Bloomberg greindi frá því gær að Amazon væri nú með uppi áform um að opna allt að 3 þúsund verslanir sem byggja á sjálfsafgreiðslutækni fyrirtækisins, sem það hefur þróað undanfarin ár. Ein verslun hefur verið opin fyrir starfsfólki Amazon í næstum þrjú ár, á höfuðstöðvasvæði fyrirtækisins í Seattle, en hún var opnuð fyrir almenningi í lok árs 2016.
Verslunin heitir Amazon Go. Viðskiptavinir ganga inn í búðina, skrá sig inn með Appi í síma, finna vörur og ganga síðan út. Engir búðarkassar og engar raðir.
Þúsundir staðsetninga
Frétt Bloomberg var ekki ný af nálinni fyrir þá sem hafa fylgst vel með þessum áformum Amazon. Fyrir rúmlega tveimur árum greindi Wall Street Journal frá því að Amazon hefði með leynilegum hætti tryggt sér meira en 2 þúsund staðsetningar fyrir verslanir í borgum í Bandaríkjunum, þar sem Amazon Go tæknin yrði grunnurinn að versluninni.
Amazon neitaði að staðfesta fréttina og sendi frá sér yfirlýsingu um að áformin væru ekki uppi á borðum. Fyrir skráð félag geta svona stórtæk áform verið stórmál vitaskuld. Í ágúst í fyrra steig Amazon stórt skref inn á hefðbundinn verslanamarkað með kaupum á Whole Foods upp á 13,7 milljarða Bandaríkjadala. Whole Foods er með um 500 verslanir, á verðmætum stöðum, og hefur auk þess innleitt gæðastaðlakerfi sem þykir með því áreiðanlegasta og besta sem völ er á.
Fyrir alla þá sem hafa farið í Amazon Go verslun fyrirtækisins þá blasir við að tæknin kúvendir smásöluverslun eins og við þekkjum hana. Það er upplifun að ganga inn og út, og fá svo strimilinn sendan í símann, sem sýnir meðal annars hvað viðskiptavinurinn var lengi inn í versluninni upp á sekúndu.
Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af því að tæknin muni eyða mörg hundruð þúsund störfum í smásölu í Bandaríkjunum og líklega milljónum á heimsvísu í framtíðinni. En það er fleira sem hangir á spýtunni og ekki ólíklegt að önnur störf komi í staðinn.
Þegar strikamerkin komu fram í verslun var mikil umræða um svipaða hluti. Störfin myndu fara og verslunin verða ópersónulegri og upplifun viðskiptavina verri. Þetta má til sanns vegar færa en enginn efast um að strikamerkin - sem þeir Bónusfeðgar Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson leiddu fyrst fram hér á landi - hafa gert verslun hagkvæmari og stuðlað að lægra verði. Önnur störf hafa sprottið upp í stað þeirra sem hagkvæmnin ruddi úr vegi.
Helsti ávinningurinn er líka meiri yfirsýn í rekstri sem auðveldar hina endalausu leit að jafnvægi á milli innkaupa og síðan sölu til viðskiptavina.
Mikil afleidd áhrif
Tæknin hjá Amazon byggir á myndavéla- og skynjarabúnaði í lofti verslana sem fylgist með og nemur það sem er að gerast hjá viðskiptavinum af mikilli nákvæmni.
Ég prófaði þetta sjálfur um daginn og tók skyrdollu úr hillu og setti í pokann hjá þeim sem var með mér, alveg þétt við hliðina á mér. Þetta dugði ekki til, ég fékk reikninginn (Þetta barst í tal í umfjöllun Tæknivarpsins, þar sem Amazon Go heimsókn var til umfjöllunar). Það er ómögulegt að stela úr versluninni ef þú kemst inn í hana á annað borð með innskráningu. Því App-ið er ekki uppsett nema með tengingu við greiðslukort og svæðið þitt hjá Amazon. Reikningurinn fer þangað að lokum, alveg sama hvað fólk reynir.
Búnaðurinn frá Amazon gerir verslunum mögulegt að nýta mun betur verslunarrými og skipuleggja hvern fermetra betur. Bæði hvað varðar lager - sem í tilfelli Amazon er að mestu tölvustýrður með sjálfvirkum áfyllingum í „bakenda“ verslunarinnar - og inn í versluninni sjálfri.
Töluvert hefur verið skrifað um það í greiningum á Amazon Go tækninni að svo gæti farið að tæknin sjálf verði það sem Amazon muni leggja áherslu á í framtíðinni. Þannig geti verslanir keypt tæknina til notkunar og fyrirtækið síðan greitt mánaðargjald til Amazon fyrir nota tæknina.
Ekki liggur fyrir ennþá hvernig þetta verður hugsað en margt bendir til þess að Amazon ætli sér að verða að risa í hefðbundinni smásölu alveg eins og í verslun á netinu. Þannig verður Amazon án ef stærsti kaupmaður á horni sem fyrirfinnst í veröldinni, áður en langt um líður, og vex síðan með ótrúlegum hraða í netverslun sömuleiðis.
Samkeppnisspurningar vakna
Þó þessi magnaða tækni Amazon sé heillandi - og auðvelt að sjá fyrir sér að hún muni gjörbreyta verslun og þjónustu almennt (stutt í að lestarstöðvar og slíkir staðir verða með slíka tækni) - þá vakna einnig spurningar um hvort þessi risavæðing í tækninni sé æskileg.
Amazon hefur t.d. nú þegar stigið stór skref inn í fjármálageirann með greiðslutækni sinni, Amazon Pay, og einnig nýjum lausnum. Í vor hóf fyrirtækið að bjóða Amazon Prime notendum, sem er nú rúmlega 120 milljónir, að fá Amazon greiðslukort í samstarfi við viðskiptabanka, þar sem eru fastir afslættir ef verslað er við Amazon (5 prósent) og síðan 2 prósent afsláttur af allri annarri veltu.
Þetta þykja góð kjör en kortið er frítt og er inn í árgjaldi Amazon Prime notenda.
Hvar eiga mörkin að liggja? Hvenær er einokunarstaða búin að myndast? Hvernig verða markaðir skilgreindir í framtíðinni, þegar tæknin virðist vera að brjóta upp hefðbundnar markaðsskilgreiningar og setja þannig lög og reglur að mörgu leyti í uppnám? Á það að verða eðlilegt að smásölufyrirtæki geti líka verið fjármálafyrirtæki? Getur verið að tæknirisarnir séu nú þegar búnir að gjörbreyta samkeppnisumhverfinu þannig að núverandi löggjöf er einfaldlega úrelt?
Markaðshlutdeild Amazon er nú þegar orðin mikil á Íslandi, svo dæmi sé tekið, með verslun á netinu. Markaðsvirði Amazon nemur í dag 950 milljörðum Bandaríkjadala, en til samanburðar þá nemur virði allra skráðra félaga á Íslandi um 10 milljörðum Bandaríkjadala.
Mikilvægt er fyrir löggjafann á Íslandi, og reyndar smásölugeirann í heild, að greina þessar spurningar vel, samhliða því að þessi tækni er nú að fara ryðjast yfir heiminn með fyrirsjáanlegum breytingum.
Alveg eins og þegar Jón Ásgeir og Jóhannes komu fram með strikamerkin, þá verður ekki aftur snúið þegar ný og byltingarkennd tækni er tekin í notkun eins og sú sem Amazon hefur þróað.