Þegar ég hætti á Alþingi átti ég margt ógert. Þar á meðal er mál sem ég var ákveðin í að taka föstum tökum og var byrjuð að undirbúa. Það snérist um að endurvekja þingsályktunartillögu sem var lögð fram á 145. löggjafarþingi 2015-2016: Tillaga til þingsályktunar um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar.
Heimildarmyndin „Ástandið“, eftir Ölmu Ómarsdóttur, vakti fólk heldur betur til umhugsunar yfir þessum bletti á Íslandssögunni árið 2015. Sjálf var ég heltekin og mjög sorgbitin. Sem kona af erlendum uppruna hafði ég auðvitað orðið vör við málið í bókmenntum og heyrt fordómafullt pískur um „Kanamellur“ en gerði mér ekki grein fyrir því sem raunverulega hafði gengið á. Umræða í kjölfar myndar Ölmu var góð, en því miður allt of stutt.
Haustið 2017 fann ég að það kraumaði eitthvað undir í samfélaginu og ætlaði að opna umræðuna að nýju. Ég vildi beyta rödd minni og stöðu til að styðja við þær konur sem urðu fyrir barðinu á yfrivöldum og fá þingið til að axla ábyrgð. Ég fékk hinsvegar ekki tækifæri til þess, enda gusaðist ólgan upp, konur stigu fram, höfðu hátt og uppreist æra barnaníðings sprengdi ríkisstjórnina. Í kjölfarið kom svo #metoo-byltingin.
Þó umræðan um stöðu kvenna og kynbundið ofbeldi hafi verið frábær að undanförnu, sakna ég frekari umræðu um ástandið. Konur voru beittar gríðarlegum mannréttindabrotum og öryggi þeirra var ógnað svo um munar. Þær gátu ekki leitað sér aðstoðar, enda treystu þær ekki kerfinu eða samfélaginu. Ástandið var af námkvæmlega sama meiði og annað ofbeldi gagnvart konum, byggt á mótsögninni um siðprúðar konur sem þó eiga að þjóna körlum. Vera sexý en ekki druslur. Og svo áttu þær að skammast sín, bæði fyrir eigin hegðan en líka meðferð samfélagsins á þeim. Allt átti þetta að vera leyndarmál sem þær máttu einar bera. Í þögn.
Ég ímynda mér að það hafi verið heilmikið mál fyrir litla og einangraða þjóð að ganga í gegum þær miklu breytingar sem fylgdu erlendu herliðunum. Sér í lagi þegar það hafði í för með sér aukið kynfrelsi kvenna, að þær gætu sjálfar valið sér elskhuga og það jafnvel af erlendum uppruna. Það var of mikið fyrir feðraveldið. Yfirvöld gripu til aðgerða og beinna refsinga eins og yfirvöld hafa gert um heim allan þegar konur krefjast frelsis og sjálfstæðis. Þessar aðgerðir höfðu afleiðingar sem enn eimir af, enda ríkir lítið traust milli kvenna og yfirvalda. Aðgerðirnar einkenndust af sömu kvenfyrirlitningunni og ofbeldið áreitnin sem #metoo greindi frá. Virðingarleysi gagnvart frelsi kvenna og konum almennt. Þær konur sem lifðu af áreitni og ofbeldi ástandsáranna eiga rétt á viðurkenningu, afsökunarbeiðni og réttlæti.
Ég er kona af erlendum uppruna og leiddi okkar raddir í #metoo-byltingunni. Ég gerði það af því ég elska Ísland og er stolt af því að vera íslenskur ríkisborgari. Við eigum mikilvæg gildi sem samfélag og við megum vera stolt. Dóttir mín er Garðarsdóttir og dóttir Íslands. Ég vil að hún geti líka verið stolt af sínum bakgrunni og þeim gildum sem hún hefur fengið að alast upp með sem Íslendingur. En til þess er mikilvægt að horfast í augu við fortíðina, breyta og lagfæra og horfa til bjartari framtíðar. Af öllum þeim samtölum sem ég hef átt við konur um jafnrétti, kynferðislega áreitni og ofbeldi, eru sögur eldri kvenna þær allra erfiðustu, sérstaklega sögur kvenna af ástandskynslóðinni. Þær lýsa óþægindum, eftirsjá og skömm. Það er eðlilegt í ljósi sögunnar og þess sem þær hafa upplifað. Skömm var sett á herðar ungu stúlknanna sem oft voru beittar kynferðislegu ofbeldi og svo kerfisbundnu ofbeldi og mismunun í kjölfarið.
Þess vegna tala ég nú til þingfólksins okkar, þingmanna og -kvenna sem hafa verið hve duglegust að ræða kynferðislega áreitni og ofbeldi í þingsalnum. Ég bið ykkur um að klára það sem ég náði ekki að klára og beita ykkur fyrir farsælum endi á þessum svarta bletti á sögu okkar. Ef Bjarni Benediktsson var tilbúinn til að baka kökur og vera í forsvari „he for she“ og ef Katrín Jakobsdóttiir hefur ráðið sérstakan ráðgjafa til að leiða stýrihóp um heildstæðar úrbætur varðandi kynferðisleg ofbeldi, þá hljóta þau að vera líka tilbúin til að takast á við fortíðina. Fortíðina sem átti sinn þátt í því þeirri stöðu sem við erum í í dag. Ofbeldislaust samfélag þar sem jafnrétti og réttmæti ríkir hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra.