Í vikunni bárust fréttir af því að Origo, áður Nýherji, hefði undirritað samkomulag um einkaviðræður um sölu á þriðjungshlut í Tempo. Félagið vinnur að sölunni í samstarfi við AGC Partners, fjárfestingabanka í Boston.
Samkomulagið er við HPE Growth Capital, fjárfestingasjóð sem sérhæfir sig í fjárfestingum í ört vaxandi tæknifyrirtækjum. Líklega er veðmál HPE í þessum viðskiptum það, að Tempo geti vaxið enn meira og náð frekari árangri á alþjóðlegum mörkuðum. Þannig gæti verðmiðinn hækkað enn meira.
Hugbúnaðargeirinn er þekktur fyrir mikinn hraða og oft hafa framsýnir fjárfestar gert góð kaup í félögum, sem síðan taka risastökkið síðar meir.
Fyrir fjórum árum vann Kjarninn að gerð örþátta um nýsköpun í samstarfi við viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík, sem hefur síðan vaxið og dafnað. Meðal heimsókna sem við fórum í var til Tempo, innan veggja TM Software, sem þá var í örum vexti en samt með mörg einkenni fyrstu skrefa sprotafyrirtækja.
Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, sagði í viðtali við Kjarnann að vendipunkturinn í þróun Tempo - á árdögum þess - hafi verið hrunið. Þá hafi starfsmenn og stjórnendur þurft að horfa inn á við, bregðast við 40 prósent tekjusamdrætti og einblína á nýsköpun og eigin hugbúnaðargerð. Hugvitið var dregið fram sem vopn í erfiðri stöðu og á því skerpt eins og kostur var.
Undanfarin misseri hefur verið fátt um jákvæð tíðindi af íslensku hlutabréfamarkaði, þó grænar tölur einkenni hann á þessum degi. Á undanförnu ári hefur vísitala markaðarins lækkað um rúmlega 8 prósent, sem er með því allra mesta í alþjóðlegu samhengi.
En inn í þeim fyrirtækjum sem eru á skráðum markaði - alveg eins og annars staðar í atvinnulífinu - á sér oft stað spennandi og um margt fífldjörf nýsköpun, sem skilar miklum ávinningi fyrir íslenska hagkerfið til framtíðar litið.
Líklega sáu það ekki margir fyrir mitt inn í hruninu fyrir tæpum áratug, að Tempo yrði á skömmum tíma stór alþjóðlegur vinnustaður, á íslenskan mælikvarða, með milljarða verðmiða. En þannig er raunin nú, þökk sé þeim sem veðjuðu á hugvitið á ögurstundu.
Þegar vel tekst til þá sannast það svo um munar, að nýsköpunin lifir lengi. Hún leggur drögin að morgundeginum og framtíðinni. Vonandi verður dæmið um Tempo til þess að til nýsköpunar verði litið með enn meiri jákvæðni, ekki síst hjá skráðum félögum og í innra starfi fyrirtækja, sem er oft er hljóðlát og ósýnileg vinna.