„Hvernig á að haga sauðfjárræktinni svo hún verði ekki á kostnað landsins, eins og löngum hefur vilja við brenna – tryggt að landið sé ekki eins og nú háð uppblæstri og eyðingu af miskunnarlausum ágangi fjárins á viðkvæmum gróðursvæðunum? ….. Er ekki sjálfsagt að alfriða fyrir ágangi viðkvæm gróðursvæði og byggð og óbyggð þar sem gróðurmoldin, dýrmætasti auður landsins, fær nú óhindrað að feykjast burt vegna þess að sauðfé slítur jafnóðum hverja plöntu sem gerir tilraun til að binda jarðveginn?“ „Öllum þessum spurningum, og reyndar mörgum fleiri, þarf að svara ……. það þarf að svara þeim á vísindalegan hátt að undangenginni rannsókn og hefja nýskipan mála í samræmi við hin réttu svör“.1
Svo skrifaði Halldór Laxness í grein fyrir nær 80 árum. Halldór benti réttilega á að ákvarðanir varðandi framleiðsluna og landkosti þurfa að byggja á vísindalegum gögnum. Slíkra gagna hefur reyndar verið aflað, m.a. var jarðvegsrof kortlagt í landinu öllu fyrir um aldarfjórðungi. Sá er þetta ritar tók virkan þátt í þeirri vinnu. Og í kjölfarið var um síðir ákveðið að tengja styrki við landkosti með „landnýtingarþætti gæðastýringar í sauðfjárrækt“. Samdar voru reglur og Landgræðslu ríkisins falin hluti framkvæmdarinnar. Ábyrgðin hvílir þó hjá Búnaðarstofu MAST. Og með síðari tíma breytingum er ábyrgð Landgræðslunnar orðin fremur óljós. Hjá MAST starfar enginn fagmaður á sviði ástands lands að ég best veit. Fyrrnefndi landnýtingarþáttur gæðastýringarinnar er töluvert notaður til að halda því fram að beit á Íslandi sé sjálfbær, að sauðfjárframleiðsla taki mið af landkostum, enda háð gæðastýringu. Framkvæmdin hefur þó verið mjög á huldu. Hún hvílir á ansi dulúðlegri greinargerð þar sem grimmt er vísað til laga um afréttarmál frá 1969 og laga um landgræðslu frá 1965. Það vill svo til að ýmislegt hefur gerst í umhverfismálum síðan 1969, jafnvel risinn sérstakur lagabálkur um umhverfismál og náttúruvernd á nútímalegum grunni og ráðuneyti til halds og trausts. Því er það svo að framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar vekur töluverða forvitni. Er þetta gott kerfi? Virkar það? Það er sannast að sega afar mikilvægt að hægt sé að kanna og sannreyna með hvaða hætti landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt virkar. Milljarðarnir sem almenningur greiðir með framleiðslunni ár hvert eru engir smápeningar og það er hreint bráðnauðsynlegt að stjórnsýsla af þessu tagi sé opin.
Því reyndi sá er þetta ritar að afla upplýsinga um framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar hjá til þess bæru stjórnvaldi, Búnaðarstofu MAST. Fékk alúðlegar viðtökur, en afar litlar upplýsingar. Vegferðin endaði að lokum í blindgötu og erindisleysu. Utanfrá séð virðist kerfið var eiginlega sjálfhverft og lokað innan í sjálfu sér. Því var leitað liðsinnis „úrskurðarnefndar um upplýsingarmál“ sem leysir úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Eiga upplýsingar um hvað liggi að baki vottunar á sjálfbærri landnýtingu og greiðslum úr ríkissjóði samkvæmt því að vera opinberar upplýsingar? Hvort búin standist vottun yfir höfuð? Eiga nöfn býlanna sem hljóta stuðninginn að vera leyndarmál? Á fjárfjöldi á búum sem hljóta styrki af þessu tagi að vera öllum ljós? Eiga stuðningsgreiðslur samfélagsins til landbúnaðar almennt að vera leyndarmál eða opinberar upplýsingar og öllum aðgengilegar?
Úrskurður nefndarinnar liggur fyrir.2 Ljóst er að upplýsingar um framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárframleiðslu, þ.e. landbótaáætlanir og nýtingu beitilands skulu vera opinber gögn. Þar eru upplýsingar um fjölda fjár á búum ekki undanskyldar. Sumt er þó óútkljáð að sinni, m.a. hvort allar upplýsingar um stuðningsgreiðslur skulu vera opinberar. Áður þarf Búnaðarstofa MAST að svara erindi mínu með lögformlegri hætti er varðar þá þætti og kannski verður svarið jákvætt og upplýsandi– hver veit? Það er ljóst að nú getur fagfólk jafnt sem almenningur aflað upplýsinga og farið í saumana á því með hvaða hætti ákvarðanir eru teknar um hvort sauðfjárbeit teljist með ásættanlegum hætti og sé þar af leiðandi landbúnaður sem er verður stuðnings samborgaranna. Þessum áfanga ber að fagna. Eftir er að skoða og meta afraksturinn þegar hann berst.
Höfundur er jarðvegsfræðingur og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
1. Halldór Laxness, Landbúnaðarmál. Grein í bókinni Vettvángur dagsins frá árinu 1942. Endurútgefið í bókinni Landkostir. Úrval greina um sambúð lands og þjóðar, 1927-1984. Ekki samfelld tilvitnun.