Fyrir nokkrum dögum síðan fór ég í skemmtilegt brúðkaup. Hallgrímur Helgason rithöfundur flutti þar glæsilega ræðu fyrir brúðhjónin og benti á að meðal brúðkaupsgesta væru tvær Katrínar, önnur sem vildi nýja stjórnarskrá og hin sem stæði í vegi fyrir henni. Allir hlógu að brandaranum, líka Katrínarnar tvær: Oddsdóttir (mannréttindalögfræðingur) og Jakobsdóttir (forsætisráðherra).
Guðmundur Andri Thorsson var líka gestur í þessu góða brúðkaupi en fyrr um daginn hafði ég flogið heim frá Akureyri þar sem við fjögur höfðum mætt á ráðstefnu tileinkaða mikilvægi samræðu í samfélaginu; K. Jakobsdóttir, Guðmundur Andri, Hallgrímur og undirrituð. En svo, strax eftir þessa líflegu helgi, ætlaði ég að mæla mér mót við K. Oddsdóttur. Hún stakk upp á því að ég myndi koma niður á Austurvöll þar sem Stjórnarskrárfélagið ætlaði að vera með þöglan gjörning við þingsetninguna, til stæði að standa þar með hvít spjöld skreytt tilvitnunum úr nýju stjórnarskránni.
Þegar ég mótmælti óvart innflytjendum
Ég sló til og mætti þangað í mildu veðri, fór strax að spjalla við mann og annan og hallaði mér upp að varnargirðingunni í skærappelsínugulri peysu innan um öll hvítu spjöldin. Þannig var ég nokkuð áberandi þegar dyrnar opnuðust og út gengu K. Jakobsdóttir og Guðmundur Andri Thorsson ásamt fleiri þingmönnum og ráðherrum. Í sömu mund treðst miðaldra kona í skærbleikri úlpu á milli mín og næstu manneskju í þögla gjörningnum og byrjar að öskra: Helvítin ykkar, að hleypa innflytjendum inn í landið okkar. Burt með alla innflytjendur! Við eigum Ísland!
Sökum djarfs litavals í klæðaburði skárum við okkur óneitanlega úr, inn á milli hvítra spjalda, ég og þessi kona. Eins og mættar þarna tvær saman í litríkum, háværum gjörningi – sem var á góðri leið með að rústa hinum hvíta, þögla gjörningi Stjórnarskrárfélagsins. Sjaldan hef ég fyllst eins djúpri augnabliksþröf fyrir að setja tjáningarfrelsi hins almenna borgara grjótharðar skorður. Einhver ódámur kallaði: Katrín Jakobsdóttir, þín bíður skelfileg hefnd!
Guð minn góður, hugsaði ég, þau halda að ég hafi hellt svona hressilega í mig í brúðkaupinu að það hafi ekki runnið af mér síðan og ég sé ennþá full á Austurvelli að mótmæla innflytjendum. Og hóta fólki einhverju skelfilegu …
Isabel Allende útsendari Kjarnans
En! Ef ég hefði klifrað yfir varnargirðinguna og hlaupið til þeirra og kallað: Ég styð ennþá siðmenntaða samræðu! Ég er ekki með þessari konu í bleiku úlpunni heldur K. Oddsdóttur í afar smekklegum og mikilvægum gjörningi! – þá er hætt við að einhver af þessum vígalegu lögreglumönnum þarna hefðu hent sér á mig og keyrt andlitið á mér ofan í malbikið svo blóðsletturnar hefðu gusast yfir Guðmund Andra og K. Jakobsdóttur.
Og í því liggur skringileikinn. Fáránleikinn! Klástrófópísk smæð kunningjasamfélagsins andspænis alþjóðavæðingu óttans. Þarna virtust vera fleiri lögreglur og Víkingasveitarhermenn en þingmenn, mótmælendur og blaðamenn samanlagðir.
Raunar voru bara örfáir mótmælendur þarna: Nokkrir skiljanlega reiðir vinir Hauks Hilmarssonar sem sagt er að tyrkneski herinn hafi myrt í Sýrlandi, við í þögla stjórnarskrárgjörningnum og svo þessi æpandi bleika útlendingahatandi kona sem minnti mig á margþvælda ímynd portkonu í einhverju fjarlægu Austantjalds-landi. Jú, og einhver vinkona hennar.
Fleiri en einn höfðu á orði að kannski hefði borist sprengjuhótun. Annað meikaði ekki sens – með allar þessar löggur þarna. Ég horfði á vinkonu mína, blaðamann á Kjarnanum, hinum megin við grindverkið sem skildi mig frá henni og þessari furðulegu skrúðgöngu milli Alþingis og Dómkirkjunnar sem engum virtist líða þægilega í. Eitt augnablik fannst mér hún vera Isabel Allende með ljósmyndavél um hálsinn að mynda eitthvað hættulegt á tímum herforingjastjórnarinnar í Chile. Hún var jú í skósíðu pilsi með hrafnsvart hárið slegið og svolítið á ská við vígalega Víkingasveitina þarna við hlið hennar.
Gamalgróið (og gamaldags) kunningjasamfélag
Allt í einu heyrði ég fliss fyrir aftan mig. Þar höfðu skotið upp kollinum tveir þingmenn Pírata, Halldóra Mogensen og Smári McCarthy, sem höfðu frekar valið að fara í athöfn Siðmenntar og stóðu því okkar megin varnargirðingarinnar, þessa sýnishorns af almenningi sem stóð þarna eins og á bjargbrún nýrra tíma. Annar Píratinn (Halldóra) vafði sér sígarettu og brá sér afsíðis til að reykja hana meðan hinn fylgdist með mannlífinu. Það var eitthvað þægilega eðlilegt – mér liggur við að segja nútímalegt – við þau. Samt, allt þarna var eins og skrýtinn draumur, ef ekki beinlínis sýrutripp, svo ég sagði við K. Oddsdóttur að ég þyrfti aðeins að bregða mér frá og hengslaðist ringluð yfir á Kaffi París þar sem ég fékk mér förukaffi og gulrótarköku og tróð henni upp í mig í sjálfsefjunarkasti meðan hin kláruðu þögla gjörninginn.
Það var eitthvað svo erkiíslenskt við þetta allt saman – og um leið alls ekki. Eitthvað svo breytt lá í loftinu. Bæði ákall um breytingar og um leið þessi birtingarmynd breyttra tíma: vígaleg lögreglan. Tíma sem brjótast um í svo hröðum umskiptum að við verðum að hafa okkur öll við að hugsa. Já, við þurfum að pæla í stjórnarskránni. Við þurfum að pæla í svo mörgu. Líka siðvenjunum sem eitt sinn voru hátíðlegar en hafa í umbreytingum tímans smám saman orðið skringilegar. Eða! Kannski var þetta, eftir allt saman, bara draumur.
Eða martröð.
Hvað ef röddum eins og konunnar í skærbleiku úlpunni fjölgar enn frekar? Hvað ef það verða fleiri brynvarðir Víkingasveitarmenn við næstu þingsetningu? Hvað ef gamalgróið kunningjasamfélagið heldur allri uppbyggilegri gagnrýni í greipum sér þangað til það er orðið ógjörningur að breyta því sem breyta þarf? Hvað ef stigvaxandi hraðinn umbreytir samræðu samfélagsins í hvella skræki svo allt hljómar eins og hljómplata á yfirsnúningi? Ég veit ekki. Ég lifi í draumi og í honum er falin martröð en líka dísæt gulrótarkaka.