Síðastliðin átta ár hef ég notað ReykjavíkurAkademíuna til að sitja þar og skrifa – bæði eigin texta og texta sem aðrir panta en einnig til að halda ritlistarnámskeið fyrir almenning. Í þrjátíu ár hef ég kennt fólki að skrifa sögur, endurminningar og greinar um skoðanir sínar og að fenginni þessari reynslu fæ ég ekki betur séð en að öll skrif fjalli fyrst og fremst um tilfinningar.
Ég valdi þessu örerindi heitið AÐ BIRTA EÐA BRENNA af því að ég hitti um daginn hóp sem ég kenndi einu sinni endurminningaskrif og hefur síðan haldið áfram að hittast og skrifa. Einn úr hópnum sagði við mig:
Þú lagði alltaf svo mikla áherslu á að við brenndum skrif okkar í stað þess að birta þau!
Þessi orð komu mér í opna skjöldu. Ég kannaðist ekkert við þessa meintu kennslufræðilegu nálgun mína – þótt vissulega taki ég fram á öllum ritlistarnámskeiðum að það sé ekki nauðsynlegt að birta allt sem skrifað er, að það geti verið ákaflega heilandi ritúal að brenna það sem skrifað hefur verið.
Hvað má skrifa um aðra?
Kveikjan að orðum mínum hér í dag er þó umræða sem varð á öðru endurminninganámskeiði. Við vorum að ræða um það séríslenska bókmenntaform minningagreinar – en sá sem skrifar minningagrein er í raun að birta eigin útgáfu af lífi látinnar manneskju. Á námskeiðinu var kona sem viðraði þá skoðun að henni fyndist það óvirðing við þann látna að birta einhverja samsuðu um hann í blaði allra landsmanna. Seinna sagði ég stjórnsýslufræðingi frá orðum konunnar og honum fannst þau áhugaverð – af persónuverndarsjónarmiðum. Sjálf upplifi ég hins vegar æ sterkar eftir því sem ég skrifa meira, tek fleiri viðtöl og kenni fleirum ritlist hvað réttur okkar til að fjalla um annað fólk er í raun mikill – og á að vera það. Nú er ég ekki að fjalla um gula pressu og papparassa heldur bara að tala um hvernig venjulegt fólk og heiðvirðir höfundar fjalla um annað fólk í skrifum sínum.
Mér finnst annað fólk eiga fullan rétt á að skrifa eigin útgáfu af mér. Það finnst mér vegna þess að ég er ekki eingöngu sú manneskja sem þið hafið frammi fyrir ykkur hér og nú. Þar sem ég stend á þessu augnabliki er ég samnefnari allra þeirra persóna sem ég hef verið, allra þeirra söguhetja sem ég hef leikið á löngu ferðalagi um lífið. Ég er allt sem ég hef sagt, gert og hugsað. Ég er allar þær svipmyndir af mér sem lifa í hugum ykkar hinna.
Um daginn hitti ég konu sem sagði að ég væri draumakonan hennar. Þegar mikið liggur við birtist ég henni í draumi. Mér brá við tíðindin og fannst óþægilegt að vita af mér eftirlitslausri í draumum fólks úti í bæ, mér fannst óþægilegt að einhver minnist mín fyrir eitthvað sem ég er sjálf ómeðvituð um. En get ég bannað konunni að dreyma mig? Get ég látið setja lögbann á drauma hennar af persónuverndarástæðum? Nei, ég verð að sætta mig við þær ótal útgáfur sem til eru af mér í hugum annarra. Ég verð að sætta mig við að þið kjósið að kveðja mig með uppgjöri í Morgunblaðinu sem ég fæ ekki einu sinni að lesa yfir fyrir birtingu enda ekki lengur á meðal ykkar.
Lifuð reynsla í skrifuðum texta
Oft er rætt á námskeiðum mínum í skapandi skrifum hvort hægt sé að setja saman texta sem hittir engan fyrir – hvort gerilsneyða megi texta af reynslu og tilfinningum höfundar en skapa persónur sem lifa utan og ofan við veruleikann. Fólk kemst iðulega að því hversu erfitt það er að sía lifaða reynslu frá skrifuðum texta – og hversu fráleitt væri að gera það af því að skáldskapurinn botnar alltaf í lífinu sjálfu.
Fólk vill lesa bækur sem standa lífi þess nærri og því þarf að skrifa bækur þar sem skáldaður veruleiki speglar þann lifaða. Jafnvel þótt þú veldir skáldverki þínu stað og stund í fjarlægri álfu fyrr á tímum myndu ættingjar þínir þekkja sig í persónusköpuninni af því að aðgangsorðið að því sammannlega er eigin reynsla.
Ég er heppin að fá að dvelja í hugum alls þessa skrifandi fólk og heyra sögur þess í formi bókmennta, endurminninga og rökfærslugreina. Á námskeiðunum er mikið talað enda fjalla ritlistarnámskeið um að spegla og vera speglaður. En hvert námskeiðanna heldur þú að veki flestar tilfinningar? Rangt! Það er hvorki skáldskapurinn né endurminningarnar heldur rökfærsluskrifin, greinaskrifin.
Það gerist eitthvað innan í fólki þegar það áttar sig á því að til að skrifa litla, snyrtilega grein þarf það að horfast í augu við sjálft sig, þegar það áttar sig á því hvað skoðanir eru samofnar lífi, reynslu og tilfinningum. Það gerast undur þegar fólk getur viðrað skoðanir sínar í vernduðu umhverfi og upplifað hvernig annað fólk bregst við þeim og bregður á þær nýju ljósi. Þegar ég í lok námskeiðs fer yfir birtingarmöguleikana nefni ég að sjálfsögðu að svo megi líka bara brenna skrif sín, að stundum nægi að skrifa og þurfi ekki að birta.
Mér hefur meira að segja dottið í hug að leggja það til að við söfnuðumst öll saman, til dæmis vikulega á Austurvelli, og legðum saman eld að ólíkum skoðunum okkar. Ég sting upp á að í stað þess að rífast á samfélagsmiðlum tökum við þátt í þeirri heilandi athöfn að horfa á skoðanir okkar og tilfinningar umbreytast og verða allar að sömu öskunni.