Nú hefur komið til tals að atburðirnir 11. september hafi leitt til stríðs milli siðmenninga. Þar er ég ekki sammála. Því stríð milli siðmenninga myndi jú þýða að um væri að ræða tvær siðmenningar og það er ekki tilfellið. Það er aðeins ein siðmenning og það er okkar.
-Pia Kjærsgaard.
Það má kenna Piu Kjærsgaard við rasisma – því hún hefur gert sig seka um hann, samkvæmt niðurstöðu danskra dómstóla. Hún er ákafur talsmaður eigin hugmynda um danska menningu sem virðist í hennar huga vera æðri mannvirðingu, mannréttindum og því sem ætla mætti að væru siðmenntaðar hugmyndir í mannlegri sambúð.
Hún vildi þvinga svínakjöt ofan í dönsk skólabörn af múslimskum uppruna, hún berst fyrir því að fjörutíu prósent af þeim lögum sem spiluð eru í danska útvarpinu séu dönsk, hún vildi búa til DNA-gagnagrunn um hælisleitendur í Danmörku, hún vildi banna sjónvarpsútsendingar Al Jazeera og Al Arabiya, hún studdi það að eigur fólks í leit að pólitískri vernd væru teknar af þeim við dönsku landamærin og hún barðist á móti því að flóttabörn fengju að stunda ókeypis íþróttir, svo fátt eitt sé nefnt af baráttumálum Piu, að ógleymdu öllu því sem hún hefur sagt í gegnum tíðina til að ýfa upp öldur hatursorðræðu.
Pia er vægast sagt umdeild í Danmörku – og víðar – þar sem hún þó er forseti danska þjóðþingsins. Vegna þess var hún fengin til Íslands til að flytja ávarp á hátíðarsamkomu íslenskra fyrirmenna vegna hundrað ára afmælis fullveldisins.
Bakgrunnur Piu og skoðanir hennar eru þó svo afgerandi í mannfyrirlitningu sinni að það er ógjörningur að upplifa veru hennar hérna við þetta tilefni einungis sem táknræna komu fulltrúa danska þjóðþingsins. Allt sem hún lætur út úr sér fær sérstaka merkingu, litaða af lífsýn hennar sem hefur síðustu árin haft hættulega mikil áhrif á dönsk stjórnmál og líf fjölda fólks. Þannig að þegar Pia lætur hafa eftir sér eftirfarandi orð við þessa táknrænu samkundu á Þingvöllum, þá hafa þau í sér að geyma hættulegan boðskap. Einmitt þetta hljómar ankannalega, sérstaklega úr munni hennar:
Er ríkjasamband okkar var við lýði þótti Dönum Ísland vera það land þar sem hin upphaflega sjálfsmynd norrænna manna var varðveitt. Á 19. öld átti Ísland þátt í að kynda undir danskri þjóðerniskennd sem þá var í blóma. Litið var á Ísland sem vöggu norrænnar menningar.
Danmörk og Ísland tengjast nánum vináttuböndum í norrænu bræðralagi.
Allt hefði verið sniðugra en að fá Piu hingað á hátíðarfundinn. Af hverju mátti ekki fá fulltrúa grænlensku heimastjórnarinnar til að tala? Hefði það ekki verið fallegri gjörningur? Að nikka til Grænlendinga í tilefni dagsins.
Það að Steingrímur J. Sigfússon hafi verið ábyrgur fyrir þessari ákvörðun og verji hana sýnir hvernig hugsjónaríkur stjórnmálamaður getur fallið í þá gryfju að verða rykfallinn embættismaður sem tekur vélrænar ákvarðanir í nafni formlegheita og hugmynda um réttu prótókollin. Mannlegt atferli, jú, en skeinuhættulegt.
Í tilkynningu sem Steingrímur sendi fjölmiðlum stóð:
Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.
Þarna velur hann að ásaka þá sem gagnrýna merkingarþrungna veru Piu á þessari táknrænu samkomu fyrir þjóðina um eins konar fyrirframgefinn ásetning að vilja varpa skugga á hátíðarhöldin. Hann gerir þannig lítið úr upplifun fólks sem fannst návist Piu gera hátíðarviðburðinn að engu. Í stað þess að taka til sín gagnrýni á þessa illa ígrunduðu ákvörðun talar hann niður til þess hluta þjóðarinnar sem eitthvað hefur fylgst með stjórnmálum í Danmörku síðustu árin og horft á þau gagnrýnum augum. Eins og Pia sjálf sem hefur svarað þeirri gagnrýni með þótta nýlenduherra þegar hún gefur í skyn að hún sé sprottin vegna fáfræði landans og skorts á mannasiðum.
Það er eitthvað Trumpískt óbragð af þessu öllu saman. Nánast eins og Steingrímur geri sér far um að merkingasneyða veruleikann. Hann sólóar í svari sínu, án minnsta vilja til að virða viðbrögð fjölda landsmanna við atburði sem snýr að allri þjóðinni. Ver ákvörðunina, vilja sinn, og afneitar þannig mikilvægum staðreyndum. Trumpískt segir maður því eitthvað við þetta skeytingarleysi gagnvart grunngildum ýmissa samborgara kveikir aðvörunarljós. Það minnir á hversu langt farsinn fær að flæða þegar veruleikinn er merkingasneyddur. Þegar horft er framhjá grafalvarlegum hlutum og látið eins og þeir séu hugarburður. Allt í nafni formlegra siðvenja – en hvers virði eru þær ef fórnarkostnaðurinn er að afneita mannhatri?
Fátt er varhugaverðara en þegar ráðamenn skilgreina veruleikann eftir eigin þótta. Skemmst að minnast Trump sem sólóar í viðræðum við Putin og lætur ráð gagnrýnenda og ráðgjafa sem vind um eyru þjóta. Í huga hans er veruleikinn einfaldur: Heimurinn er hugur hans. Það er siðmenning hans: Trump-menning. Menning þar sem fólki tókst að rýna í klásúlur til að réttlæta það að aðskilja börn frá foreldrum sínum og loka þau inni í búrum.
Eitthvað svipað má segja um lífsýn Piu Kjærsgaard sem viðurkennir aðeins þjóðræknislegar danskar dillur sem siðmenningu. Stjórnmálamönnum sem leyfa sér þannig þankagang hefur vaxið óhugnarlega mikið ásmegin síðan um aldamótin – þegar Pia sagði aðeins eina siðmenningu vera til. Og svo virðist sem tengsl þeirra dýpki með hverjum deginum sem líður. Bandalag þeirra sem vilja merkingasneyða veruleikann í þágu þjóðrembulegra sérhagsmuna vex.
Trump ræðir í einrúmi við Putin og býður honum óvænt í heimsókn. Heimsóknir erlendra stjórnmálamanna eru táknrænar. Við buðum Piu Kjærsgaard heim.