Í fyrradag heimsóttum við sonur minn hverfi í Berlín þar sem við bjuggum í fjögur ár. Það var notalegt að koma á gamlar slóðir og heilsa upp á hressu þjónustukonuna á fastakaffihúsinu og tyrknesku fjölskylduna á matsölustaðnum, allt þetta fólk sem var eitt sinn fastur liður í lífi manns. En þarna rakst ég líka á gamalkunnug andlit heimilislausa fólksins – og önnur ný. Það er skrýtið að rekast daglega á sömu heimilislausu manneskjuna. Með tímanum síast tilvera hennar inn í hugarheim manns. Hún hættir að vera ókunnug vera úti á götu og það verður ekki lengur fram hjá því litið að hún eða hann sem heilsar þér á hverjum degi á hvergi heima og á sér vafalaust erfiðari lífssögu en maður getur ímyndað sér. Heimilislausa fólkið í Berlín er allskonar; konur, karlar og börn, eldra fólk, þýskt að uppruna og ættað frá öðrum löndum.
En þau eiga það öll sameiginlegt að vera lifandi minnisvarði um hörkuna í heiminum – sem lúrir undir niðri á sólríkum sumardegi þegar góðborgararnir sleikja ís og huga að ferðalögum í fríinu. Þegar ég bjó þarna átti ég nokkra hálfgildings kunningja meðal þessa fólks, til dæmis unglingspilt sem ég gaukaði yfirleitt að tveimur evrum, gamlan rónakarl með nokkra hunda og gæðalega konu sem seldi blað heimilislausra skammt frá leikskóla sonar míns. En ég spurði þau aldrei út í líf þeirra.
Stundum varð þó eitthvað til þess að setja mig út af laginu. Ég man til dæmis eftir því þegar við fyrrum eiginmaður minn skruppum út í hádegismat og sátum við hlið konu sem var að betla með vankað barn, sýnilega á róandi lyfjum, sér við hlið. Ég vildi ólm hringja á lögregluna svo barnið fengi hjálp en minn ex dæsti að það væri þýðingarlaust, hefði ekkert upp á sig nema rústa vinnudeginum fyrir okkur og lögreglan myndi ekkert geta aðhafst. Að lokum hringdi hann samt á lögregluna sem sagðist ekkert geta gert nema við legðum fram formlega kæru til barnaverndar í Berlínarborg og þegar sú kæra yrði komin í mjaltavélar þýskrar bjúrókrasíu yrði konan með barnið löngu horfin.
Allir þessir vængbrotnu fuglar
Minn ex var reyndar ýmsu vanur í þessum málum. Hann hafði sjálfur búið á götunni meðal heimilislausra í meira en ár sem ungur maður þegar hann var götumálari í Suður-Evrópu og Marokkó. Og kannski þess vegna sem hann átti stundum erfitt með að horfa upp á eymdina sem leyndist víða, þrátt fyrir evrópska velmegunarásýnd borgarinnar.
Við bjuggum líka tvö ár í Barcelona þar sem yfirborðsleg velmegun vall út um allt, krabbaklær á klökum og kældar cavaflöskur. En heimili okkar var við gamla hórugötu í Raval-hverfinu og þar var ásýndin önnur. Ólétt stúlkubörn seldu sig sveittum körlum, mansal blómstraði, dópuð ungmenni suðu sofandi í hitanum, horaðir smáglæpamenn fylgdust með dýrðinni og eitt sinn rakst ég þar á dverg, með allt girt niður um sig, sem hafði fundið sér barnasófa og lá sofandi á honum. Á hverjum degi labbaði ég þarna í gegn á leið í spænskuskóla. Og eymdin síaðist inn. Og sama hversu margar rassíur löggan gerði, staðan var orðin sú sama strax daginn eftir. Minn fyrrverandi hafði eitt sinn á orði að við byggjum í endaþarmi Evrópu.
Svo var það einn daginn að við fundum fuglsunga skammt frá. Hann hafði dottið úr tré og lá nær dauða en lífi á stéttinni. Við tókum fuglinn með heim. Næstu þrjá sólarhringa vöktum við yfir honum eins og veiku ungabarni og mötuðum hann með sprautu fylltri næringu samkvæmt ráði afgreiðslukonu í dýrabúð. Við vorum bæði heltekin af fuglinum og þegar hann dó grét ég eins og mér væri allri lokið. Reyndar misstum við góðan vin úr lungnakrabbameini á sama tíma en eftir á séð, þegar ég hugsa um þessa skrýtnu daga með fuglinum, held ég að það að horfa upp á þessa miklu eymd á hverjum degi hafi verið farið að lemstra sálarlífið. Þessi algjöri vanmáttur gagnvart hörku lífsins. Því allt um kring voru vængbrotnir fuglar, allt þetta fólk sem átti engan séns í lífinu.
Feðgar að betla
Nokkrum árum síðar var mér boðið til Parísar að kynna skáldsögu sem ég var að gefa út. Þá vorum við búin að eignast son sem var orðinn fjögra ára. Á öðrum degi ferðarinnar bauð forlagið mér á frægan bistró að borða heimsins fínasta mat og kynningarfulltrúinn kom og sótti mig á hótelið. Við röltum þaðan á bistróinn en á leiðinni mættum við karlmanni sem sat við götuna með lítinn strák á aldur við son minn. Feðgarnir voru að betla. Pabbinn þreyttur og sonurinn ... hann var bara lítill strákur eins og sonur minn. Eins í háttum og augnaráðið það sama. Ég fraus. Allt í einu gat ég vart talað fyrir vanlíðan. Mér leið eins og þetta væri sonur minn og pabbi hans. Á einhvern hátt voru þetta þeir.
Ég talaði um þetta við kynningarfulltrúann, unga konu, sem sagði að hún hefði oft upplifað þessa vanlíðan fyrst þegar hún flutti í borgina en nú væri hún farin að harka af sér. Annað væri ekki hægt. Og það er einmitt það sem við gerum: Lokum augunum því annars er eymd annarra óbærileg. Já, við borðuðum heimsins fínasta mat með óbragð í munninum.
Við hötum ykkur!
Og síðasta sagan: Ári áður en við hjónakornin skildum flæktumst við með soninn til Sardiníu, eins syðsta odda Evrópu þar sem flóttafólk frá Afríku þræðir strendurnar, svangt og þyrst, og reynir að selja bústnum ferðalöngum í bíkíníi og strandbuxum allskonar varning. Sumir með tíu hatta á lúnu höfðinu, aðrir með lúnar kælitöskur með sítrónugosi. Þarna lá ég undir sólhlíf og forðaðist að opna augun því í hvert skipti sem mér varð litið upp stóð yfir mér soltin manneskja og horfði lífsreyndum, biðjandi augum á mig. Ég hef sjaldan upplifað eins sterkt misskiptinguna í heiminum. Allar þessar velsældarlegu manneskjur úr evrópskri millistétt að tana sig og undirbúa fyrir kræklinga og hvítvín kvöldsins andspænis hungruðum heimilisfeðrum sem bjuggu fjölskyldum sínum ból úti við aðallestarstöðina eða hrúguðust saman með fleiri fjölskyldum í litlum kytrum. Eitt kvöldið röltum við framhjá slíkri kytru í næturhúminu og heyrðum hjal í börnum og fullorðnum. Á hvítan vegg skammt frá hafði einhver skrifað á frönsku: Nous vous haïssons - Við hötum ykkur!
Franskan benti til að þetta hefði einhver flóttamanneskjan skrifað. Nema þá að einhver innfæddur Sardiníubúinn hafi viljað beina orðunum til þeirra. Ég veit það ekki. En orðin sátu í mér.
Ég rabbaði við einn af sölumönnunum á ströndinni. Það varð til þess að hann vék sér stundum að okkur þegar við mættum honum inni í bænum. Hann lifnaði alltaf við þegar sonur minn sagði eitthvað og gaf honum tréarmband með útskornum fíl, pelíkana og gíraffa. Ungur, sviphreinn maður. Einstæðingur. Ein af öllum þessum manneskjum sem þvælast um heiminn án samastaðar. Í leit að tilveru. Vináttu. Mannsæmandi lífi. Og æ fleiri góðborgarar í hinum vestræna heimi óttast því þeim finnst heimsmynd sinni ógnað. Hata jafnvel. Og þá verður maður hræddur. Því sagan sýnir að þegar góðborgararnir verða svo óttaslegnir að þeir fara að hata aðrar manneskjur, þá er voðinn vís.
Klisjan við og hin er sönn af því að þannig hættir okkur til að hugsa. Að sjá heimilislaust fólk ekki sem fólk heldur eins konar óhjákvæmilegan fylgifisk stórborga. Eitthvað sem bara er þarna. Og við megum hafa okkur öll við að sjá ekki. Því annars er hætt við að okkur líði illa.