Af hverju er mikilvægt að þekkja til og skilja kenningar um þróun? Jú, það er mikilvægt að skilja hvað það er sem skapar breytingar á færni og þekkingu.
Kenningar um þróun hafa breyst í gegnum tíðina.
Áður var þróun einstaklings skýrð með svokölluðum þroskakenningum. Í þeim var sagt að erfðir hefðu áhrif á þróun taugakerfis og þar af leiðandi á atferði okkar. Þroski væri því eitthvað sem er fyrirfram ákveðið og lítið hægt að gera með. Fyrirfram ákveðnar kenningar innan þróunarsálfræði eru lýsandi og gerðir eru skalar sem segja til um hvað barn á að geta á ólíkum aldri. Þroskakenningar voru ríkjandi innan þróunarsálfræði allt til ársins 1970, en þá komu fram efasemdir um gildi kenninganna meðal fræðimanna. Á þessum tíma fór umhverfinu að vera tileinkað stærra hlutverk í þróun einstaklingsins.
Í kringum 1970 kom Gilbert Gottlieb með sína kenningu sem kölluð var líkindabundin. Hann hafði sýnt með rannsóknum að áreiti frá umhverfi gæti haft áhrif á erfðir. Sem dæmi er þekkt að félagsleg samskipti og mismunandi birtuskilyrði geti haft áhrif á hormónastarfsemi líkamans og geti leitt til breytinga á DNA í frumukjarna.
Sem sagt þróun var ekki fyrirfram ákveðin heldur byggðist á líkindum. Í hans kenningu er talað um þróun einstaklinga sem samspil á milli starfsemi gena, starfsemi taugakerfis, atferlis og umhverfisáreitis. Fræðimaðurinn Connolly sagði að út frá þessum nýju kenningum væri erfitt að skilja á milli þróunar og náms. Hann sagði að engin þróun ætti sér stað án náms, það er að segja án þess að áreiti frá umhverfi væri til staðar. Fái einstaklingar ekki til að æfa sig í tiltekinni færni nær hún ekki að þróast og því má segja að án þjálfunar verði engar framfarir.
Ein af fyrstu kenningunum um þróun sem byggir á samspili erfða og umhverfis er kenning Ester Thelen „Dynamical Systems Approach“. Í hennar kenningu er talað á sömu nótum um þróun sem samspil þroska, vaxtar, náms og reynslu. Kenning Gottliebs um þróun sem samspil er sú kenning sem er mest viðurkennd innan þróunarsálfræði í dag.
Þannig að tala um lesþroska er þess vegna ekki rétt. Heldur ætti maður að segja lesþróun eða tala um lestrarfærni. Því að lestur er færni og sú færni þarfnast mikillar þjálfunar til að verða góð. Samspil erfða og umhverfis eða hæfileika (sem tengjast erfðum) og þjálfunar (sem tengist umhverfi) er mikilvægt. Það sama má segja um hreyfiþroska; þar ætti maður að segja hreyfiþróun og um málþroska málþróun. Fræðimenn með Thelen í fararbroddi hafa sýnt fram á að áreiti og þjálfun hafa áhrif á þróun hreyfifærni eins og að stjórna handahreyfingum, að skríða og að ganga. Okkar eigin rannsókn á ungabörnum (3 til 5 mánaða) í ungbarnasundi sýndu að börnin náðu ótrúlegum framförum á stuttum tíma með þjálfun 2 x 1 tíma í viku. Í sambandi við málþróun sýna rannsóknir klárlega mikilvægi þess að tala við börnin.
Höfundur er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi í Noregi og Háskólann í Reykjavík.