara freaking awesome!
Allir svo tilbúnir að styðja og hvetja upprennandi kynslóðir í að vera bara nákvæmlega eins og þau eru.
En því miður er heimurinn ekki bara sólskin og bleik ský.
Það er enn mikilvægur partur í lífi barna og unglinga, sem hefur hvað neikvæðust áhrif á sjálfsmynd þeirra.
Við ýtum börnum og unglingum út í samfélagið til að blómstra og elska sjálfa sig. Að elska freknurnar sínar, að elska líkamann sinn, að elska þann mat sem þeim finnst góður.
En því miður er lítil rödd, sem hvíslar sífellt að þeim: „Málaðu þig meira“, „Komdu þér í betra form“, „Ojj borðaru kjöt!? ömurlegt týpa!“.
Þetta er svona eins og vondi karlinn í Latabæ. Hann er flottastur og bestur og allir sem eru ekki eins og hann eru glataðir. Köllum hann Hr. Samfélagsmiðil.
Það er ótrúlega mikilvægt að áhrifavaldar og samfélagsmiðla stjörnur gleymi ekki hvað Hr. Samfélagsmiðill getur haft mikil áhrif. Getur haft neikvæð áhrif. Bara ein athugassemd getur valdið því að barnið/unglingurinn finnst hann ljótasta mannvera á jarðríki eða ein auglýsing getur verið kveikja að einhverskonar átröskun.
En það er alltaf hægt að bæta sig. Alltaf hægt að nostra betur við sjálfsmynd upprennandi kynslóðar. Hr. Samfélagsmiðill þarf bara hjálp, hjálp við að sjá hvað það er fallegt að allir séu allskonar! #hjálpumhrsamfélagsmiðli
---------
Að vakna sem unglingur á fallega Íslandi.
Kuldinn ærir og vindurinn hvíslandi.
Vonbrigði dagsins eru like-in á gramminu.
Mynd af stelpunum, svo sætar á djamminu.
Bara 200 like, þessi tala er hlægileg.
Eyddu þessu stelpa! Því skömmin er ægileg.
Málaðu brýrnar og hyldu öll lýti.
Drífðu þig stelpa, í ræktina í flýti!
Mjókaðu mittið og stækkaðu línurnar.
Þú átt að vera eins og instagram gínurnar.
Ekki voga þér nálægt sykri og hveiti
Kjöti, gosdrykkum eða neinskonar feiti.
Að lokum manstu og aldrei því gleyma.
Að sleppa filter, er þig að dreyma!?
Lagaðu þetta og við látum á reyna.
Að elska þá manneskju sem þú hefur að geyma.