Eitt af því sem sat í mér eftir heimsókn til Íslands í fyrra sumar var hve dýrt landið var orðið í samanburði við heimahaga í Washington ríki í Bandaríkjunum.
Allt var rándýrt og fólk sem maður hitti, og hafði ferðast til Íslands, minntist á þetta alveg sérstaklega. „Ferðin var frábær en verðlagið, guð minn góður,“ sagði einn pabbinn í skólanum.
Þetta er eflaust klisja í hugum einhverra þar sem mikið hefur verið rætt um verðlagið á Íslandi eftir mikla styrkingu krónunnar að undanförnu gagnvart helstu viðskiptamyntum.
En líklega eru flestir að átta sig á því að öllu svona gamni fylgi dauðans alvara. Eftir ævintýralegan uppgangstíma ferðaþjónustunnar, þar sem árlegur fjöldi erlendra ferðamanna fór úr 450 þúsund í 2,7 milljónir á einungis sjö árum (2010 til og meða 2017), þá er ekki við öðru að búast að einhvern tímann hægist á hjólum vaxtarins.
Svona hraður vöxtur getur ekki varað endalaust, einkum og sér í lagi í okkar litla mynthagkerfi.
Ef allt er eðlilegt...
Ef krónu-hagkerfið okkar litla virkar eins og það hefur gert í gegnum tíðina þá er einhver gengisfelling í kortunum, þó erfitt sé að segja til um það með einhverri nákvæmni. Margt getur haft áhrif á gengi krónunnar, eins og dæmin sanna.
Einn þeirra sem er sannfærður um að krónan og sjálfstætt myntkerfi Íslands - það minnsta í heiminum á eftir Seychelles eyjum - sé ekki það sem hentar okkur best, er Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra.
Í nýlegum pistli sem birtist á vef hans og í Morgunblaðinu, segir hann augljóst mál að gengisfall krónu sé í kortunum. „Hvað getur almenningur gert til þess að tryggja sig gegn þjófnaðinum næst þegar gengi krónunnar fellur? Því miður er það er bara eitt. Fyrir þá sem geta lagt eitthvað fyrir er skynsamlegt að færa hluta af sínum sparnaði í erlenda mynt. Eftir að síðasta ríkisstjórn losaði krónuna úr höftum mega allir kaupa gjaldeyri og stofna gjaldeyrisreikninga. Gengi krónunnar fellur fyrr eða síðar. Ríkisstjórnin hefur þegar misst verðbólguna fram yfir mörk Seðlabankans og lækkandi gengi er skrifað á vegginn. Munum að við tryggjum ekki eftirá,“ segir Benedikt meðal annars í pistlinum.
Sveiflur á gengi krónunnar hafa verið hluti af íslenskum veruleika alla tíð og hafa undanfarin ár ekki síst litast af þeim. Árið 2015 kostaði Bandaríkjadalur tæplega 140 krónur en á sumarmánuðum í fyrra var hann kominn í 97 krónur. Síðan gaf krónan eftir með haustinu, en styrktist svo aftur og var um 100 krónur. Í lok dags í dag, kostaði hann 109,32 krónur.
Hinn pólitíski veruleiki á Íslandi er sá, að þingmeirihluti er stöðugt fyrir því að halda í krónuna og breyta ekki kerfinu. Stjórnmálamenn sem ráða för vilja hafa þessar sveiflur og hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagt mikla áherslu á að krónan sé komin til að vera. Hann var reyndar með allt aðra skoðun á málunum fyrir áratug, þegar íslenska hagkerfið var á barmi hruns, en líklega hafa neyðarlögin og höftin breytt skoðun hans.
Höftin áhrifamikil
Það er sífellt að koma betur í ljós að fjármagnshöftin, sem sett voru á í nóvember 2008 til að koma í veg fyrir áframhald á stjórnlausu falli krónunnar, hafa markað íslenskt efnahagslíf á undanförnum árum.
Innan þeirra styrktist krónan mikið og hratt, enda var gjaldeyrisinnflæði til landsins frá ferðamönnum stöðugt og mikið. Á meðan sáu höftin til þess að staðan batnaði stöðugt og eignaverð bólgnaði út. Þeir sem vildu komast út fengu það ekki.
Höftin héldu líka verðbólgudraugnum í skefjum, en hann virðist nú aðeins farinn að láta sýna sig. Verðbólga er þó enn lág í sögulegu tilliti og mælist nú 2,7 prósent.
Augljóst er að höftin voru Íslandi afar mikilvæg og kannski áhrifameiri á Íslandi en við landsmenn gerðum okkur grein fyrir.
Það er hins vegar ástæða til að óttast það að stjórnmálamenn sem vilja engu breyta hafi ekki skynjað nægilega vel hversu miklir gallar geta fylgt örgjaldmiðlinum íslenska í alþjóðavæddum heimi. Haftabúskapur er ekki hluti af honum og á ekki að vera það, þó hann geti verið nauðsyn í neyð. Fátt bendir til annars en að krónunni fylgi höft, með einum eða öðrum hætti, þó sumir hagfræðingar eigi það til að halda öðru fram.
Kallað eftir hverju?
Forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar er nú tíðrætt um að samkeppnishæfni þjóðarbússins, einkum útflutningshliðarinnar, sé að versna. Þar er átt við að styrking krónunnar hafi sett háan verðmiða á vörur og þjónustu, mælt í alþjóðlegum myntum, og að hækkun launa samhliða hafi einnig þrýst samkeppnishæfninni niður.
Það er hafið hljóðlegt ákall eftir veikingu krónunnar frá þeim sem hafa hagsmuni af því og það er ekkert óeðlilegt. Leitin að nýjum jafnvægispunkti heldur áfram. Vonandi mun veikingin ekki koma neinum á óvart í þetta skiptið þó vandi sé að spá fyrir um nákvæmar tímasetningar.