Ég er oft spurð hvernig standi á því að notaðar séu mismunandi aðferðir við að finna og meta umfang rakaskemmda í húsnæði. Hvernig það megi vera að á meðan einn aðili meti ástand húsnæðis fullnægjandi, geri annar alvarlegar athugasemdir við ástand þess.
Í mörgum tilfellum er ráðgjöfin einnig ekki sú sama eftir að rakavandamál hefur fengist staðfest og jafnvel að ráðgjöf sé mismunandi með tilliti til hagsmunaaðila hverju sinni.
Hvað liggur að baki rakamælinga og mati á umfangi rakaskemmda í húsnæði ? Hvað þarf sá sem kaupir þjónustuna að hafa í huga?
Sértæk þekking og reynsla við mælingar og mat rakaskemmda og myglu í húsnæði hefur hingað til verið takmörkuð hérlendis. Það eitt og sér skýrir mögulega það misræmi sem orðið getur við mat á umfangi rakaskemmda og einnig haft áhrif á þá ráðgjöf sem gjarnan er mælt með í kjölfarið.
Mikilvægt er að leitað sé ráðgjafar hjá viðurkenndum aðilum sem sannarlega hafa sérstæka þekkingu og reynslu til að greina rakavandamál í húsnæði. Því miður er staðan ennþá þannig hérlendis að ekki eru gerðar nægar kröfur til matsaðila og því getur næstum hver sem er gefið sig út fyrir að vera sérfræðingur þegar kemur að því að mæla og staðfesta rakaskemmdir og myglu í húsnæði.
Það er mikilvægt að húseigendur séu með það á hreinu strax í byrjun hvaða upplýsinga skoðun er ætlað að afla og hvað gera á með niðurstöðurnar.
Tilgangur, markmið eða rannsóknarspurning strax í byrjun ræður þarna ýmsu varðandi útkomuna:
Eru veikindi eða einkenni mögulega tengd viðveru í húsnæði?
Er þörf á mati á ástandi með tilliti til raka eða leka, heildarúttekt eða staðbundinni skoðun?
Eru lekar þekktir en orsakir óþekktar? (greining á rakavandamáli)
Er óskað eftir ráðgjöf sem snýr að því að bæta loftgæði, hvernig bregðast megi við rakaskemmdum innandyra, viðeigandi viðgerðum og hreinsun?
Óskar eigandi eftir tillögum til úrbóta vegna loftgæða og innivistar, ekki bara rakaskemmda?
Er óskað eftir ráðgjöf varðandi viðhald, næstu skref, útfærslu viðgerða og fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að auka verðmæti byggingar?
Er óskað eftir byggingareðlisfræðilegri úttekt eða rýni vegna mögulegra vandamála sem tengjast rakaþéttingu í húsnæði, loftleka eða efnisvali?
Tilgangur og markmið úttektar getur þannig verið mismunandi hjá eiganda eða forráðamanni húsnæðisins og reyndur og vandvirkur skoðunarmaður reynir að samræma þessa þætti eins og við á í hverju tilfelli. Endamarkmiðið í öllum tilfellum er það sama, þ.e. að meta og bæta rakaástand og loftgæði í húsnæði.
Nauðsynlegt er að taka fram að engin ein leið eða ein ákveðin aðferð er til, til þess að meta loftgæði, rakaskemmdir eða myglu. Engin stök mæling eða gróft mat gefur slíkar upplýsingar.
Hvað er það nákvæmlega sem þarf að mæla, skoða og ráðleggja ?
Sterk tengsl eru á milli viðveru í rakaskemmdu húsnæði og ýmissa einkenna en þó hefur enn ekki tekist að finna beint orsakasamhengi einstakra þátta sem hægt er að mæla í byggingum við heilsu nema í tilfelli asthma. Rannsóknir eiga eftir að færa okkur upplýsingar í náinni framtíð en tilvist geislabaktería og myglueiturefna spilar mögulega hlutverk svo eitthvað sé nefnt. Því er ekki ljóst á þessum tímapunkti hvað nákvæmlega þarf að mæla til þess að hægt sé að gera áhættumat vegna heilsukvilla og gerir það verkefnið að enn stærri áskorun. Sterkustu tengslin við ýmis heilsufarseinkenni koma fram við mat á lykt og rakaskemmdum.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) þá er raki í byggingum og mygla áhættuþáttur fyrir heilsu og í lýðheilsulegu tilliti þurfi að grípa til aðgerða til að uppræta raka og fjarlægja rakaskemmd byggingarefni. Þeim leiðarvísum ætti að fylgja.
Einnig er vert að taka fram að sérhæfðri kennslu í þessum fræðum er enn sem komið er, ábótavant hérlendis, og því ekkert óeðlilegt að þessi þekking sé enn ekki almennt til staðar.
Skoða þarf húsnæði í samhengi við uppbyggingu þess, hönnun, notkun, íbúa/starfsfólk, hegðun, fyrri sögu og viðhaldsferli.
Hvaða aðferðir eru notaðar við mat á húsnæði og hvaða upplýsingar gefa þær:
Sjónræn skoðun og mat
Rakamælingar
Mælingar, rannsóknir og sýnataka
Aðrir þættir, loftræsing, útgufun efna, þrif og efnisval
Sjónræn skoðun á byggingu og umhverfi
Kostir:
Reynslumikill skoðunarmaður sem þekkir vel til uppbyggingar, grundvallar byggingareðlisfræði, mögulegs rakaflæðis og áhættusvæða, getur, vopnaður góðu vasaljósi og þefskyni, gefið húseiganda góðar upplýsingar um rakavandamál og áhættusvæði.
Sem dæmi um upplýsingar sem hægt er að fá við sjónrænt mat má nefna:
Ástand utanhúss (klæðning, múr, málning), viðhaldsþörf utanhúss, staðsetning drenlagna eða þakrenna, rakaummerki í málningu eða á gólfefnum, rakatauma á málningu, byggingarefni og ástand þeirra, uppbygging og frágangur á rakasvæðum, frágangur við glugga, hurðir og í votrýmum.
Lykt sem einkennir rakaskemmdir gefur einnig hugmynd um ástand.
Uppbygging á þaki, útveggjum og almennur frágangur er stundum sjáanlegur án þess að opna þurfi inn í byggingarhluta.
Skoðun á teikningum getur gefið glögga mynd af áhættusvæðum og mögulegum lekaleiðum, loftlekum eða göllum í hönnun eða frágangi. Til þess að meta mögulega skert loftgæði vegna þessara þátta, þarf skoðunarmaður meðal annars að hafa reynslu og þekkingu til þess að meta hvort að áhætta sé aukin vegna efnisvals, uppbyggingar eða loftlekaleiða.
Taka þarf tillit til legu húsnæðis í landslagi, grunnvatnsstöðu, berg- og jarðvegsgerð, staðsetningu í fjölbýli, landfræðilega legu og staðsetningu.
Takmarkanir:
Reynsla og þekking skoðunarmanns á rakaskemmdum getur verið takmarkandi þáttur. Það er ekki sjálfgefið að fagaðili í byggingariðnaði eða matsmaður þekki til þessara fræða.
Sjónræn skoðun ein og sér getur ekki metið áhættu vegna loftgæða og innivistar enda eru rakaskemmdir og mygla í flestum tilfellum falið innan í veggjum, undir gólfefnum eða í þakrýmum, þrátt fyrir að engar vísbendingar séu til staðar við skoðun. Eldri rakaskemmdir og lekar koma ekki fram við sjónræna skoðun og útgufun efna er heldur ekki metin sjónrænt.
Í mörgum tilfellum þarf að opna inn í byggingarhluta til þess að staðfesta vandamál eða umfang. Þá nýtir skoðunarmaður jafnan þær upplýsingar og reynslu sem liggja fyrir eftir sjónrænt mat, skoðun á teikningum og rakamælingu.
Sjónrænt mat á byggingarefnum gefur ekki endilega góða mynd af raka í byggingarefnum. Múr, ílögn eða önnur byggingarefni geta virst þurr við sjónrænt mat en við mælingar getur vatnsvirkni þeirra reynst nægileg til vaxtar rakasækinna örvera og aukinnar útgufunar efna.
Saga byggingar, notkun og líðan notenda
Kostir:
Saga um eldri leka og vatnstjón koma alltaf að gagni. Eldri rakaskemmdir eru taldar vera varasamar í lýðheilsulegu tilliti eins og virkir lekar þar sem er bleyta. Þess vegna er afar hjálplegt ef fyrir liggja upplýsingar um aðgerðir og viðbrögð við fyrri tjónum og lekum. Viðgerðir innandyra eru oft takmarkaðar og nægja gjarnan ekki til að bæta loftgæði og því eru upplýsingar um aðgerðir og umfang hjálplegar.
Mikill kostur er ef nákvæm viðhaldssaga byggingar liggur fyrir og kemur að miklu gagni við frekari rannsóknir og ráðgjöf.
Upplýsingar um notkun á húsnæði, rakaálag og hegðun notenda getur gefið vísbendingar um ástand húsnæðis.
Líðan og ástand notenda í húsnæði gefur góðar vísbendingar um innivist og þá eru gjarnan lagðir fyrir notendur viðurkenndir spurningalistar, þar sem aðrir truflandi þættir eins og félagslegt umhverfi eru teknir til skoðunar þegar niðurstöður eru túlkaðar. Einkenni íbúa og notenda gefa þó oft raunsanna mynd af ástandinu, sérstaklega ef einkenni eru viðvarandi eða langvinn en minnka þegar húsnæði er yfirgefið.
Takmarkanir:
Upplýsingar um leka og tjón eru oft takmarkaðar og óljósar. Stundum er erfitt að nálgast upplýsingar hjá tryggingafélögum og fyrri eigendum og oft á tíðum man fólk ekki nákvæmlega hvernig var staðið að verki eða hvað var gert við.
Viðhaldssaga er ekki skrásett og myndir af framkvæmdum liggja ekki fyrir, né verkferlar eða skipulag verkefna.
Upplýsingar um notkun frá þeim sem dvelja í húsnæði eru oft á tíðum bjagaðar og mismunandi á milli einstaklinga. Heppilegast er að setja inn sírita til þess að fylgjast með loftraka, hita og loftskiptum þannig að hægt sé að átta sig frekar á notkun og hegðun notenda húsnæðisins.
Notkun og rakaálag í byggingum gæti hafa verið breytilegt frá því að húsið var byggt og stundum eru eingöngu takmarkaðar upplýsingar til staðar. Teikningar á eldri húsum eru oft ekki í samræmi við raunverulega uppbyggingu eða herbergjaskipan.
Hér hefur verið farið yfir þá þætti við skoðun sem getur verið gott að vita fyrir þann sem óskar eftir mati á húsnæði.
Í næsta pistli verður farið nánar yfir rakamælingar og sýnatöku, kosti og takmarkanir sem vert er að hafa í huga.