Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í dag frumvarp um breytingar á lögum um veiðigjöld og við fyrsta lestur virðist um skynsamlegar breytingar að ræða.
Það sem vegur þyngst er að aðferðafræðinni er breytt og veiðigjöldin gerð næmari fyrir sveiflum í greininni.
Skynsamleg nálgun
Helsti galli fyrirkomulagsins sem nú er fyrir hendi er að veiðigjöldin hafa verið innheimt út frá tveggja til þriggja ára gömlum gögnum, þar sem gögn Hagstofu Íslands hafa verið helsta forsendan. Þetta gerir það að verkum að innheimtan getur orðið bæði óskilvirk og erfið fyrir mörg fyrirtæki, sem á endanum skilar síðan minnu í ríkiskassann inn í framtíðina.
Það virðist skynsamlegt að miða við nýrri gögn frá Ríkisskattstjóra og gera innheimtuna þar með næmari.
Veiðigjöld eru sjálfsagður hluti auðlindastýringar sem ríkið á og stýrir, sem er lögsaga landsins. Það hefur tekið sinn tíma að útfæra aðferð sem getur orðið grundvöllur fyrir innheimtu veiðigjalda til lengdar litið en með nýframkomnu frumvarpi eru komnar fram forsendur til þess að ná sátt um þessi mál. Þetta gæti orðið stórt mál fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Eflaust munu einhverjar útgerðir mótmæla, en þá verður svo að vera. Það er samt verið að taka tillit til gagnrýni úr sjávarútvegnum með þessum breytingum.
Deilunum um fiskveiðistjórnunarkerfið mun eflaust ekki ljúka í bráð og ekki ætlunin að leiða þá umræða til lykta hér, eða reifa öll sjónarmiðin til enda.
Eins og sjávarútvegurinn er að þróast þá eru aflaheimildir sífellt að færast á færri hendur og mikil verðmæti er að verða til.
Miklar eignir og sterkur efnahagur
Það styttist í að fyrsti milljarðamæringurinn í Bandaríkjadölum talið komi fram í íslenskum sjávarútvegi og sé mið tekið af þróuninni á undanförnum árum þá er ekki langt í það gerist. Ef það hefur þá ekki þegar gerst, enda hefur efnahagur margra stærstu útgerða landsins styrkst verulega á undanförnum tíu árum og eigenda þeirra þar með einnig. Þetta er um margt fagnarefni í raun, því sterkur sjávarútvegur hefur jákvæð áhrif hagkerfið.
Sem dæmi má nefna, þá nemur virði aflaheimilda Ögurvíkur, sem gerir út einni togara, Vigra Re, um 14,5 milljörðum króna, samkvæmt nýlegu verðmati, sem birt var í dag. Það er upphæð sem myndi duga til að kaupa 68 prósent af hlutafé VÍS, eins stærsta tryggingarfélags landsins.
Það eru ekki allir sem átta sig á þessum miklu stærðum og verðmætum í sjávarútvegnum, og hversu fjársterk fyrirtækin eru, mörg hver. Þau hafa mikla fjárfestingagetu.
Ekki dreift eignarhald
Það voru eflaust ekki margir sem sáu það fyrir, þegar lögum um stjórn fiskveiða var breytt og framsal aflaheimilda heimilað, að útgerðirnar í landinu yrði flestar fjölskyldufyrirtæki í eigu nokkurra einstaklinga.
Í umræðum í aðdraganda breytinga hjá stjórnmálamönnum töluðu margir um mikilvægi þess að halda fyrirtækjunum í dreifðu eignarhaldi, en það hefur ekki orðið raunin í íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Oft er talað um að umfang íslenska lífeyrissjóðakerfisins í íslensku atvinnulífi sé alltof mikið, en samtals eiga sjóðirnir um þrjú þúsund milljarða króna eignir á Íslandi, eða sem nemur um einni árlegri landsframleiðslu (Heildareignir eru um 4 þúsund milljarðar).
Samt er merkilegt að íslenskir lífeyrissjóðir, og þar með almenningur, á lítið sem ekkert í íslenskum sjávarútvegi, séu hlutir í HB Granda undanskildir. Þetta er um margt merkilegt í ljósi mikilvægis íslensks sjávarútvegs fyrir íslenska hagkerfið.
Mögulega liggur möguleikinn í því að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið í því að dreifa eignarhaldinu meira, hver veit.
Opið frekar en lokað
Nú þegar þriggja áratuga löng reynsla fer að komast á grunnstoðirnir í íslenska fiskveiðstjórnunarkerfinu - og loks að myndast sterkari grunnur fyrir því að festa skynsamleg veiðigjöld í sessi - þá er áhugavert að hugsa til þess hvert eigi að vera næsta skref í þróun kerfisins.
Án þess að ég ætli mér að fara sérstaklega út á það sprengjusvæði sem umræða um pólitíska stefnu við fiskveiðistjórn er, þá er erfitt að neita því að fiskveiðistjórnunarkerfið okkar, hefur um margt reynst vel, og byggt upp innviði í sjávarútvegi sem mörg önnur ríki öfunda Ísland af. Það á meðal annars við um tæknilega uppbyggingu.
Hins vegar er það mikið álitamál hvort það sé komin upp staða einokunar, vegna þess hve innleið á þennan markað er orðin erfið. Bannið við erlendri fjárfestingu í greininni getur nú þegar hafa skapað þessa stöðu og innan þessara viðskiptahafta „blómstrar einokun“, eins og það er stundum kallað erlendis. Þar sem einstaka geirar og eigendur fyrirtækja eru varðir fyrir erlendri samkeppni með lögum.
Í þessum geira eins og öðrum ættu rökin fyrir að vera með opin og frjáls alþjóðaviðskipti að vega sterkar en að hefta þau með ströngum lögum, eins og reyndin er í íslenskum sjávarútvegi. Eitt af því sem opnun fyrir alþjóðlegri samkeppni gerir er að þá verða þeir sem keppa á markaðnum að fara að feta sig inn á alþjóðlega markaði af meiri ákefð. Þar gæti samkeppnisforskot íslensks sjávarútsvegs legið, því hann er langt um þróaðari heldur en í mörgum öðrum ríkjum. Kannski er erlend samkeppni ekki neitt sem þarf að óttast, síður en svo.