Nýlega birti DV grein sem bar titilinn “Gústaf vill banna börn í Gleðigöngunni – „Ég hef aldrei haft neitt á móti samkynhneigðu fólki“”. Þeir sem vilja skoða færslu þá er greinin fjallar um geta það á vegg Gústafs, hún er opin öllum.
Greinin fjallar um mynd sem Gústaf deildi á fésbókarvegg sínum. Myndin er bandarískur Trump-áróður sem sakar skrautlega klædda einstaklinga í hinsegingöngum um hræsni fyrir að halda því fram að milljarðamæringurinn Trump sé í andlegu ójafnvægi. Gústaf sér þar kjörið tækifæri til að koma höggi á gleðigönguna í Reykjavík og spyr hvort “þessi mannskapur sé að fara að ganga í Reykjavík um helgina?”. Athugasemdirnar við færsluna virðast sammála um að þetta sé skaðlegt og Gústaf slær botninn í umræðuna með commentinu “Þessar göngur eru ekki í einrúmi og þetta ætti að vera bannað börnum.”. 72 like á þessa færslu og þónokkur comment þar sem vinir Gústafs segjast hrædd við gleðigönguna í Reykjavík. Sólin rís og gamalt fólk er með úreltar og skaðlegar skoðanir á Facebook. Hvers vegna var þetta fréttnæmt í augum ritstjórnar DV?
Árið 2015 skipaði Framsókn Gústaf í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar en dró þá skipun til baka degi síðar vegna harðra viðbragða almennings. Ári síðar ætlaði Gústaf fram í alþingiskosningum 2016 en ekkert varð úr því, kjördæmi Gústafs náði ekki að skila inn meðmælalista. Flokkur hans endaði með 0,2% fylgi í þessum kosningum. Í dag er hann helst þekktur sem bróðir Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Gústaf er ef til vill þekktur einstaklingur en hann myndi seint teljast vinsæll og þaðan af síður áhrifavaldur í samfélaginu. Ritstjórn DV gat samt ekki hamið sig um að birta þessa grein því hún er smellanleg; “Þekktur rugludallur með fáránlega skoðun” Flestir smella, hneykslast og deila, “Þessi rugludallur er að segja eitthvað rugl”. Umræða sprottin frá því að bróðir þingmannsins sem býr á Spáni deildi mynd um Trump og bætti því við að hann væri hræddur við fólk sem er ekki eins og hann. Þetta er ekki frétt, að birta þetta sem frétt er hættulegt. Svona sjónarmið eru blessunarlega á stórkostlegu undanhaldi, því skal ekki þó ekki tekið sem sjálfsögðum hlut.
Hermenn Guðs eru samt háværir og Gylfi Ægisson er líklega fremstur meðal jafningja á þessum tiltekna vígvelli. Gylfi var tónlistarmaður en í dag er hann þekktur fyrir hræðslu sína á körlum sem laðast ekki að konum og öfugt. Jón Valur Jensson er líka duglegur að láta okkur vita hvað hann er áhyggjufullur yfir sama hóp. Þessir menn eiga það samt allir sameiginlegt að vera ekkert nema það, trúðar sem fjölmiðlar veifa þegar þeim hentar. Þá rennur fullvita fólki blóðið til skyldunnar og leiðréttir trúðinn, þannig halda þessi forneskjulegu sjónarmið áfram að vera hluti af umræðunni án þess að þurfa þess. Vissulega deila einhverjir þessum skoðunum en sem betur fer eru þau í miklum minnihluta og eiga ekki flokk sem nokkur vill kannast við.
Ef Gylfi Ægisson, Gústaf og Jón Valur væru að halda fjölmenna fyrirlestra og safna gildum undirskriftum væri þetta kannski eitthvað til að fjalla um, en þetta eru bara nokkrir Facebook statusar. “3 Gamlir kallar enn þá með fáránlegar skoðanir á hlut sem þeir skilja ekki”. Orðræða þeirra er ljót, skaðleg, óvinsæl og á ekki heima í fjölmiðlum. Þessir menn hafa ekkert til málanna að leggja, þeir hafa enga sérþekkingu utan eigin trúar og þeir hafa ekki einu sinnifylgjendahóp sem nennir að skrifa undir fyrir þá. Að hlæja að þeim og hneykslast er auðvelt en það er óþarft og hættulegt.
Leyfum þessum köllum að æpa og deyja í friði.