Við hötum ykkur! – Fólkið í Evrópu sem á hvergi heima

Auður Jónsdóttir rithöfundur skrifar um fátækt og þá firringu sem fylgir viðhorfi gagnvart henni.

Auglýsing

Í fyrra­dag heim­sóttum við sonur minn hverfi í Berlín þar sem við bjuggum í fjögur ár. Það var nota­legt að koma á gamlar slóðir og heilsa upp á hressu þjón­ustu­kon­una á fasta­kaffi­hús­inu og tyrk­nesku fjöl­skyld­una á mat­sölu­staðn­um, allt þetta fólk sem var eitt sinn fastur liður í lífi manns. En þarna rakst ég líka á gam­al­kunnug and­lit heim­il­is­lausa fólks­ins – og önnur ný. Það er skrýtið að rekast dag­lega á sömu heim­il­is­lausu mann­eskj­una. Með tím­anum síast til­vera hennar inn í hug­ar­heim manns. Hún hættir að vera ókunnug vera úti á götu og það verður ekki lengur fram hjá því litið að hún eða hann sem heilsar þér á hverjum degi á hvergi heima og á sér vafa­laust erf­ið­ari lífs­sögu en maður getur ímyndað sér. Heim­il­is­lausa fólkið í Berlín er alls­kon­ar; kon­ur, karlar og börn, eldra fólk, þýskt að upp­runa og ættað frá öðrum lönd­um.

En þau eiga það öll sam­eig­in­legt að vera lif­andi minn­is­varði um hörk­una í heim­inum – sem lúrir undir niðri á sól­ríkum sum­ar­degi þegar góð­borg­ar­arnir sleikja ís og huga að ferða­lögum í frí­inu. Þegar ég bjó þarna átti ég nokkra hálf­gild­ings kunn­ingja meðal þessa fólks, til dæmis ung­lings­pilt sem ég gaukaði yfir­leitt að tveimur evr­um, gamlan róna­karl með nokkra hunda og gæða­lega konu sem seldi blað heim­il­is­lausra skammt frá leik­skóla sonar míns. En ég spurði þau aldrei út í líf þeirra.

Stundum varð þó eitt­hvað til þess að setja mig út af lag­inu. Ég man til dæmis eftir því þegar við fyrrum eig­in­maður minn skruppum út í hádeg­is­mat og sátum við hlið konu sem var að betla með vankað barn, sýni­lega á róandi lyfj­um, sér við hlið. Ég vildi ólm hringja á lög­regl­una svo barnið fengi hjálp en minn ex dæsti að það væri þýð­ing­ar­laust, hefði ekk­ert upp á sig nema rústa vinnu­deg­inum fyrir okkur og lög­reglan myndi ekk­ert geta aðhafst. Að lokum hringdi hann samt á lög­regl­una sem sagð­ist ekk­ert geta gert nema við legðum fram form­lega kæru til barna­verndar í Berlín­ar­borg og þegar sú kæra yrði komin í mjalta­vélar þýskrar bjúrókrasíu yrði konan með barnið löngu horf­in.

Auglýsing

Allir þessir væng­brotnu fuglar

Minn ex var reyndar ýmsu vanur í þessum mál­um. Hann hafði sjálfur búið á göt­unni meðal heim­il­is­lausra í meira en ár sem ungur maður þegar hann var götu­mál­ari í Suð­ur­-­Evr­ópu og Marokkó. Og kannski þess vegna sem hann átti stundum erfitt með að horfa upp á eymd­ina sem leynd­ist víða, þrátt fyrir evr­ópska vel­meg­unar­á­sýnd borg­ar­inn­ar.

Við bjuggum líka tvö ár í Barcelona þar sem yfir­borðs­leg vel­megun vall út um allt, krabbaklær á klökum og kældar cavaflösk­ur. En heim­ili okkar var við gamla hóru­götu í Raval-hverf­inu og þar var ásýndin önn­ur. Ólétt stúlku­börn seldu sig sveittum körlum, man­sal blómstraði, dópuð ung­menni suðu sof­andi í hit­an­um, horaðir smá­glæpa­menn fylgd­ust með dýrð­inni og eitt sinn rakst ég þar á dverg, með allt girt niður um sig, sem hafði fundið sér barna­sófa og lá sof­andi á hon­um. Á hverjum degi labb­aði ég þarna í gegn á leið í spænsku­skóla. Og eymdin síað­ist inn. Og sama hversu margar rass­íur löggan gerði, staðan var orðin sú sama strax dag­inn eft­ir. Minn fyrr­ver­andi hafði eitt sinn á orði að við byggjum í enda­þarmi Evr­ópu.

Svo var það einn dag­inn að við fundum fugls­unga skammt frá. Hann hafði dottið úr tré og lá nær dauða en lífi á stétt­inni. Við tókum fugl­inn með heim. Næstu þrjá sól­ar­hringa vöktum við yfir honum eins og veiku unga­barni og möt­uðum hann með sprautu fylltri nær­ingu sam­kvæmt ráði afgreiðslu­konu í dýra­búð. Við vorum bæði hel­tekin af fugl­inum og þegar hann dó grét ég eins og mér væri allri lok­ið. Reyndar misstum við góðan vin úr lungna­krabba­meini á sama tíma en eftir á séð, þegar ég hugsa um þessa skrýtnu daga með fugl­in­um, held ég að það að horfa upp á þessa miklu eymd á hverjum degi hafi verið farið að lemstra sál­ar­líf­ið. Þessi algjöri van­máttur gagn­vart hörku lífs­ins. Því allt um kring voru væng­brotnir fugl­ar, allt þetta fólk sem átti engan séns í líf­inu.

Feðgar að betla

Nokkrum árum síðar var mér boðið til Par­ísar að kynna skáld­sögu sem ég var að gefa út. Þá vorum við búin að eign­ast son sem var orð­inn fjögra ára. Á öðrum degi ferð­ar­innar bauð for­lagið mér á frægan bistró að borða heims­ins fín­asta mat og kynn­ing­ar­full­trú­inn kom og sótti mig á hót­el­ið. Við röltum þaðan á bistró­inn en á leið­inni mættum við karl­manni sem sat við göt­una með lít­inn strák á aldur við son minn. Feðgarnir voru að betla. Pabb­inn þreyttur og son­ur­inn ... hann var bara lít­ill strákur eins og sonur minn. Eins í háttum og augna­ráðið það sama. Ég fraus. Allt í einu gat ég vart talað fyrir van­líð­an. Mér leið eins og þetta væri sonur minn og pabbi hans. Á ein­hvern hátt voru þetta þeir.

Ég tal­aði um þetta við kynn­ing­ar­full­trú­ann, unga konu, sem sagði að hún hefði oft upp­lifað þessa van­líðan fyrst þegar hún flutti í borg­ina en nú væri hún farin að harka af sér. Annað væri ekki hægt. Og það er einmitt það sem við gerum: Lokum aug­unum því ann­ars er eymd ann­arra óbæri­leg. Já, við borð­uðum heims­ins fín­asta mat með óbragð í munn­in­um.

Við hötum ykk­ur!

Og síð­asta sagan: Ári áður en við hjóna­kornin skildum flækt­umst við með son­inn til Sar­din­íu, eins syðsta odda Evr­ópu þar sem flótta­fólk frá Afr­íku þræðir strend­urn­ar, svangt og þyrst, og reynir að selja bústnum ferða­löngum í bík­íníi og strand­buxum alls­konar varn­ing. Sumir með tíu hatta á lúnu höfð­inu, aðrir með lúnar kæli­töskur með sítrónu­gosi. Þarna lá ég undir sól­hlíf og forð­að­ist að opna augun því í hvert skipti sem mér varð litið upp stóð yfir mér soltin mann­eskja og horfði lífs­reynd­um, biðj­andi augum á mig. Ég hef sjaldan upp­lifað eins sterkt mis­skipt­ing­una í heim­in­um. Allar þessar vel­sæld­ar­legu mann­eskjur úr evr­ópskri milli­stétt að tana sig og und­ir­búa fyrir kræk­linga og hvítvín kvölds­ins and­spænis hungruðum heim­il­is­feðrum sem bjuggu fjöl­skyldum sínum ból úti við aðal­lest­ar­stöð­ina eða hrúg­uð­ust saman með fleiri fjöl­skyldum í litlum kytr­um. Eitt kvöldið röltum við fram­hjá slíkri kytru í næt­ur­húm­inu og heyrðum hjal í börnum og full­orðn­um. Á hvítan vegg skammt frá hafði ein­hver skrifað á frönsku: Nous vous haïs­sons - Við hötum ykk­ur!

Franskan benti til að þetta hefði ein­hver flótta­mann­eskjan skrif­að. Nema þá að ein­hver inn­fæddur Sar­din­íu­bú­inn hafi viljað beina orð­unum til þeirra. Ég veit það ekki. En orðin sátu í mér.

Ég rabb­aði við einn af sölu­mönn­unum á strönd­inni. Það varð til þess að hann vék sér stundum að okkur þegar við mættum honum inni í bæn­um. Hann lifn­aði alltaf við þegar sonur minn sagði eitt­hvað og gaf honum tré­arm­band með útskornum fíl, pelíkana og gíraffa. Ung­ur, svip­hreinn mað­ur. Ein­stæð­ing­ur. Ein af öllum þessum mann­eskjum sem þvæl­ast um heim­inn án sama­stað­ar. Í leit að til­veru. Vin­áttu. Mann­sæm­andi lífi. Og æ fleiri góð­borg­arar í hinum vest­ræna heimi ótt­ast því þeim finnst heims­mynd sinni ógn­að. Hata jafn­vel. Og þá verður maður hrædd­ur. Því sagan sýnir að þegar góð­borg­ar­arnir verða svo ótta­slegnir að þeir fara að hata aðrar mann­eskj­ur, þá er voð­inn vís.

Klisjan við og hin er sönn af því að þannig hættir okkur til að hugsa. Að sjá heim­il­is­laust fólk ekki sem fólk heldur eins konar óhjá­kvæmi­legan fylgi­fisk stór­borga. Eitt­hvað sem bara er þarna. Og við megum hafa okkur öll við að sjá ekki. Því ann­ars er hætt við að okkur líði illa.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ástþrúður Kristín Jónsdóttir
Lífeyrisþegi styrkir bótaþega
Kjarninn 25. september 2021
Indriði H. Þorláksson
Hvern á að kjósa?
Kjarninn 25. september 2021
Hvernig rættust kosningaspárnar árin 2016 og 2017?
Kjarninn setur nú fram kosningaspá fyrir alþingiskosningar í samstarfi við Baldur Héðinsson í þriðja sinn, en spáin gefur fyrirliggjandi könnunum vægi samkvæmt reikniformúlu Baldurs. Hvernig hefur spáin gengið eftir í fyrri tvö skiptin?
Kjarninn 25. september 2021
Ívar Ingimarsson
Reykjavík er náttúrulega best
Kjarninn 25. september 2021
Magnús Hrafn Magnússon
Hver á lag?
Kjarninn 25. september 2021
Bækur Enid Blyton hafa hafa selst í rúmlega 600 milljónum eintaka og verið þýddar á meira en 90 tungumál.
762 bækur
Útlendingar, svertingjar, framandi, sígaunar. Stela, hóta, svíkja, lemja. Vesalingar og ómerkilegir aumingjar. Þetta orðfæri þykir ekki góð latína í dag, en konan sem notaði þessi orð er einn mest lesni höfundur sögunnar. Enid Blyton.
Kjarninn 25. september 2021
Lokaspá: Líkur frambjóðenda á að komast inn á Alþingi
Kjarninn birtir síðustu þingmannaspá sína í aðdraganda kosninga. Ljóst er að margir frambjóðendur eiga fyrir höndum langar nætur til að sjá hvort þeir nái inn eða ekki og töluverðar sviptingar hafa orðið á líkum ýmissa frá byrjun viku.
Kjarninn 25. september 2021
Lokaspá: Meiri líkur en minni á að ríkisstjórnin haldi velli
Samkvæmt síðustu kosningaspánni mun Framsóknarflokkurinn verða í lykilstöðu í fyrramálið þegar kemur að myndun ríkisstjórnar, og endurheimtir þar með það hlutverk sem flokkurinn hefur sögulega haft í íslenskum stjórnmálum.
Kjarninn 25. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit