Þeir sem gæta hagsmuna atvinnurekenda og fjárfesta tala nú mikið um að ekkert svigrúm sé til launahækkana í komandi kjarasamningum.
Það kemur svo sem ekki á óvart. Þetta er hefðbundið tal í aðdraganda kjarasamninga.
Það sem kemur þó á óvart er hversu langt menn ganga að þessu sinni.
Yfirleitt leyfa menn sér ekki að útiloka algerlega launahækkanir nema hagkerfið sé komið í djúpa kreppu eða umtalsverðan samdrátt.
Er það sú staða sem við erum komin í núna?
Ó nei! Öðru nær.
Ágætur hagvöxtur og góðar horfur
Hér er ágætur hagvöxtur. Mun meiri en almennt er í hagsældarríkjunum á Vesturlöndum. Þó eitthvað myndi hægja á þá væru Íslendingar áfram í góðum málum.
Árið 2017 var hagvöxtur 3,6% á Íslandi en meðaltal Evrópusambandsríkja var 2,4%.
Og það er spáð áframhaldandi hagvexti hér á landi frá 2018 til 2023 (á bilinu 2,5-2,9%) í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Það er mun meira en almennt er á alþjóðavettvangi (sjá myndina hér að neðan).
Slíkar spár nokkur ár fram í tímann eru alltaf varfærnislegar. Þær eru þess vegna undir því sem menn búast við að verði í raun. Því má gefa sér að hagvöxtur verði í kringum 3% á Íslandi á næstu árum – að öðru óbreyttu. Stundum meiri og stundum minni.
Svo má líka færa rök fyrir því að svigrúm til launahækkana sem samræmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5% á ári) sé það markmið að viðbættri framleiðniaukningu (sem til lengdar hefur verið um 1,7%). Samanlagt eru það rúmlega 4% á ári.
Eiga atvinnurekendur einir að njóta hagvaxtarins?
Ef ekki yrðu launahækkanir í slíku árferði þá myndi hagvöxturinn renna óskiptur til atvinnurekenda og fjárfesta einna – en ekki til vinnandi launafólks.
Tekjuhlutdeild ríkasta eina prósentsins myndi aukast. Aðrir stæðu í stað eða drægjust afturúr.
Fyrir slíku getur ekki verið neinn hljómgrunnur á Íslandi, ef fólk er upplýst um raunverulega stöðu mála.
Þessu til viðbótar geta aðilar vinnumarkaðarins einnig samið um breytta tekjuskiptingu og sett lægri launahópana í forgang. Slíkt er sérstaklega gagnlegt að gera þegar hægir á hagvexti og raunar einnig í kreppum. Það örvar hagvöxtinn.
Hátekjuhóparnir, stjórnendur á almennum vinnumarkaði og Kjararáðsþjóðin, hafa verið að gera það gott að undanförnu, eins og allir vita. Heldur betur.
Nú er komið að almennu launafólki og sérstaklega láglaunafólkinu.
Ef eigendur fyrirtækjanna vilja halda aftur af launahækkunum þá eiga þeir að beina slíku að hærri tekjuhópunum.
Stjórnvöld geta svo lagt félagslegum stöðugleika lið með því að breyta skattbyrði og velferðaraðgerðum lægri og milli tekjuhópum til hagsbóta – svo um munar.
Það er eðlilegt að félagslegur stöðugleiki kosti eitthvað, enda er hann mjög verðmætur fyrir þjóðarbúið.
Það má ekki gerast aftur að stjórnvöld grafi undan kjarasamningum (og félagslegum stöðugleika) með aukinni skattbyrði lágtekjufólk eins og gerðist í kjölfar kjarasamninganna 2015.
Svigrúm til kjarabóta er þannig klárlega fyrir hendi.
Það er mikilvægt að aðiljar vinnumarkaðar og stjórnvöld nái saman um að nýta það til að bæta kjör þeirra sem minna hafa.
---
Hér að neðan má sjá nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir Ísland til ársins 2023 og spá um hagvöxt á alþjóðavettvangi til samanburðar:
Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar Ójöfnuður á Íslandi – Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi, ásamt Arnaldi Sölva Kristjánssyni hagfræðingi.