Ef hástéttirnar fá að ráða nær öllu verða þær frekar og hygla sér sjálfum og kúga lágstéttirnar. Er það það sem fólk vill eða vill það sanngjarnara samfélag?
Nú um stundir á tiltölulega fámennur hópur stóran hluta aflaheimilda við Ísland og hefur efnast talsvert á alþjóðlegan mælikvarða (sem dæmi batnaði hagur (sem er eigið fé og arðgreiðslur) sjávarútvegsins um u.þ.b. 365 milljarða frá hruni til loka ársins 2016 sem er ríflega milljón á hvern Íslending). Þingmenn hækkuðu um 45% í launum nýverið sem er langtum meiri hækkun bæði í krónum talið og prósentum en talað er um að innistæða sé fyrir aðra í komandi kjarasamningum. Ríkisforstjórarnir hækkuðu líka talsvert – hvernig ætli skúringakonunni líði, sem borgar sína skatta, þegar hún sér þær upphæðir sem um ræðir hjá fólki sem hún er n.b. með í vinnu? Húsaleiga hefur líka hækkað ofboðslega mikið á fáum árum að hluta til með tilkomu almennu leigufélaganna og svo virðist sem þeim haldi engin bönd. Skattbyrði þeirra tekjulægstu hefur aukist undanfarna tvo áratugi en þeir sem eiga peninga og eru með fjármagnstekjur borga lága prósentu í fjármagnstekjuskatt (samanborið við tekjuskatt). Nú skilst mér að ójöfnuður sé mun meiri þegar horft er til eigna en tekna, en hér hefur auðlegðarskattur einnig verið aflagður og svo skilst mér að það sé löglegt að eiga reikninga í skattaskjólum (þó svo það sé að sjálfsögðu bannað að svíkja undan skatti).
Hér ekki verið að mælast til að hækka laun allra um 100% eða eitthvað álíka heldur að skipta kökunni með sanngjarnari hætti því öll störf eru mikilvæg, en auk þess er verið að mælast til verkalýðsfélög, almenningur og dugandi þingmenn dragi línu í sandinn og sporni við frekju og kúgun hástéttanna svo það megi verða sanngjarnara samfélag. Einnig finnst mér sárvanta að lágstéttirnar hafi sína rödd og talsmenn á þingi, þar eru nógu margir sem gæta hagsmuna þeirra ríkustu og svo er ég efins um að einhver óskólagenginn þingmaður (eftir skólaskyldu) sé á þingi – eru þingmenn ekki flestir langskólagengnir (og gætu þar af leiðandi hugsanlega hugsað meira um hagsmuni annarra langskólagenginna)? En ég tel að heimurinn væri mun betri ef þeir lægst settu hefðu meiri völd, a.m.k. treysti ég mun betur samverkamönnum mínum á kaffistofunni í vinnunni til að taka ákvarðanir en flestum þeim sem eru á þingi.
Fólk hefur auk þess ekki gott af því að eiga alltof mikið af peningum, þá fer það bara að borða gull – sem engin næring er í og haga sér eins og vitleysingar – eins og þau gerðu fyrir hrun. En það vilja allir lifa mannsæmandi lífi (vonandi án mikilla öfga) og að því ætti að stefna.
Hér er auk þess nokkuð sem mér datt í hug og gæti komið að gagni, hver veit.